Bjarney Halldóra Bjarnadóttir (Badda) var fædd í Nýjabæ á Norðfirði hinn 14. desember 1941. Hún lést 26. júlí 2016. Foreldrar hennar voru Bjarni Halldór Bjarnason, f. 1. október 1921, d. 14. júní 2002, frá Gerðisstekk og Svanhvít Sigurðardóttir, f. 19. október 1923, d. 24. september 2012, frá Reyðarfirði. Badda var elst átta systkina, en systkini hennar eru Anna Sigríður, f. 1943, d. 1990, Jón Sigfús, f. 1944, María, f. 1946, Hjálmar, f. 1949, Björk, f. 1952, Hafdís, f. 1957, og Jónas Pétur, f. 1961.

Badda giftist Kristjáni Gissurarsyni, rafeindavirkja og organista á Eiðum, f. 1. febrúar 1933, hinn 7. september 1963. Þau hófu sambúð sína í Neskaupstað en fluttust í Eiða eftir rúmt ár hvar þau bjuggu síðan. Badda og Kristján eignuðust fjögur börn: Gissur Ólaf, Bjarna Halldór, Eðvarð Björn og Lilju Eygerði. Gissur Ólafur er afgreiðslumaður hjá Brimborg, f. 26. október 1964. Fyrri eiginkona Gissurar er Kristín Björk Erlendsdóttir frá Keflavík. Þau skildu 2005. Börn þeirra eru Helena Björk, f. 17. janúar 1993, og Kristján, f. 6. maí 1997. Helena á tvo drengi; Gabríel Fernandez, f. 16. apríl 2012, og Gylfa Atlas, f. 3. september 2015. Núverandi eiginkona Gissurar er María Þórunn Helgadóttir úr Reykjavík og á hún son af fyrra sambandi: Ævar Örn Sigurðsson, f. 8. mars 1991. Þau eru búsett í Reykjavík.

Bjarni Halldór Kristjánsson, rafeindavirki, viðskiptafræðingur og tónlistarmaður, f. 15. mars 1966, er kvæntur Nönnu Herborgu Tómasdóttur frá Eskifirði. Þau eiga eina dóttur, Alexu Bjarnýju, f. 1. mars 2014, og eru búsett í Hafnarfirði.

Eðvarð Björn, verkamaður hjá Stólpa, f. 3. september 1969, er ókvæntur og barnlaus. Hann býr á Egilsstöðum.

Lilja Eygerður Kristjánsdóttir, lýðheilsufræðingur og starfsmaður í sérkennslu, f. 7. apríl 1974, er gift Ara Páli Albertssyni, forritara frá Seyðisfirði. Þau eiga fjögur börn: Albert Elías, f. 14. júní 2000, Árna Dag, f. 23. júní 2002, Ágúst Örn, f. 21. nóvember 2004, og Hrefnu Margréti, f. 6. nóvember 2009. Þau eru búsett í Hafnarfirði.

Útför Böddu fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 4. ágúst 2016. Jarðsett verður í kirkjugarðinum í Neskaupstað 5. ágúst 2016.

Þú varst svo heil og sönn í öllu því sem þú tókst þér fyrir hendur. Framtakssöm, framkvæmdaglöð, dugleg, vandvirk og nýtin. Heimilið myndarlegt enda húsverkin leikur einn. Listakokkur og bakari, heimagert ávallt í hávegum haft. Einstaklega hög í höndunum, hannyrðalistakona. Ávallt að prjóna, hekla eða sauma, ekki einungis flíkur á okkur fjölskylduna eða stórfjölskyldu heldur einnig á fjölskylduvini, vini okkar barnanna og jafnvel börnin í skólanum. Vinnan og öll verk svo auðveld og þeim lokið nánast um leið og hafist var handa. Ákveðin og hreinskilin, já stundum óþægilega hreinskilin. Einstök móðir, ljúf og góð og ávallt glöð. Einkar tón- og söngelsk, elskaðir kórstarfið og kunnir ógrynni af ljóðum og sálmum. Unun af bókalestri, elskaðir landið, umhverfið og átthagana, ferðaþrá svalað í gönguferðum um hálendið en heima var alltaf best. Kaffið ómissandi, svart og sterkt. Gleðin og þrótturinn einkennandi. Minningabrotin streyma fram, ótalin hér.

Alzheimer! – dómurinn þungur. Kona á besta aldri, svo ósanngjörn örlög og óhugsandi, engin von. Skin og skúrir eins og gengur, stutt í brosið en dapurleikinn vomandi yfir í löngu ferli að þeim óhjákvæmilegu endalokum sem nú eru orðin. Sorgin svo sár en togast á við létti því nú ertu frjáls, elsku mamma okkar, og eiginkona. Minningarnar lifa bjartar í hjörtum okkar.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Vertu sæl,

Kristján, Gissur, Bjarni Halldór (Halli), Eðvarð (Eddi) og Lilja.

Í æsku bjuggum við í sama húsi og Badda og fjölskylda, í Endurvarpsstöðinni á Eiðum. Við vorum heimagangar hjá Böddu og tengslin héldust eftir flutninga á milli húsa, staða og landa. Við nutum góðs af einstakri handavinnu Böddu og gjafmildi. Ragna og Lilja, ásamt dúkkum, fengu hvert dressið á fætur öðru í stíl eftir nýjustu Burda-tísku og engum varð kalt í prjónanærfötum frá Böddu. Mamma Birna og heimili okkar naut líka góðs af myndarskapnum, þar sem Badda var alltaf boðin og búin að hjálpa til við saumaskapinn og prjónafrágang. Katla, dóttir Fríðu, náði líka að skarta kjólum og peysum frá Böddu á meðan hún var heilsuhraust. Þegar mesta stússið í kringum barnauppeldi var frá lögðust Badda, Kristján og mamma Birna í hálendisferðir með Svenna og fleirum. Höfum við heyrt margar sögur af þeim merkisferðum, þar sem þrenningin var uppdressuð frá toppi til táar í útivistarfatnaði sem Badda bjó til. Í huga okkar lifa áfram margar góðar minningar um Böddu. Við sendum Kristjáni, Gissuri, Halla, Edda, Lilju og fjölskyldum samúðarkveðjur.

Magnfríður (Fríða) og

Ragna úr Endurvarpinu.