Ingibjörg Steinunn Jónsdóttir fæddist á Akureyri 31. ágúst 1948. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 25. júlí 2016.

Foreldrar hennar eru Cecilía Steingrímsdóttir, f. 8. september 1929, og Jón Hallgrímsson, f. 31. október 1924, d. 14. september 1994. Ingibjörg var elst fjögurra systkina, hin eru: Jóhann Steinar, f. 19. nóvember 1949, Eggert Heiðar, f. 1. júlí 1951, og Heiðrún Helga, f. 22. september 1954.

Eiginmaður Ingibjargar er Guðmundur Gíslason, f. 24. mars 1937. Foreldrar hans voru Kristín Helga Sigurðardóttir, f. 6. júní 1897, d. 10 september 1986, og Gísli Gíslason, f. 5. desember 1897, d. 26. mars 1981, að Hóli Ólafsfirði. Ingibjörg og Guðmundur gengu í hjónaband í Akureyrarkirkju 2. maí 1970. Þau eignuðust tvær dætur: 1) Helgu Björgu, f. 29. desember 1969, sambýlismaður hennar er Páll Svavarsson. Eiga þau saman soninn Svavar Inga Pálsson, f. 2012. Helga á fyrir tvær dætur með Úlfari Agnarssyni, þær Eddu Heiðrúnu og Ingibjörgu Guðrúnu, f. 1989. Maki hennar er Jóhann Már Sigurbjörnsson, eiga þau saman dótturina Sesselíu Maríu, f. 2015. 2) Heiðu Jónu, f. 29. desember 1969. Hún er gift Jóni H. Eyþórssyni. Eiga þau saman tvo syni, þá Guðmund Inga, f. 1996 og Grétar Óla, f. 1997.

Ingibjörg lauk hefðbundinni skólagöngu frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Hún fluttist til Ólafsfjarðar árið 1970 að Ólafsvegi 17 þar sem hún bjó alla sína búskapartíð. Fyrstu þrjú árin var hún heima við með dæturnar, hún hóf síðan störf hjá Kaupfélagi Ólafsfjarðar þar sem hún vann í nokkur ár. Þá fór hún að vinna hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar þar sem hún átti 29 ára starfsferil.

Útför Ingibjargar fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 4 ágúst 2016, klukkan 14.

Með sárt hjartað sit ég hér og skrifa minningargrein til þín, amma mín. Ég trúi ekki enn þá að þú sért farin frá okkur og ég fái aldrei að knúsa þig aftur. Elsku besta amma mín, orð fá því ekki lýst hversu sorgmædd í hjartanu mínu ég er að hafa þurft að kveðja þig svona snemma.

Amma, þú varst konan sem tókst öllum með opnum faðmi og þótti vænt um alla. Alltaf stutt í hláturinn og fallega brosið þitt og alltaf svo hlý og góð. Dugnaðarkona í húð og hár. Alltaf með moppuna í vinstri og bekkjarýjuna í hægri. Baksturinn hjá þér var alltaf til fyrirmyndar, þú sættir þig aldrei við ljótt brauð, þú hentir því frekar í ruslið og bjóst til nýtt því þú myndir aldrei bera það á borð. Ég er svo þakklát fyrir að hafa verið ömmustelpan þín. Þú gerðir allt fyrir okkur barnabörnin og réttir alltaf út hjálparhönd ef eitthvað kom upp á eða fór úrskeiðis. Amma dúllaðist endalaust í kringum okkur og ef við komum í götóttum sokkum eða með göt á fötunum okkar, þá tók hún aldrei annað í mál en að stoppa í götin.

Amma Inga sem var alltaf svo mikil gella og fór aldrei neitt án varalits, er við hringdum í ömmu og afa á Skype þá kom stundum bara hvítur veggur, þá var mín bara að setja á sig varalit. Er í útvarpinu heyrðirðu gott lag sem þú þekktir þá hikaðirðu ekki við að taka danssporin og greipst alltaf í afa og tókuð þið dans á eldhúsgólfinu. Amma Inga mun alltaf vera fyrmyndin í mínu lífi, svo flott og glæsileg kona. Ég mun minnast ömmu alla daga og mun hún alltaf eiga stóran part í mínu hjarta. Amma var svo sterk og dugleg og þrátt fyrir lítinn líkama þá barðist hún við sjúkdóminn eins og klettur. Við fjölskyldan höfum misst stóran part úr lífi okkar og það verður svo erfitt að geta ekki hringt í ömmu Ingu og heyrt í henni hljóðið og fá ráð hjá henni, manni leið alltaf svo vel í hjartanu að vera búinn að spjalla við ömmu um allt milli himins og jarðar.

Elsku amma mín, mér þykir sárt að þurfa að kveðja þig, en það huggar mig þó að vita að þér líður betur núna. Guð gefi þér góða nótt, amma mín, og góða ferð í sumarlandið. Ég elska þig af öllu mínu hjarta.

Við höfði lútum í sorg og harmi

og hrygg við strjúkum burt tárin af hvarmi.

Nú stórt er skarð í líf okkar sorfið

því fegursta blómið er frá okkur horfið.

Með ástúð og kærleik þú allt að þér vafðir

og ætíð tíma fyrir okkur þú hafðir

þótt móðuna miklu þú farin sért yfir

þá alltaf í huga okkar myndin þín lifir.

Við kveðjum þig, amma, með söknuð í hjarta,

en minning um faðmlag og brosið þitt bjarta.

Allar liðnar stundir um þig okkur dreymi

og algóður Guð á himnum þig geymi.

(Sigfríður Sigurjónsdóttir)

Edda Heiðrún

Úlfarsdóttir.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Hugboð mitt um að drífa mig norður í Ólafsfjörð til að hitta vinkonu mína einu sinni enn reyndist rétt. Hún átti ekki langt eftir meðal okkar. Úr fjarlægð hef ég fylgst með Ingu berjast við illvígan sjúkdóm af miklu æðruleysi. Svo fínleg og falleg tók hún mér opnum örmum eins og ævinlega þegar leiðir okkar lágu saman.

Það leyndi sér aldrei í samtölum okkar að fjölskyldan var henni alltaf efst í huga. Hún var yndisleg móðir og amma og trygg og góð vinkona. Þó að langt væri á milli okkar nýttum við augnablikin og þau voru mörg og ljúf í gegnum áratugina. Frá ættaróðalinu Hóli í Ólafsfirði eru ótal ógleymanlegar gleðistundir með Ingu og Munda en þar voru ósjaldan stigin létt dansspor í uppgerðu, glæsilegu fjósinu.

Með sorg í hjarta en jafnframt þakklæti fyrir dýrmæta vináttu kveð ég mína yndislegu vinkonu.

Elsku Mundi, Helga, Heiða og fjölskyldur. Missir ykkar er mikill, guð blessi ykkur og styrki.

Freyja

Sverrisdóttir.