Ásdís Gísladóttir fæddist í Reykjavík hinn 26. júní 1965. Hún lést á heimili sínu að Grundarlandi 17 hinn 25. júlí 2016.

Foreldrar hennar voru Kristín Kristjánsdóttir frá Einholti á Hornafirði, f. 1. mars 1925, d. 8. september 2013, og Gísli Álfgeirsson fæddur á Bjargi á Seltjarnarnesi 29. maí 1931, d. 25. febrúar 1997. Bræður Ásdísar eru: 1) Kristján Benedikt, f. 3. júlí 1953, giftur Guðríði Gestsdóttur, f. 15. apríl 1956. Þeirra börn eru: Kristín, Valgerður, Tinna, Ívar Marteinn og Atli Sigurður; 2) Álfgeir, f. 26. nóvember 1954, giftur Guðnýju Sigrúnu Eiríksdóttur, f. 16. janúar 1954. Synir Álfgeirs eru: Gísli og Bjarki Júlí; 3) Ragnar, f. 6. janúar 1956, giftur Valgerði Torfadóttur, f. 7. desember 1955. Dætur þeirra eru Klara Rún og Arna Sigurlaug; 4) Sigfinnur Steinar, f. 30. janúar 1963, sambýliskona hans er Beth Waithera Nojogu, f. 17. júlí 1983. Börn Sigfinns Steinars eru: Ýr og Ísak.

Ásdís ólst upp í Reykjavík og flutti á sambýli fyrir fatlaða að Grundarlandi 17 árið 1989, þar sem hún bjó allar götur síðan á ástríku og umhyggjusömu heimili þar sem Guðný Jónasdóttir stýrði búi ásamt frábæru starfsfólki. Ásdísi féll sjaldan verk úr hendi og sinnti hún ýmsum störfum og áhugamálum af mikilli gleði og krafti. Hún hóf störf á Bjarkarási 18 ára gömul og starfaði þar í 15 ár. Hóf hún þá störf á Ási þar sem hún vann til 40 ára aldurs. Um það leyti fór að gæta heilsubrests en hún greindist með Alzheimer árið 2006 og fór þá aftur á Bjarkarás. Síðustu árin, eða allt þar til í vor, starfaði hún á Lækjarási. Með vinnu sótti hún ætíð tómstundanám í Fjölmennt, þar sem tónlistin átti hug hennar öðru fremur. Ásamt því var hún um langt skeið virkur meðlimur í íþróttafélaginu Öspinni og tómstundaklúbbnum Perlufestinni þar sem leiklistaráhugi hennar fékk að njóta sín og lék með hópnum, m.a. í bíómyndum og auglýsingum. Gönguferðir og útivist voru alla tíð mikilvægur þáttur í daglegu lífi Ásdísar.

Útför Ásdísar fer fram frá Grensáskirkju í dag, 4. ágúst 2016, klukkan 13.

Elsku systir mín er nú fallin frá, eftir erfið veikindi sem mörkuðu líf hennar seinustu árin. Ásdís var fædd 26. júní 1965 aðeins viku fyrir afmælisdaginn minn og vorum við krabbarnir í fjölskyldunni. Ásdís var ákveðin kona frá fyrsta degi. Ég á bara jákvæðar minningar til í mínu hugskoti. Ásdís var alltaf brosandi og skemmtileg, hún var prakkari, hún var allra hugljúfi. Allir sem kynntust henni hafa bara góða sögu af henni að segja. Hún var vinnusöm, vildi taka þátt í öllu sem hún annars réði við. Ásdís tók þátt í íþróttum og ýmsum uppfærslum, t.d. var hún í aukahlutverki í kvikmynd. Hún var í Perlufestinni sem er leikhópur fatlaðs fólks og kom t.d. fram í myndbandi á vegum hljómsveitarinnar Sigur-Rós og skora ég á alla að sjá þetta fallega myndband (svefn- genglar).

Það hlýtur að hafa verið skrítið fyrir pabba og mömmu og kannski einhver léttir, þegar hún fluttist að heiman 24 ára gömul á sambýlið í Grundarlandi. Það reyndist mikil breyting til batnaðar fyrir hana að búa þar, enda fagaðilar með henni allan sólarhringinn og þar bjó hún uns englar himins kölluðu hana til sín 25. júlí síðastliðinn.

Ásdís mín, ég mun ávallt minnast þín sem yndislegrar og jákvæðrar manneskju. Við hjónin viljum þakka Guðnýju og Kollu, svo og öðru starfsfólki á Grundarlandi 17 fyrir að hafa annast hana systur mína og mágkonu svo vel með ást og umhyggju alla tíð.

Finnst þér nokkur furða þá,

þó fjötrum bundin öndin

vilji fljúga syngja og sjá

sólar fögru löndin?

(Páll Ólafsson.)

Kristján B. Gíslason,

Guðríður Gestsdóttir.

Sunnan yfir sæinn breiða

sumarylinn vinda leiða.

Draumalandið himinheiða

hlær og opnar skautið sitt.

Vorið kemur, heimur hlýnar,

hjartað mitt!

Gakk þú út í græna lundinn,

gáðu fram á bláu sundin.

Mundu, að það er stutt hver stundin,

stopult jarðneskt yndi þitt.

Vorið kemur, heimur hlýnar,

hjartað mitt!

Allt hið liðna er ljúft að geyma,

láta sig í vöku dreyma.

Sólskinsdögum síst má gleyma,

segðu engum manni hitt!

Vorið kemur heimur hlýnar,

hjartað mitt!

(Jóhannes úr Kötlum.)

Takk fyrir gleðina, elsku frænka.

Þín ávallt,

Kristín.

