NATO Í skýrslu CSIS er mælt með því að varnarstöðin verði opnuð aftur.
NATO Í skýrslu CSIS er mælt með því að varnarstöðin verði opnuð aftur. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Varnarþörf Íslands er fullnægt á þessum tímapunkti, að sögn Lilju Daggar Alfreðsdóttur utanríkisráðherra.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Varnarþörf Íslands er fullnægt á þessum tímapunkti, að sögn Lilju Daggar Alfreðsdóttur utanríkisráðherra.

Í nýrri skýrslu Center for Strategic & International Studies (CSIS), alþjóðlegrar rannsóknarstofnunar á sviði öryggismála, segir að NATO og samstarfsríki bandalagsins geti ekki, á þessari stundu, brugðist með skömmum fyrirvara við stórauknum umsvifum Rússa neðansjávar á stórum hluta Norður-Atlantshafs og Eystrasalts. Opna þurfi varnarstöð Bandaríkjanna í Keflavík að nýju.

„Skýrslan er um margt áhugaverð og gott innlegg í umræðu um öryggis- og varnarmál í Evrópu. Það er samt rétt að halda því til haga að þetta er sjálfstæð stofnun og skýrsluhöfundar tala hvorki fyrir bandarísk stjórnvöld né Atlantshafsbandalagið. Afstaða okkar til öryggismála í Norður-Atlantshafi liggur alfarið fyrir,“ segir Lilja Dögg og vísar í sameiginlega yfirlýsingu íslenskra og bandarískra yfirvalda um varnarmál, sem undirrituð var í júní.

Engin áform um auknar varnir

Lilja Dögg segir að ekki sé þörf á auknum vörnum að svo stöddu.

„Þar er gert ráð fyrir tímabundinni viðveru Bandaríkjahers við loftrýmisgæslu og kafbátaleit. Þetta er sú þróun sem hefur verið að eiga sér stað frá árinu 2008, en það eru engar viðræður sem eru að eiga sér stað milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um breytingar á núverandi samstarfi þjóðanna og engar óskir í þá veru hafa borist,“ segir hún.

„Varanleg viðvera Bandaríkjahers eða annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins eða opnun herstöðvar á Keflavíkurflugvelli er að mínu mati algjörlega óhugsandi án undangenginnar opinberrar eða lýðræðislegrar umræðu, bæði á þingi og í samfélaginu,“ segir hún.

Norðmenn skrifuðu nýlega undir nýja yfirlýsingu um varnarmál við Breta, en þeir eiga einnig öflugt varnarsamstarf við Bandaríkin. Svíar skrifuðu undir yfirlýsingu við Bandaríkjamenn nokkrum dögum fyrir yfirlýsingu Íslands og Bandaríkjanna.