Sólborg Rósa Hjálmarsdóttir fæddist 29. júní 1957 í Sölvanesi í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Sjúkrahúsinu á Akureyri 25. júlí 2016.

Foreldrar hennar voru Hjálmar Indriði Guðmundsson, f. 28. október 1937, d. 12. júlí 2009, og Birna H. Jóhannesdóttir, f. 29. janúar 1936. Þau voru bændur að Korná í Lýtingsstaðahreppi. Sólborg Rósa var elst í systkinahópnum en systkini hennar eru: 1) Jóhannes, f. 27. júní 1958. 2) Guðmundur Steingrímur, f. 23. júní 1959. 3) Monika Björk, f. 13. nóvember 1970.

Sólborg Rósa eignaðist dótturina Huldu Hákonardóttur, f. 5. janúar 1980, gift Friðgeiri Kemp. Þau eiga þrjú börn; Rósu Kristínu, Hákon og Lúðvík.

Sólborg Rósa giftist 21. júní 1987 Þórmundi Skúlasyni, f. 27. maí 1951. Börn þeirra eru: 1) Gunnhildur Erla, f. 14. desember 1982, gift Elmari Sveinssyni. Þau eiga þrjár dætur; Fanneyju Björgu, Sóleyju Birnu og Huldu Brynju, 2) Birna H. Bergstað, f. 28. júní 1985, gift Ævari Þór Bjarnasyni. Þau eiga tvö börn; Þórmund Daða og Brynhildi Rós. Fyrir átti Ævar soninn Bjarna Þór. 3) Skúli Már, f. 3. júní 1991, í sambúð með Guðmundu Rán Skúladóttur. Þau eiga þrjú börn; Natalíu Rán, Þórmund og Erlu Rán.

Sólborg Rósa ólst upp á Korná í Lýtingsstaðahreppi og gekk þar að bústörfum í æsku og lauk barnaskólanámi í Steinsstaðaskóla. Ung starfaði hún bæði í Varmahlíð og á Akureyri. Árið 1982 fluttist hún ásamt eiginmanni sínum búferlum til Blönduóss. Þar áttu þau heimili í 25 ár þegar þau fluttust til Akureyrar árið 2007. Sólborg Rósa var húsmóðir á meðan börnin voru ung en hún starfaði síðar um langt árabil hjá Póstinum bæði á Blönduósi en einnig á Akureyri. Í janúar árið 2010 greindist hún með ólæknandi krabbamein.

Útför Sólborgar Rósu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 4. ágúst 2016, klukkan 13.30.

Elsku mamma okkar er farin frá okkur, allt of snemma. Nú verður ekkert eins og áður. Þetta er svo ótrúlega sárt og missirinn mikill. Hún var miðja lífs okkar, hjarta lífs okkar allra. Hún hafði hag okkar barnanna alltaf að leiðarljósi. Það er erfitt að sjá hvernig við eigum að halda áfram án þín. Allt okkar líf hefur hún vafið um okkur kærleika, umhyggju og ást.

Það má segja að allt líf mömmu og lífsgildi hennar hafi mótast af æsku hennar í sveitinni að Korná í Lýtingsstaðahreppi. Sveitin var hennar paradís. Hún var náttúrubarn og hafði unun af dýrum, útiveru og ferðalögum. Mamma var mikill persónuleiki og baráttujaxl. Hún var með eindæmum vinnusöm og drífandi í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var einstaklega hjálpsöm og hjartahlý og mátti ekki sjá neitt sem minna mátti sín.

Með pabba bjó hún af alúð til samastað okkar fjölskyldunnar í Hlíðarbrautinni á Blönduósi. Þetta var án vafa fimm stjörnu æskuheimili. Eftir standa ótalmargar minningar og við nutum þeirra forréttinda að hún væri mamma okkar. Síðar nutu barnabörnin einnig umhyggjusemi hennar og það má með sanni segja að þau áttu hug hennar allan.

Núna hefur mamma kvatt okkur eftir hetjulega og áralanga baráttu við illvígan sjúkdóm. Við munum sakna þín svo mikið. Minning þín mun lifa með okkur og barnabörnunum að eilífu. Elskum þig.

Börnin þín,

Hulda, Gunnhildur, Birna og Skúli.

Fyrr var oft í koti kátt,

krakkar léku saman,

þar var löngum hlegið hátt,

hent að mörgu gaman.

