María Auður Guðnadóttir fæddist í Botni í Súgandafirði 6. júní 1932. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík 21. júlí 2016.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðni Jón Þorleifsson, f. 25.10. 1887, d. 1.4. 1970, og Albertína Jóhannesdóttir, f. 19.9. 1893, d. 2.1. 1989. Þau bjuggu lengst af í Botni en síðustu árin á Suðureyri við Súgandafjörð. Systkini Maríu Auðar eru: 1) Sigurður, f. 11.12. 1914, d. febrúar 1959, kvæntur Sveinbjörgu Eyvindsdóttur, d. 1959. 2) Guðrún Pálmfríður, f. 9.9. 1916, d. 1997, gift Kjartani Ólafssyni Sigurðssyni, d. 1956. 3) Þorleifur Guðfinnur, f. 11.7. 1918, d. 2007, sambýliskona Marianne Jensen, d. 2011. 4) Sveinn, f. 23.11. 1919, d. 2005, kvæntur Sigríði Finnbogadóttur, d. 1997. 5) Jóhannes, f. 29.9. 1921, d. 1990, kvæntur Aldísi Jónu Ásmundsdóttur, d. 2008. 6) Guðmundur Arnaldur Guðnason, f. 1.12. 1922, d. 2007. 7) Einar, f. 6.11. 1926, d. 2014, kvæntur Guðnýju Guðnadóttur. 8) Guðni Albert, f. 3.4. 1928, kvæntur Júlíönu Jónsdóttur. 9) Gróa Sigurlilja, f. 24.11. 1930, gift Páli Guðmundssyni. 10) Sólveig Dalrós, f. 11.6. 1934, d.1939.

María Auður giftist Leifi Sigurðssyni 17. nóvember 1951. Hann var f. á Akranesi 22.7. 1929, d. 19.8. 1998. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Eðvarð Hallbjarnarson, f. 28.7. 1887 á Hóli, Suðurfjarðarhreppi, V-Barðastrandarsýslu, d. 3.7. 1946, og Ólöf Guðrún Guðmundsdóttir, f. 30.12. 1894 á Gelti í Súgandafirði, d. 18.1. 1983. Leifur átti ellefu systkini.

Börn Leifs og Maríu eru: 1) Sólveig, f. 21.9.1951, gift Gísla Blöndal, f. 8.7. 1947. Börn þeirra: a) María Auður Steingrímsdóttir, f. 28.4. 1970, gift Oddi Hafsteinssyni, f. 22.9. 1965, þeirra börn Rikharð Atli, f. 24.7. 1998, Sólveig Erla, f. 30.4. 2001 og Hekla María, f. 8.7. 2005. b) Leifur G. Blöndal, f. 4.5. 1975, sambýliskona Petra Dröfn Guðmundsdóttir, f. 26.4. 1983, þeirra börn Elísa Líf, f. 29.1. 2002, Sóldís Björt, f. 2.4. 2004, og Vigdís Eva, f. 1.2. 2009. 2) Halla, f. 6.3. 1957, gift Jóni Pétri Guðbjörnssyni, f. 7.8. 1957. Börn þeirra: a) Eiríkur Gísli Johansson, f. 20.6.1983, kvæntur Fannýju Margréti Bjarnardóttur, f. 6.6. 1983, þeirra barn Guðrún María, f. 21.8. 2012. b) Guðbjörn Jónsson, f. 13.5. 1991.

María Auður lauk skyldunámi frá Barnaskólanum á Suðureyri. Auk húsmóðurstarfsins vann hún lengi við verslunarstörf og fatasaum.

Hún var einn af stofnendum Súgfirðingafélagsins í Reykjavík árið 1950 og starfaði innan félagsins um árabil – bæðí í stjórn félagsins og Viðlagasjóði innan þess.

Hún var félagi í Oddfellowreglunni og gekk í Rbst. nr. 4, Sigríði, I.O.O.F., árið 1982.

Úför Maríu Auðar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 4. ágúst 2016, og hefst athöfnin kl. 13.

Látin er í Reykjavík yngsta föðursystir mín sem komst til fullorðinsára, María Auður Guðnadóttir, á háum aldri. Ekki er hægt að segja að andlát hennar kæmi á óvart en hún hafði verið veik af alvarlegum sjúkdómi um skeið. En að lokum fékk hún hægt andlát og lausn frá sínum þjáningum. En söknuður okkar sem höfum alla ævi þekkt þessa yndislegu konu er samt mikill.

Með mínum fyrstu bernskuminningum eru minningar um þau föðursystkini mín sem komu gjarnan til okkar á Hverfisgötuna og voru hvert öðru fallegra og skemmtilegra. Mér fannst mikill heiður að því að fá að anda að mér sama lofti og þau, svo mikið fannst mér til þeirra koma. Þau voru hvert öðru fríðara, með dökkt liðað hár og þvílíkt skemmtileg og glæsileg og svo sungu þau eins og englar. Þegar ég var orðin sex ára fékk ég fyrst að fara vestur á þeirra heimaslóðir í Botni í Súgandafirði og var þar í þrjú sumur hjá afa og ömmu og frændfólkinu og á þaðan góðar minningar. Ég var auðvitað lítill krakkakjáni en það fór þó ekki fram hjá mér hversu afburðavel þetta fólk var verki farið og harðduglegt. Og ekki síst hún Mæja mín sem allt lék í höndunum á, bakaði heimsins bestu hveitibrauð og kanilbrauð, þó að aðeins væri kolaeldavél í Botni þá. Auk þess tók hún aldeilis til hendinni við rakstur á túnum og engjum, eldaði mat og þvoði upp sem var ekkert smáræði því þarna var ótrúlega margt fólk í mat þótt húsakynnin væru lítil. Samt náði þessi kona að sauma á sig glæsiflíkur á síðkvöldum og engar voru eins flottar á böllunum fyrir vestan og þær systur, Mæja og Gróa. Og ábyggilega engar eins kátar og glaðar. Og svo sungu þær svo vel sem kom sér vel á löngum og erfiðum bílferðum sem voru farnar á böllin. Eftir að Leifur kom til var lítil frænka í laumi að fylgjast með þeim ástaraugum sem þau sendu hvort öðru, Mæja og hann. Það var ekkert smá spennandi.

Seinna, þegar ég sjálf var komin með minn barnahóp, fékk ég að fara með pabba og mömmu í Botn á sumrin og það voru yndislegustu sumarfrí ævi minnar. Þar var oft nokkuð þröngt í kotinu, sofið á dýnum á gólfum en þeim mun meiri gleði og samheldni. Þar var sungið heilu kvöldin við undirleik pabba eða Guðna frænda, alltaf kunnu þær systur alla texta og ég reyndi að læra af þeim. Þvílík sönggleði, það hlýtur að hafa tekið undir í fjöllunum. Og ef Mæja var í stuði þá söng hún einsöng fyrir okkur og jóðlaði. Betur en ég hef heyrt aðra gera hér á landi. Þessi kvöld eru mér ógleymanleg.

Nú þegar hún frænka mín er liðin ímynda ég mér að andi hennar leiti í fjörðinn hennar fagra. Þar mun hún una sér vel með sínum um ókomin ár. Aldrei mun ég ganga þar um garða nema minnast hennar Mæju minnar.

Blessuð sé minning hennar.

Sigríður

Jóhannesdóttir.