Eyjólfur Hjálmsson fæddist 13. október 1939. Hann lést á sjúkrahúsinu á Akranesi 19. júlí 2016.

Foreldrar hans voru Petrún Ella Magnúsdóttir, d. 1992, og Hjálmur Einarsson, f. 1895, d. 1967, búandi hjón í Þingnesi í Bæjarsveit – og við þann bæ var Eyjólfur jafnan kenndur.

Eyjólfur ólst upp í Þingnesi og vann á búi foreldra sinna til 1986 er hann flutti að Ásbrún 2 í Bæjarsveit. Hann hafði afburða þekkingu á raftækjum, var sjálflærður útvarps- og sjónvarpsvirki auk þess sem hann gerði við raftæki . Eyjólfur vann í áratugi á vegum Búnaðarfélags Andakílshrepps sem vélamaður við jarðvinnslu og heyvinnuvélar. Þá hafði hann eftirlit með félagsheimilinu Brún og vann einnig við sundlaugina á Kleppjárnsreykjum – og starfaði með leikdeildum ungmennafélaganna í héraðinu við uppsetningu ljósa- og rafbúnaðar, svo fátt eitt sé nefnt af störfum Eyjólfs Hjálmssonar í Þingnesi fyrir samfélag sitt.

Útför Eyjólfs verður gerð frá Reykholtskirkju í dag, 4. ágúst 2016, kl. 14.

Með Eyjólfi Hjálmssyni fengu gömul tæki nýtt líf. Hann fylgdi ritúali þegar hann kom í heimsókn. Gekk álútur ákveðnum skrefum að gættinni, hristi af sér skóna og settist niður í stól, blés og stundi dálítið – sýndu mér tækið. Áður en hann tók til starfa þáði hann kaffi og sætabrauð, og einnig það var hluti af messunni. Síðan var tekið til starfa.

Til að byrja með fylgdist maður með snillingnum í forundran. En niðurstaðan var oftast galdri líkust, honum tókst það ómögulega – að laga biluð tæki. Fyrir menn sem hafa engan skilning á rafmagni eru svoleiðis reddingar eins og yfirnáttúrleg blessun. Og það er alltaf gaman að verða vitni að kraftaverki. Í framhjáhlaupi mátti spjalla við Eyjólf Hjálmsson um forna tíð, fólk og atvinnuhætti í héraði – og hann var minnugur og glöggur, hafði veitt athygli atriðum sem aðrir sáu ekki. Um sjálfan sig var hann ekki málugur – og raunþögull um sveitunga sína. Hann var í rauninni blíðmáll og bjartur í háttum.

Stundum gerði hann viðgerðarheimsóknir sínar að leik. „Æ, ég er orðinn svo gamall og þreyttur, viltu ekki skrúfa þetta laust fyrir mig?“ Svo fylgdist hann með klaufalegum tilburðum verkbeiðanda uns hann eftir bælda hláturstunu og dálítið pú tók við tólum og tækjum – og bjargaði málum. Og þegar hann var að eiga við lausar skrúfur á bílaverkstæðinu hjá öðrum töframanni, Þórði á Arnheiðarstöðum, átti hann það til að segja á þessa leið: Æi, beygðu þig eftir þessari skrúfu Þórður minn, – þú ert yngri! En staðreyndin var sú að Þórður var tveimur dögum yngri en Eyjólfur.

Eyjólfur var það sem stundum er kallað gömul sál – hafði yfir sér spekt þess sem margt hefur lifað um aldir í einsemd. Hann hafði líka þjónað sveitungum sínum í heilan mannsaldur- og var orðinn þreyttur, hvað sem aldri leið. Slíkum mönnum hlýtur eilíf hvíldin að vera réttlát og sjálfsögð. Við sem höfum notið aðstoðar Eyjólfs Hjálmssonar þökkum að lyktum fyrir samfylgdina- og hugvitssemi hans við biluð tæki Borgfirðinga.

Óskar Guðmundsson í Véum.

Það er haustið 1979 og barið að dyrum. Inn er Eyjólfi Hjálmssyni boðið við annan mann. Handtakið er þétt og augun kvik undir frekar síðu hári og loðnum úlpukraganum, erindið hvort hann gæti fengið lánað eitt brauð, sem að sjálfsögðu var velkomið, en okkur ekki grunlaust um að meginerindið væri að skoða nýju húsfreyjuna á bænum. Síðan hafa liðið mörg ár og ófá skiptin sem Eyjólfur hefur átt ferðir um hlað á bænum, ýmist til að aðstoða bóndann við mælingar á raflögnum í bifreiðum, setja upp gervihnattadisk, kíkja á raftæki eða bara þiggja kaffi og meðlæti.

Hvað við best vitum var Eyjólfur sjálfmenntaður rafeindavirki, snillingur sem hélt mörgum tækjum og tólum gangandi í sveitinni og er vandséð hver muni feta í fótspor hans á mörgum sviðum; hvort heldur er við uppsetningu loftneta, rekstur sundlaugarinnar á Kleppjárnsreykjum, hljóðvinnslu við leikrit ungmennafélaganna, stuðning við unga fólkið, sem deildi áhugasviði hans og svo margt fleira. Á sumrin naut hann þess að koma að heyskap við verktöku og óhugsandi að bregða sér að heiman á meðan bændur þurfa að fá ilmandi töðuna rúllaða og pakkaða inn.