Úti' um stéttar urðu þar

einatt skrítnar sögur,

þegar saman safnast var

sumarkvöldin fögur.

Eins við brugðum okkur þá

oft á milli bæja

til að kankast eitthvað á

eða til að hlæja.

Margt eitt kvöld og margan dag

máttum við í næði

æfa saman eitthvert lag

eða syngja kvæði.

Bænum mínum heima hjá

Hlíðar brekkum undir

er svo margt að minnast á,

margar glaðar stundir.

Því vill hvarfla hugurinn,

heillavinir góðir,

heim í gamla hópinn minn,

heim á fornar slóðir.

(Þorsteinn Erlingsson.)

Elsku Þórmundur, Hulda, Gunnhildur, Birna, Skúli og fjölskyldur. Missir ykkar er mikill en minningarnar eru margar til að ylja sér við á erfiðum stundum.

Guð blessi minningu Rósu frá Korná.

Mamma, Björk

og Högni.

Lífið er stutt og hverfult. Við finnum það best þegar við kveðjum vini eða ættingja hinstu kveðju.

Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að njóta lífsins og þeirra tækifæra sem það færir okkur.

Ég hitti Rósu fyrst fyrir um það bil 35 árum.

Skín við sólu Skagafjörður,

skrauti búinn, fagurgjörður:

Bragi, ljóðalagavörður,

ljá mér orku, snilld og skjól!

Kenn mér andans óró stilla;

ótal sjónir ginna, villa,

dilla, blinda, töfra, trylla,

truflar augað máttug sól.

Hvar skal byrja? Hvar skal standa?

Hátt til fjalla? Lágt til stranda?

Bragi leysir brátt úr vanda,

bendir mér á Tindastól!

(Matthías Jochumsson.)

Oft datt mér þetta fagra ljóð í hug þegar við hittumst Skagfirðingurinn mikli Sólborg Rósa Hjálmarsdóttir.

Það er ótrúlegt hvað ræturnar í hverjum manni eru djúpar til heimabyggðarinnar og það átti svo sannanlega við um þig.

Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg. Þó svo að við byggjum ekki í næsta nágrenni við hvort annað voru tengslin góð alla tíð. Við í Borgarnesi en þið norðan heiða.

Við ættingjar og vini Þórmundar Skúlasonar undruðumst það á árunum eftir 1980 hvað hann fékk allt í einu mikinn áhuga á sauðfjárrækt. En skýringin kom fljótt í ljós, ráðskonan á Hesti í Borgarfirði. Þar blómstraði ástin hjá Munda og Rósu en Rósa sá um matseldina á Tilraunabúinu ásamt sólargeislanum sínum Huldu sem þá var tveggja ára.

Eins og sannir Íslendingar hugsuðuð þið hratt og eftir ákvörðun um sambúð þurfti að útvega samastað fyrir væntanlega fjölskyldu og huga að öllu öðru sem því tilheyrir. Blönduós varð fyrir valinu, ekki að ástæðu lausu; fæðingarbær Þórmundar, vinna hjá Rarik tryggð og stutt í Skagafjörðinn. Á Hlíðarbrautinni settust þið að, en Mundi hafði þá gengið Huldu í föðurstað sem ég held að hafi lukkast vel fyrir bæði. Seinna færðuð þið ykkur um set í Hlíðarbrautinni. Þar stækkaði fjölskyldan, fyrst Gunnhildur Erla svo Birna Hjördís og síðastur prinsinn sjálfur Skúli Már. Þessari glæsilegu fjölskyldu þinni, Rósa mín, stjórnaðir þú eins og þér var einni lagið. Vissir allt um ungana þína og leiðbeindir þeim eftir fremsta megni allt fram á síðustu stundu.

Til Akureyrar fluttust þið 2007, nýtt hús, nýtt umhverfi, nýir kunningjar ágætis ákvörðun. Gömlu vinirnir á Blönduósi gleymdust ekki og þið og þeir dugleg að halda sambandinu.

Ekki má gleyma að minnast á ferðalögin Rósa mín og var húsbíllinn nánast ykkar annað heimili yfir sumarmánuðina seinni árin, þar varst þú í essinu þínu. Seinna þegar ungarnir voru flognir að heiman fórum við saman í skemmtiferðir til Kanarí ásamt tengdó, Villa bróðir og Gullu. Flottar ferðir og vel notaðar til að efla fjölskyldu böndin.

