[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Helgi Elíasson fæddist 5. mars 1965 á Sólvangi í Hafnarfirði. Hann lést á líknardeild Landspítalans 13. júlí 2016.

Foreldrar hans eru hjónin Erla B. Bessadóttir, f. 2. janúar 1932, og Elías Gunnar Helgason, f. 29. maí 1935, d. 14. ágúst 1992.

Systkini hans eru Bessi Halldór Þorsteinson, kvæntur Agnesi Jóhannsdóttur, börn þeirra eru Örvar, kvæntur Kamillu Þorsteinsdóttur, Tinna gift Jóni Björgvini Björnssyni og Sindri kvæntur Jóhönnu Írisi Ingólfsdóttur, barnabörnin eru tólf, og Sigurrós Elíasdóttir, börn hennar eru Kristján Sigurðsson og Eva Rós Sigurðardóttir, hún á eitt barnabarn.

Helgi kvæntist Anniku Eline Iwersen 9. júlí 2011, þau skildu.

Helgi bjó alla tíð í Hafnarfirði, hann gekk í Víðistaðaskóla og Lækjarskóla og fór síðar í Iðnskólann í Hafnarfirði þaðan sem hann útskrifaðist sem iðnhönnuður 1997.

Hann vann í fiski, við garðyrkjustörf, í prentsmiðju, við blikksmíði og ýmislegt fleira.

Hann tileinkaði sér forn vinnubrögð í gegnum nám sitt í Iðnskólanum, svo sem útskurð í tré, stein og horn, torfhleðslu og eldsmíði og sýndi hann handtökin m.a. á víkingahátíðinni í Hafnarfirði og víðar.

Hann vann við leikmyndagerð fyrir myndina Myrkrahöfðingjann.

Helgi var flinkur teiknari og skar út í tré. Verk eftir hann má sjá á Víðistaðatúninu í Hafnarfirði.

Hann var áhugamaður um hlutverkaspil og var um tíma framkvæmdastjóri spilafélagsins Fáfnis.

Kveðjuathöfn verður frá Fjörukránni í Hafnarfirði í dag, 4. ágúst 2016, og hefst hún kl. 14. Bálför hefur farið fram.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

Eg veit einn

að aldrei deyr:

dómur um dauðan hvern.

(Úr Hávamálum)

Hringnum er lokið.

Hann Helgi bróðir minn trúði því að lífið færi í hringi, eitt tæki við af öðru.

Ég sest niður til að skrifa nokkur minningarorð um Helga. Hugsanirnar eru á fleygiferð, minningarnar koma hver af annarri í myndum, en það er erfitt að koma orðum að.

Síðasta myndin er af okkur systkinum síðasta daginn í lífi Helga, við Bessi sitjum við rúmið hans, tölum við hann og höldum í hendurnar á honum.

Fyrsta myndin er þegar hann er nýfæddur, við stöndum við vögguna hans og dáumst að þessum nýja einstaklingi.

Myndirnar halda áfram að hellast fram, þær eru óteljandi. Litli bróðirinn sem skottast um allt. Unglingurinn, pönkarinn. Eldsmiðurinn á víkingahátíð. Leðurjakkinn, pípan, vindlarnir.

Það var stutt og snörp glíman við krabbameinið sem hann Helgi bróðir háði og tapaði að lokum. Á þeim tíma frá því að hann fékk að vita að meinið væri ólæknanlegt og til enda notaði hann til að skipuleggja eigin jarðarför. Hann var með sterkar hugmyndir um hvernig hún ætti að vera, það sem við höfum verið að gera að undanförnu er að framfylgja þeim óskum.

Farðu í friði, elsku bróðir, þín verður sárt saknað. Megi allar góðar vættir fylgja þér um ár og síð.

Þessum hring er lokið.

Hugur einn það veit,

er býr hjarta nær,

einn er hann sér of sefa.

(Úr Hávamálum)

Sigurrós Elíasdóttir

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Kæri frændi.

Það að rita þessa minningargrein er eitt það erfiðasta sem ég hef tekið mér fyrir hendur.