Það var gaman að ræða um málefni líðandi stundar við Eyjólf, en ekki síst um náttúru landsins og umhverfi, sem hann hafði ódrepandi áhuga á. Eyjólfur Hjálmsson var víðlesinn og fróður, hafði ferðast töluvert og hugurinn stóð til frekari ferða inn á hálendið og skoðaði hann gjarnan myndir af ferðalögum okkar hjóna og þekkti oftast landslagið, jafnvel þótt hann hefði ekki átt þess kost að komast á staðinn sjálfur. Hér voru oft gerð dagatöl með landslagsmyndum frá ferðum næstliðins árs og þáði Eyjólfur gjarnan eintak.

Sérstaklega var skemmtilegt þegar Eyjólf bar að garði í nýsteiktar kleinur eða smákökur, sem hann þáði með þökkum á staðnum og fékk svo með sér svolítinn skerf, þá var handtakið þétt og þakklætið einlægt. Eyjólfur birtist oftar en ekki um miðjan dag með toppís til bóndans og heimilishundurinn lá þolinmóður við fætur hans á meðan þeir félagar snæddu ísinn og ræddu málin og að endingu fékk hundurinn neðsta hlutann af brauðforminu hjá Eyjólfi, sem sagði víst í síðustu heimsókn sinni, að hann yrði að hafa ísana þrjá næst, þ.e. einn handa hundinum, og seint gleymist að þegar Þórður og Eyjólfur voru að vinna saman sagði hann gjarnan: „Gerð þú þetta, þú ert yngri“, en á þeim var tveggja daga aldursmunur.

Eyjólfur fékk heilablóðfall og lá skamma sjúkdómslegu, þegar við hjónin litum við hjá honum á sjúkrahúsinu breiddist gleðibros yfir andlitið, augun leiftruðu og handtakið var þétt og stutt í húmorinn. Hann átti erfitt um mál vegna lömunar á kyngingarvöðvum en þó tókst okkur að spjalla svolítið, en vildum ekki þreyta hann og ætluðum að koma fljótlega aftur, hann væri ekki að fara heim alveg strax. „Nei, alla vega ekki í næstu viku,“ svaraði hann að bragði. Við kveðjum með þökk hógværan höfðingja sem aldrei hallaði orði að nokkrum manni, leiðir hans liggja nú um hinar óræðu lendur sem vonandi taka á móti honum með blómabreiðum og angandi töðuilmi.

Þórunn Reykdal og Þórður Stefánsson.

Þú spyrð ekki að neinu

ég spyr ekki neins

við spörum orðanna mergð

hér er allt svo fábreytt

og alltaf eins

en einmanalegt ef þú ferð.

(Sigríður Einars frá Munaðarnesi.)

Eyjólfur Hjálmsson var heimilisvinur okkar um áratuga skeið. Hann var hljóðlátur, hógvær og fyrirferðarlítill maður, en skilur eftir sig stórt tómarúm í daglegu lífi okkar.

Tvisvar í viku að jafnaði kom hann og drakk með okkur kaffisopa eftir hádegið, lagði kapal og sótti blöðin sem við keyptum í félagi. Ekki töluðum við mikið, helst að við ræddum tíðarfar borið saman við fyrri ár, eða staðsettum liðna atburði í tíma og rúmi. Hann var afburða vandaður og grandvar; aldrei hafði hann fréttir að færa þó að hann kæmi víða, og ef talið barst að fólki lagði hann gott til eða varð niðursokkinn í kapalinn. Hann hafði góða kímnigáfu og hló dátt með fólki, en aldrei að því.

Eyjólfur var skarpgreindur, einkum á sviði stærðfræði og tækni. Það var honum ástríða að skilja hvernig hlutir virkuðu, og hin ýmsu lögmál efnis og orku. Hann hafði líka yndi af ferðalögum; að kanna nýjar slóðir með góðum vini. En hann fór líka einn, þá gjarnan í óvissuferðir. Skrapp kannski eftir nauðsynjum og datt skyndilega í hug að taka hægri beygju í stað vinstri og sjá hvert leiðin lægi. Úr stuttri búðarferð gat þannig orðið heils dags ævintýri, þar sem hann fór frjáls sem fuglinn. Þá gat átt sér stað að hann legði gátu fyrir okkur: „ég fór að heiman í þessa átt, kom úr þessari til baka, hafði viðkomu á þessum stað og þessum... hvaða vegi ók ég?“

„hér er allt svo fábreytt og alltaf eins“

Laugardagur. Tvö snögg högg á dyrnar, kemur inn: „Sæl“. Færir Hönnu Skessuhorn með klappi á öxl, ljómar yfir því að gera okkur greiða. Sækir glasið í skápinn, teygir sig eftir spilunum sínum, sest með dæsi: „gamall og ónýtur“. Strýkur kettinum sem fagnar honum. Heldur upp á ketti. Leggur kapal, sýpur kaffið. Þórir blandar sér í kapalinn, en það er ekki rétt athugað hjá honum: „nei nei, fyrst geri ég þetta, þá kemur svona, síðan svona... þá gengur þetta“. Hlær dátt þegar kettlingarnir þjóta hjá með ærslum. Fáein orð í bróðerni, kaplinum lýkur. Rís upp, gengur frá spilunum, brosir: „Takk.“ Við svörum: „Sömuleiðis Eyjólfur“.