En lífið er ekki alltaf dans á rósum, elsku besta Rósa mín. Því miður greindist þú með slæman sjúkdóm fyrir nokkrum árum sem á endanum varð þér og þínu lífi sterkari. Þín barátta og þinn lífsvilji var með ólíkindum. Þá kom þinn Skagfirðingur best í ljós.

Elsku Mundi minn, við Júdý sendum þér, börnum og barnabörnum þínum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jakob

Skúlason.

Elsku Rósa mín. Nú hefur þú sofnað svefninum langa, umlukin ást og umhyggju fjölskyldu þinnar, sársaukanum og baráttunni er lokið.

Mér er afskaplega ljúft að minnast Rósu og uppvaxtarára minna sem hún var svo stór partur af. Frá 0. bekk sátum við Gunnhildur saman, sessunautar, vinkonur, samlokur, og frá þeirri tíð stóðu dyrnar á Hlíðarbraut 1 mér alltaf opnar. Rósa var einstaklega umhyggjusöm móðir og setti móðurhlutverkið ætíð í forgang. Hún tók mig, þennan heimalning, strax í ástfóstur og fyrr en varði höfðu foreldar okkar Gunnhildar myndað vináttu sem varð ævilöng.

Ég man að mér þótti þetta heimili hlaðið öllum heimsins gæðum. Líklega eitt besta Hótel Mamma sem fyrirfannst og því illskiljanlegt hvernig þeim Munda tókst að koma börnunum úr hreiðrinu.

Nokkrum árum og flutningum síðar er enn jafn gott að heimsækja heimili ykkar og andrúmsloftið gamalkunnt og notalegt. Hugulsemi Rósu gagnvart mér hélt áfram þó að ég væri komin á fullorðinsár og um hátíðarnar fékk ég sendingu sem mér þótti ómissandi partur af jólunum. Það var þannig sem hún Rósa þekkti þennan heimalning.

Takk fyrir samferðina elsku Rósa mín, þín er sárt saknað. Fjölskyldunni sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur. Megi Guð hugga ykkur og styrkja á þessum erfiðu tímum. Minningin lifir í gegnum okkur öll.

Ykkar,

Iðunn Elfa.

HINSTA KVEÐJA
Yndislega amma okkar.
Það er svo sárt að hafa þig ekki hjá okkur. Við eigum eftir að sakna þín svo mikið. Það var svo gott að vera hjá þér. Þú varst alltaf svo góð við alla.
Ó, blessuð vertu, sumarsól,
er sveipar gulli dal og hól
og gyllir fjöllin himinhá
og heiðarvötnin blá.
Nú fossar, lækir, unnir, ár
sér una við þitt gyllta hár,
nú fellur heitur haddur þinn
á hvíta jökulkinn.
(Páll Ólafsson.)
Elskum þig,
Fanney Björg, Sóley Birna og Hulda Brynja.
Elsku amma.
Núna ertu engill og fylgist með okkur. Það var svo gaman að vera hjá þér því þú varst alltaf svo góð og vildir allt fyrir okkur gera.
Við munum sakna þín mjög mikið.
...
Finna hjá þér ást og unað
yndislega rósin mín.
Eitt er það sem aldrei gleymist,
aldrei, það er minning þín.
(Guðmundur G. Halldórsson.)
Elskum þig,
Natalía Rán, Þórmundur og Erla Rán.
Elsku amma Rósa.
Nú ertu farin til Guðs og englanna og nú ertu ekki lengur veik.
Þú varst alltaf svo góð við okkur, vinaleg og hjálpsöm. Þú varst besta amman í öllum heiminum.
Þín er sárt saknað og við elskum þig að eilífu.

Æ, amma, hvar ertu? Æ, ansaðu mér.
Því ég er að gráta og kalla eftir þér.
Fórstu út úr bænum eða fórstu út á haf?
Eða fórstu til Jesú í sælunnar stað?
(Höf.ók.)

Guð geymi þig elsku amma.
Þórmundur Daði, Brynhildur Rós og Bjarni Þór.
Elsku besta amma okkar. Okkur þykir svo sárt að missa þig. Þú varst alltaf svo góð við okkur og okkur þótti svo gott að koma í heimsókn til þín.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Rósa Kristín, Hákon og Lúðvík.