Unnar Magnússon fæddist 3. ágúst 1943 að Hvammi í Fáskrúðsfirði. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík aðfaranótt mánudagsins 25. júlí 2016.

Foreldrar hans voru Hólmfríður Sigurðardóttir, f. 22.12. 1919, d. 12.2. 1973, húsmóðir, og Magnús Sigurðsson, f. 23.9. 1918, d. 8.11. 2004, fyrrverandi bóndi og kennari en síðar skrifstofumaður Kaupfélags Stöðfirðinga. Systkini Unnars eru: Sigþór, f. 3.9. 1939, Garðar, f. 20.8. 1940, Sigríður, f. 15.10. 1947, og Elísabet, f. 30.12. 1954.

Maki Unnars er Þorgerður Guðmundsdóttir, f. 12.4. 1948. Börn þeirra eru: 1) Guðmundur, f. 10.3. 1966. Dóttir Guðmundar er Magdalena, f. 1.1. 1991. 2) Margrét Fríða, f. 14.2. 1967. Maki Kristján Viborg, f. 21.4. 1967. Synir þeirra eru Þórólfur Freyr, f. 19.3. 1986, Atli Már, f. 14.4. 1992 og Gunnar Anton, f. 24.7. 2000. 3) Guðlaugur Már, f. 18.8. 1968. Sonur hans og Guðrúnar Láru Baldursdóttur, fyrrverandi eiginkonu er Unnar Leó, f. 28.7. 2006. 4) Hólmar Þór, f. 2.3. 1973. Maki Helga Unnsteinsdóttir. Börn þeirra eru Sindri Már, f. 21.7. 1992 og Kristrún Heiða, f. 10.10. 1993.

Sonur Unnars er Sverrir Unnarsson, f. 16.1. 1966. Maki Laufey Soffía Kristinsdóttir, f. 4.6. 1974. Börn þeirra eru: Lee Ran, f. 20.4. 1992, Nökkvi, f. 12.7. 1994 og Máni, f. 17.1. 2002.

Unnar og fjölskylda bjuggu lengst af á Stöðvarfirði og vann Unnar þar sem sjómaður og verkamaður. Vegna veikinda sinna fluttist hann til Reykjavíkur haustið 2005 og bjó þá hjá Guðlaugi og Guðrúnu í Hamravík í Grafarvogi þar til í byrjun árs 2011. Þá fluttist hann á Hrafnistu í Reykjavík og bjó þar til dánardags. Á starfsfólk þar miklar þakkir skildar fyrir góða umönnun.

Útför Unnars fer fram frá Grafavogskirkju í dag, 4. ágúst 2016, klukkan 13.

Nú ertu hvíldinni feginn, pabbi minn, og ósköp fallegur og friðsæll með smáglott, gott að þú fengir að fara svona í svefni og takk fyrir árin sem við höfðum saman.

Pabbi þú varst hörkuduglegur nagli með góðan húmor, síhrekkjandi fólk en alltaf svona nokkuð góðlátlega, man eftir því þegar þú sagðir við mig „þú segir aldrei nei við aukavinnu, því þá ertu aldrei beðinn aftur“. Ég man eftir sem krakki mörgum gæsa-, rjúpna- já og hreindýraveiðum þar sem þú lagðir mikla áherslu á að fara varlega með skotvopn og svo þegar ég nennti ekki lengur að fara, þá fóruð þið Jói á Borg á veiðar enda alltaf gaman af ykkur félögunum en svo hrönnuðust upp óveðursskýin og veikindi tóku við árið 2005 og þú fluttir frá Stöðvarfirði til okkar Guðrúnar í Hamravíkina, það var nú oft gaman hjá okkur í spjalli langt fram eftir og Unnar Leó kom svo eldsnemma upp til þín, já honum fannst gaman að kúra hjá afa sínum. Enn og aftur, takk fyrir árin, pabbi minn, við feðgar munum kíkja reglulega við hjá þér.

Guðlaugur

Unnarsson.

Nú er hann Unnar eldri, eins og ég kallaði hann eftir að Unnar Leó fæddist, farinn yfir móðuna miklu.

Ég hitti hann fyrst sumarið 1999. Það var líka í fyrsta sinn sem ég kom til Stöðvarfjarðar, æskustöðva Gulla, og hefur mér síðan verið ákaflega hlýtt til þessa fallega staðar. Ég fann strax að þarna var á ferð maður sem mér mundi líka vel við. Ég lærði samt fljótlega að taka öllu með fyrirvara sem hann sagði, enda var hann meinstríðinn og hafði ákaflega gaman af því að segja sögur af prakkarastrikum sínum í garð vinnufélaga sinna í frystihúsinu. Þarna komst ég líka að því hversu mikill matmaður hann var.

Kvöld eitt passaði hann Aron þegar við Gulli skruppum út og höfðum við eldað humarsúpu í stórum potti og hlökkuðum við mikið til að fá okkur aftur þegar heim kæmum. Sú varð þó ekki raunin. Potturinn var tómur þegar við komum heim og þegar Gulli spurði pabba sinn hvort hann hefði borðað alla súpuna játaði Unnar að hann hefði gert það, hún hefði bara verið svo ansi góð.

Haustið 2005 var Unnar orðinn það veikur að hann þurfti að flytjast til Reykjavíkur og bjó hann þá hjá okkur Gulla í Hamravíkinni. Þar kynntist ég honum enn betur og fékk að heyra ótal sögur af Gulla og systkinum hans þegar þau voru ung. Prakkarastrik þeirra voru oftast í fyrirrúmi og hló Unnar oft svo mikið að hann gat varla klárað sögurnar. Hann var einnig mjög áhugasamur um hvað börnin á heimilinu væru að gera og var sífellt að spjalla og gantast við þau.

Þegar svo Unnar Leó eða „nafni“ fæddist í júlí 2006, þreyttist Unnar aldrei á því að fylgjast með honum og var sífellt að spyrja um hvað nafni væri að gera. Unnar Leó var fljótur að fatta hvað afi hans var stríðinn og var oft mikið hlegið á heimilinu að því að sjá þann stutta stríða afa gamla. Eins að sjá þá tvo hreinsa kjöt af beinum, en Unnar eldri nagaði alltaf allt kjöt af beinunum og sá yngri var ekki orðinn þriggja ára þegar hann hafði náð sömu færni.

Minningarnar eru margar og ég gæti endalaust haldið áfram, en læt nú staðar numið.

Elsku Unnar, ég kveð þig nú og trúi því að þú sért orðinn fullfrískur á ný og líði vel hinum megin.

Guðrún

Lára.

HINSTA KVEÐJA
Til afa frá nafna:
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum.)
Unnar Leó.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn.)
Rakel, Karen, Davíð og Aron.