Já, hann Eyjólfur „sparaði orðanna mergð“, þar sem hann sat í sínu vanasæti yfir kaplinum, en nærvera hans var sterk og hlý, og vináttan einlæg. Við söknum kærs vinar, en biðjum honum blessunar á ferð sinni um nýja undraheima um leið og við þökkum allt það sem hann var okkur.

Hanna og Þórir í Bæ.

Ungmennafélagið Íslendingur minnist hans sem góðs félaga sem ávallt var reiðubúinn að aðstoða, sérstaklega þegar sett voru upp leikrit í Brún. Fyrsta leikritið var sett upp í Brún 1976 og hefur Eyjólfur tekið þátt í öllum uppsetningum ungmennafélagsins og einnig annarra leikdeilda í héraðinu. Það er ekki það tækniatriði sem hann hefur ekki leyst fyrir leikdeildina og eyddi miklum tíma í Brún við undirbúning, bæði að degi og nóttu. Hann smíðaði á sínum tíma ljósaborð sem lengi var notað eða þar til hann og fleiri komu ljósastýringunni í tölvu. Hann hlaut heiðursbikar Ungmennafélagsins Íslendings fyrir vinnu sína fyrir leiknefndina 1988 og einnig hlaut hann starfsmerki Ungmennafélags Íslands á 100 ára afmælishátíð UMSB 2012 fyrir óeigingjarnt starf í þágu leiklistar í héraðinu. Með honum er genginn drengur góður sem var vakinn og sofinn fyrir félagið. Ungmennafélagið Íslendingur þakkar honum fyrir alla hans vinnu og minnist hans sem góðs félaga og snillings í tæknimálum hvort heldur er tengt ljósum, hljóði eða öðrum tæknimálum leikdeildarinnar.

Hafðu þökk, Eyjólfur.

Fyrir hönd leikdeildar Ungmennafélagsins Íslendings,

Jón E. Einarsson og Rósa Marinósdóttir.

Í dag verður jarðsunginn Eyjólfur Hjálmsson frá Þingnesi. Ungmennafélagið Dagrenning kveður hann með söknuði og þakklæti því með honum er genginn einn besti liðsmaður félagsins þótt hvorki hafi hann í félaginu verið né búsettur á starfssvæði þess. En það aftraði ekki Eyjólfi frá því að láta félagið njóta sinna starfskrafta og þekkingar, en hann var ljósameistari við allar leiksýningar félagsins í seinni tíð. Tæknihliðin á því starfi vafðist ekki fyrir Eyjólfi því hann var sjálfmenntaður snillingur í flestu því sem laut að rafmagni, útvarpi, sjónvarpi og ýmsu fleiru. Og líklega þóttu honum viðfangsefnin því skemmtilegri sem þau voru flóknari. Möglunarlaust umbar hann misþægilega leikstjóra og tiktúrur þeirra og aldrei hrutu af vörum hans styggðaryrði. Með hægðinni leysti hann nánast hvert einasta verkefni sem hann var beðinn um og jafnvel meira til og ætlaðist sjaldnast til launa.

Það er sérstakt lán að ekki eru allir steyptir í sama mót. Sérþekking Eyjólfs var ómetanleg þeim sem þurftu á henni að halda og það var líka sérlega gefandi að vinna með honum eða að fá hann í heimsókn. Hans tími var seinni hluta sólarhringsins, fyrir hádegi var ekki vert að ónáða hann. Sem fyrr segir var ýmis tækni hans áhugamál, kæmist hann í tæri við nýmæli á því sviði gat hann eytt ómældum tíma í að athuga þau. Ótrúlegustu og ólíklegustu hlutum gat hann velt fyrir sér. Í Andakílsárvirkjun var svinghjól mikið sem Eyjólfur var búinn að mæla þvermálið á og vissi um hraða þess, reiknaði það svo út að hjólið væri 11 mínútur að fara til Reykjavíkur og til baka aftur, að því gefnu að farinn væri Hvalfjörðurinn. Líka var hann búinn að margreyna það í þá gömlu góðu daga þegar Hvítárvallaskáli var við lýði að ef hann keypti þar Nissa súkkulaði kláraðist það við Skjólhól, nema það væri stórt, þá dugði það upp í Hellusund. Svona var Eyjólfur, það er lán að hafa kynnst honum.

Fyrir hönd Ungmennafélagsins Dagrenningar, Lundarreykjadal.

Bjarnheiður

Jónsdóttir.