Ekki endilega vegna þess að það sé líkamlega erfitt heldur vegna þess að missa mann eins og þig er ekki auðvelt, þú varst „stóri bróðir“. Þó að þú hafir verið föðurbróðir minn var okkar samband alltaf meira en að við værum bara frændur. Stóran hluta æsku minnar var ég hjá ömmu og afa og þar varst þú, alltaf til í að leika við mig hvort sem það var í tindátaleik, grafa upp orma eða fara með þessa blessuðu orma og veiða eitthvað á þá. Snemma beygðist krókurinn, þú varst auðvitað veiðimaður eins og pabbi þinn, ég man eftir mörgum veiðiferðum þar sem við áttum samtöl um hvað hentaði best sem agn, hvernig fiskurinn tekur og sérstaklega man ég þó eftir kenningu þinni um tímann á tökunni. En eitt er mér þó alltaf efst í huga þegar ég hugsa til þín, það er tónlistin og þá sérstaklega írsk þjóðlagatónlist og að sjálfsögðu pönkið. Við áttum margar góðar stundir við það að hlusta á plötur og alltaf þurfti að klára hverja plötu og ræða um lögin á henni. Við áttum margt sameiginlegt. Þegar við vorum unglingar þá voru það víkingar, ævintýraheimar og hlutverkaspil sem við gátum eytt tímum og jafnvel dögum saman í, það voru góðir tímar. Það er ekki hægt að rita þessa grein án þess að minnast á það að þér fylgdi „svartur hundur“ sem litaði allt þitt líf, Það var ekki alltaf auðvelt að vera þú. Það var mikil gæfa að þú hafir fengið að kynnast ástinni, henni kynntist þú hjá henni Anniku sem flutti til þín, þið giftust svo á fallegum degi í Hvalfirðinum. Ég hef engin orð til að lýsa því hvernig þú barðist til síðasta dags við krabbamein sem dró þig svo loks til dauða, en æðruleysi og karlmennska er það sem mér dettur í hug, það að skipuleggja eigin jarðarför er eitthvað sem enginn getur ímyndað sér hvernig er. Það voru ekki margir dagar sem þú fékkst eftir að við fengum þær fréttir að þú værir veikur. Megi allar góðar vættir fylgja þér á ferð þinni til Valhallar.

Örvar Bessason.

Helgi Elíasson, frændi okkar systra lést eftir skamma sjúkralegu hinn 13. júlí síðastliðinn. Hann var aðeins 51 árs gamall er hann yfirgaf þessa jarðvist og trúði því, að hætti ásatrúarmanna, að framundan væri löng ferð til annarra heima og þar myndi hann undirbúa sig fyrir næsta tilverustig.

Við systkinabörnin, barnabörn Bessa B. Gíslasonar og Lilju Eyjólfsdóttur stigum mörg okkar fyrstu skref á vinnumarkaði í fyrirtæki afa okkar, Fiskverkun Bessa B. Gíslasonar á 8. og 9. áratugnum. Þar eyddum við sumrunum við harðfiskverkun og kynntumst þá á annan hátt en í hinum hefðbundnu fjölskylduboðum. Helgi vann í mörg ár við fjölskyldufyrirtækið og gekk þar í ýmis störf en starfaði síðar við byggingarvinnu og fleira. Helgi var afar listrænn sem útskurðargripir hans bera glögg merki.

Hann hélt heimili í Hafnarfirði með móður sinni alla tíð sem nú syrgir sitt yngsta barn. Helgi gekk í hjónaband árið 2011 með Anniku Eline Iwersen, sem flutti í kjölfarið inn á heimili hans og móður hans. Annika og Helgi skildu árið 2015.

Eins og svo margir unglingar upp úr 1980 heillaðist hann frændi okkar af pönkinu og öllu sem því fylgdi; þar fann hann farveg sem hann fylgdi alla tíð. Líklega má segja að hann hafi verið lífstíðarpönkari enda var Helgi ekkert mikið fyrir að feta troðnar slóðir í lífinu. „Ég er anarkisti eða stjórnleysingi,“ sagði hann í viðtali í Helgarpóstinum árið 1981, þar sem hann var tekinn tali fyrir það að vera pönkari á síðu sem bar yfirskriftina Stuðarinn og var ætluð ungum lesendum blaðsins. „Ég er bara á móti stjórn og öllu sem að því lýtur. Mér finnst að allir eigi að ráða sér sjálfir.“ Og það gerði hann alla tíð.

Síðar gekk hann í Ásatrúarfélagið þar sem hann fann samhljóm og heillaðist mjög af heimsmynd þess siðar, kærleiknum og náttúruhugmyndum ásatrúarmanna enda var hann Helgi friðarsinni alla tíð.

Við kveðjum nú Helga frænda í hinsta sinn og óskum honum góðrar ferðar á nýjar slóðir.

Hólmfríður og Anna Lilja Þórisdætur.