Elsku dísin mín, elsku yndislega Ásdís mín. Mikið var ég heppin að hafa þig í lífinu mínu. Við áttum einstakt samband og ég verð ævinlega þakklát fyrir það. Sem barn var ég alveg viss um að þú værir engill í dulargervi, enda ekkert skrítið því þú varst sú yndislegasta sem til var. Gleðin, hláturinn, kossarnir og faðmlögin voru svo innileg og góð.

Hvert sem þú fórst þá tókst þér að fá alla til að brosa, hlæja og gleðjast. Hlátur þinn og bros voru það dásamlegasta sem til var og alveg einstaklega smitandi. Elsku Ásdís mín, þú hefur kennt mér svo margt og þú ert mesti áhrifavaldur í mínu lífi. Þú ert ástæðan fyrir því að ég er að mennta mig sem þroskaþjálfi og ég held að ég verði góður talsmaður fatlaðra að námi loknu enda hef ég góða fyrirmynd.

Ásdís var svo heppin þegar hún flutti að heiman að flytja á Grundarland 17, en þar vinnur yndislegasta fólk sem til er og þau gerðu hvað sem er til þess að henni liði alltaf sem allra best. Það er ómetanlegt að hafa þetta flotta starfsfólk og við fjölskyldan verðum ævinlega þakklát fyrir allt sem þau hafa gert.

Eftir að mamma þín lést tókum við Kristín systir að okkur að gerast þínir persónulegu talsmenn og var það okkur mikill heiður og verð ég bræðrum þínum ævinlega þakklát fyrir að hafa treyst okkur fyrir þessu stóra hlutverki.

Þrátt fyrir að þú hafir loksins fengið þína hinstu hvíld eftir erfið veikindi þá svíður mig mikið í hjartað að kveðja þig, ég græt bæði gleði- og sorgartárum yfir þeim yndislegu stundum sem við áttum saman, þær ylja mér um hjartarætur. Þú ert mér allt og munt verða það að eilífu elsku yndið mitt.

Þú ert yndið mitt yngsta og besta,

þú ert ástarhnossið mitt nýtt,

þú ert sólrún á suðurhæðum,

þú ert sumarblómið mitt frítt,

þú ert ljósið sem lifnaðir síðast,

þú ert löngunnar minnar Hlín.

Þú ert allt sem ég áður þráði,

þú ert ósk, þú ert óskin mín.

(Gestur.)

Elska þig. Þín

Tinna frænka.

Það er sól í Grundarlandinu og við heyrum gleðisöng utan af götu. Ásdís er að koma heim úr vinnunni. Hún ber með sér einlæga gleði og mikla lífsorku, brosið hennar er engu líkt og hún knúsar og kyssir íbúa og starfsfólk. Hún hefur frá einhverju skemmtilegu að segja, lífið er svo skemmtilegt, uppfullt af ævintýrum og hún fékk að lifa og njóta svo lengi sem heilsa hennar leyfði og við fengum að fljóta með. Smitandi hláturinn svo einlægur og svo var sungið og dansað og maður gat ekki annað en sungið og dansað með Ásdísi.

Það átti ekki við Ásdísi að sitja aðgerðalaus. Hún tók virkan þátt í félagsstarfi; t.d. í íþróttafélaginu Ösp, auk þess sem hún tók þátt í uppfærslum með leikfélaginu Perlunni og síðar Perlufestinni ásamt vinkonum sínum og fyrrverandi sambýlingum, þeim Ingibjörgu Lovísu og Jóhönnu, sem við kvöddum fyrir nokkrum árum. Með þeim hafði tekist einstök og falleg vinátta. Hún var í saumaklúbbi og ekki lét Ásdís böllin fram hjá sér fara. Hún dansaði og trallaði og skemmti sér konunglega og ekki skemmdi það fyrir að fá líka kók og prins.

Ásdís var höfðingi heim að sækja, hafði einstaklega gaman af veisluhaldi og vildi þá gjarnan slá í glas og halda ræðu. Henni fannst fátt skemmtilegra en að vera kóngur í eldhúsinu og tengilinn sinn, hana Kollu, kallaði hún alltaf engilinn sinn. Ásdís gat verið stríðin og skellihló gjarnan að eigin stríðni, sérstaklega ef hún náði einhverjum. Hún var mikil hjálparhella. Ef einhver þurfti á aðstoð að halda lét Ásdís ekki á sér standa. Ef Nönnu, Halla eða Snorra vantaði hjálp var Ásdís ekki lengi að bjarga því. Ef eitthvert smáræði vantaði úr búðinni var Ásdís alltaf til í að skreppa í Grímsbæ og ná í það sem vantaði. Hún gekk í mörg verk, tók úr uppþvottavélinni, þreif og þvoði með bros á vör. Svo var farið í ferðalög, bæði út á land þar sem gist var í sumarhúsum eða jafnvel í tjaldi, en heimskonan Ásdís fór líka til Spánar og Kanaríeyja. Það fannst henni aldeilis skemmtilegt og við eigum dásamlegar minningar frá því.

Það var fyrir nokkrum árum að heilsu Ásdísar fór að hraka, en sl. ár varð Ásdís okkar ekki söm og við sáum í hvað stefndi. Hér á sambýlinu var allt gert til að hlúa að elskulegri vinkonu okkar og samferðakonu og hún kvaddi heima í Grundó í faðmi vina. Allt fram í andlátið sáum við glitta í okkar gömlu, góðu Ásdísi þar sem hún setti stút á munninn og sendi okkur koss.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Við sendum fjölskyldu Ásdísar samúðarkveðjur og þökkum fyrir þann tíma sem við fengum að hafa hana hjá okkur.

Hvíl í friði, elsku vinkona. Fyrir hönd þinna vina í Grundarlandi 17.

Guðný

Jónasdóttir.