68 Haraldur byrjaði með látum.
68 Haraldur byrjaði með látum. — Ljósmynd/GSÍ
Kylfingurinn Haraldur Franklín Magnús úr Golfklúbbi Reykjavíkur lék afar vel á fyrsta degi Evrópumóts einstaklinga fyrir áhugamenn í golfi en leikið er í Eistlandi. Haraldur lék fyrsta hringinn á 68 höggum, á fjórum höggum undir pari.

Kylfingurinn Haraldur Franklín Magnús úr Golfklúbbi Reykjavíkur lék afar vel á fyrsta degi Evrópumóts einstaklinga fyrir áhugamenn í golfi en leikið er í Eistlandi.

Haraldur lék fyrsta hringinn á 68 höggum, á fjórum höggum undir pari.

Glæsileg frammistaða hjá Haraldi sem fékk sex fugla, tvo skolla og tólf pör á hringnum.

Fleiri Íslendingar fundu sig vel en alls á Ísland fimm fulltrúa í mótinu. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, einnig úr GR, og Rúnar Arnórsson úr Keili voru á 71 höggi og eru því einnig undir parinu að loknum fyrsta keppnisdegi.

Gísli Sveinbergsson úr Keili lék á parinu en Andri Þór Björnsson úr GR var á 75 höggum eða þremur yfir pari eftir að hafa fengið skramba á fyrstu holuna.

Því miður fyrir íslensku kylfingana þá voru fleiri sem léku frábært golf á þessum fyrsta hring. Skor Haralds skilar honum aðeins í 7.-12. sæti en reyndar er hann aðeins tveimur höggum á eftir efsta manni. Þjóðverjinn Jeremy Paul er einn í efsta sæti en hann lék á 66 höggum eða sex undir pari.

Um eitt sterkasta einstaklingsmót ársins er að ræða hjá áhugakylfingum en ekki ómerkari menn en Rory McIlroy frá Norður-Írlandi og Sergio Garcia frá Spáni eru á meðal þeirra sem unnið hafa mótið í gegnum árin. Leik verður framhaldið í dag. sport@mbl.is