[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hildur Árnadóttir fæddist 4. ágúst 1966 í Keflavík og ólst þar upp. Hún gekk í grunnskóla í Keflavík, tók samvinnuskólapróf 1984, stúdentspróf frá framhaldsdeild Samvinnuskólans 1986, hún varð viðskiptafræðingur (Cand. oecon.

Hildur Árnadóttir fæddist 4. ágúst 1966 í Keflavík og ólst þar upp. Hún gekk í grunnskóla í Keflavík, tók samvinnuskólapróf 1984, stúdentspróf frá framhaldsdeild Samvinnuskólans 1986, hún varð viðskiptafræðingur (Cand. oecon.) 1991 og löggiltur endurskoðandi 1995.

Starfsferill

Hildur vann hefðbundin sumarstörf í Keflavík eins og að vinna í frystihúsi á staðnum, sumarstörf hjá föður sínum á Bókhaldsstofu Árna R. Árnasonar í Keflavík, starfaði með námi hjá G. Á. Péturssyni hf. og Vélsmiðju Jóns Sigurðssonar hf.

Hildur var starfsmaður og síðar meðeigandi hjá KPMG Endurskoðun hf. 1990-2014, fjármálastjóri hjá Bakkavör Group hf. 2004-2008, sat í ýmsum stjórnum auk ráðgjafarstarfa fyrir Bakkavör Group ehf. 2008-2014 og var forstöðumaður fjárstýringar hjá Íslandsbanka 2014-2015, „Ég er núna sjálfstætt starfandi, sinni ýmiss konar ráðgjöf og sit m.a. í stjórn Summu rekstrarfélags hf. og í endurskoðendaráði. Við hjónin erum einnig með smárekstur í Vík í Mýrdal þar sem við leigjum út nokkrar íbúðir til ferðamanna, bæði ein og í félagi við aðra.“

Áhuga- og félagsmál

„Áhugamál mín tengjast flest útivist eins og golf, skíði, gönguferðir og veiði. Ég veit fátt skemmtilegra en að vera í góðum félagsskap þar sem er slegið á létta strengi. Ég er í golfhóp í GR sem kallar sig Vippurnar. Þá er ég í hópi sem kallast Kollurnar, þar eru nokkur pör sem spila saman golf reglulega yfir sumarið. Ég fer í eina alvöru gönguferð á ári með gönguhópnum Krummafætur, með þeim hef ég farið á Hornstrandir, gengið í nágrenni Tálknafjarðar, Kerlingarfjöll, Snæfellsnes í Skagafirði og á fleiri stöðum.

Þá reyni ég að fara eina veiðiferð á ári með Árdísunum sem er félag kvenna með áhuga á stangveiði og mun fara með þeim í Laxá í Leirársveit þetta árið. Við erum einnig að prófa að stunda stangveiði sem hjónasport og förum við með góðum vinum í Sandá í Þistilfjörð eftir nokkra daga. Svo er ég í saumaklúbbi með góðum vinkonum frá því í viðskiptafræðinni. Svona vinátta er dýrmæt og við njótum þess að hittast reglulega yfir veturinn, makar okkar eru auk þess góðir vinir líka og fer hópurinn reglulega í ferðalög saman.

Ég hef starfað að ýmsum félagsmálum og má þar nefna félagsskapinn LeiðtogaAuður sem ég tók reyndar þátt í að umbreyta og gera að deild í Félagi kvenna í atvinnurekstri. Þá sat ég í Viðskiptaráði frá 2008-2016 og var í ráðgjafaráði Háskólans í Reykjavík um tíma.

Þá hefur mikill tími farið í endurbyggingu gamalla húsa sem við hjónin eigum í Vík í Mýrdal og stendur nú yfir endurbygging á einu slíku og er óhætt að segja að þannig framkvæmdir taki töluverðan tíma og situr golfið aðeins á hakanum þetta sumarið.“

Fjölskylda

Eiginmaður Hildar er Ragnar Þórir Guðgeirsson, f. 28.7. 1965, einn af stofnendum ráðgjafafyrirtækisins Expectus ehf. og starfar við ráðgjöf hjá því félagi og er jafnframt stjórnarformaður þess. Foreldrar Ragnars: Guðgeir Guðmundsson, f. 19.3. 1927, d. 30.12. 2003, vélgæslumaður, og k.h. Katrín Sigrún Brynjólfsdóttir, f. 14.9. 1926, d. 2.1. 2004, verslunarmaður í Vík í Mýrdal.

Börn Hildar og Ragnars: Katrín Ragnarsdóttir, 11.1. 1993, háskólanemi í Reykjavík, unnusti hennar er Kristján Einar Auðunsson, háskólanemi í Reykjavík, og Ragnar Geir Ragnarsson, f. 13.7. 1997, Verslunarskólanemi.

Systkini: Guðrún Árnadóttir, f. 21.5. 1963, sjálfstætt starfandi, bús. í Reykjavík; Björn Árnason, f. 26.10. 1971, forstöðumaður hjá Arion banka hf., bús. í Hafnarfirði; Árni Árnason f. 7.11. 1973, verkefnastjóri hjá Greyline, bús. í Kópavogi.

Foreldrar Hildar: Árni Ragnar Árnason, f. 4.8. 1941, d. 16.8. 2004, fjármálastjóri og síðar alþingismaður, og k.h. Guðlaug Pálína Eiríksdóttir, f. 23.11. 1944, fv. bankastarfsmaður og innheimturáðgjafi, bús. í Kópavogi.