Það er nokkuð vel þekkt staðreynd að samspil verðlags og gengis hefur áhrif á fjölda ferðamanna, þ.e. að eftir því sem verð vöru og þjónustu, snúið yfir í heimamynt ferðalanga, hækkar því færri koma til viðkomandi lands.

Fyrir gjaldeyrishöft var umtalsverð bein gengisáhætta í íslensku efnahagslífi, meðal annars vegna þess hversu algeng lán í erlendri mynt voru bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum en einnig vegna tekna íslenskra fyrirtækja í erlendri mynt. Á þessum tíma voru erlendar tekjur að mestu einskorðaðar við það sem gjarnan er kallað grunnatvinnuvegir, þ.e. sjávarútveg, iðnað og orkuframleiðslu, en erlend lán tíðkuðust langt út fyrir þann geira. Á þessum tíma var tiltölulega auðvelt að gera ráðstafanir til að verjast áhættu af gengi krónunnar, til dæmis með gerð framvirkra samninga eða skiptasamninga við banka, eða með skuldbreytingu á milli mynta, og þar sem auðvelt er að mæla beina gengisáhættu þá voru varnir af þessu tagi algengar.

Í dag er staðan breytt og þótt mörg fyrirtæki hafi einhverjar tekjur í erlendri mynt, þá hefur skuldsetning í erlendri mynt minnkað stórlega, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum, sem þýðir að bein gengisáhætta er mun minni í dag en áður gerðist. En skyldi þetta þýða að gengisáhætta hafi raunverulega minnkað jafn mikið á síðustu árum og efnahagur íslendinga gæti gefið til kynna? Það þarf ekki endilega að vera tilfellið því að á sama tíma og dregið hefur úr vægi erlendrar fjármögnunar hjá fyrirtækjum og einstaklingum hefur vægi ferðaþjónustu vaxið gríðarlega í íslensku hagkerfi með tilheyrandi ruðningsáhrifum og hækkun eignaverðs. Vægi atvinnugreina sem eru næmar fyrir gengi hefur vaxið mjög mikið, sem hefur haft áhrif langt út fyrir greinarnar sjálfar og til dæmis stuðlað að mikilli hækkun fasteignaverðs og velgengni smásölu. Það er því ljóst að ef mikill samdráttur myndi eiga sér stað í ferðaþjónustu myndi það hafa umtalsverð áhrif á eignamarkaði og veltu og hagnað fyrirtækja.

Það er nokkuð vel þekkt staðreynd að samspil verðlags og gengis hefur áhrif á fjölda ferðamanna, þ.e. að eftir því sem verð vöru og þjónustu, snúið yfir í heimamynt ferðalanga, hækkar því færri koma til viðkomandi lands. Þótt fleiri atriði skipti hér máli, t.d. flugfargjöld (olíuverð), markaðssetning og staða samkeppnislanda, þá hefur það komið fram í rannsóknum að gengi gjaldmiðilsins er með áhrifaríkustu þáttunum. Þannig sýndi t.d. rannsókn á komum Japana til Kyrrahafsríkisins Guam að sterk tengsl voru á milli gengis heimamyntar á móti jeni og komu ferðamanna og að 10% hækkun gengisins gagnvart jeni fylgdi um 2% fækkun ferðamanna. Þessi rannsókn sýndi einnig að fækkun ferðamanna varð ekki öll í einu heldur í grófum dráttum í tveimur bylgjum, þ.e. strax hjá þeim hópi sem ekki skipuleggur ferðalög fyrirfram og um það bil ári síðar hjá þeim hópi sem skipuleggur ferðalög fram í tímann.

Það er því ljóst að Íslendingar búa við vaxandi óbeina gengisáhættu vegna hratt vaxandi vægis ferðaþjónustu í íslensku efnahagslífi, en á sama tíma eru áhrif gengis á íslenska ferðaþjónstu lítið sem ekkert rannsökuð – engin alvöru tilraun hefur verið gerð til að svara spurningunni: „Hvað má krónan styrkjast mikið áður en það fer að hafa veruleg áhrif á ferðaþjónustu.“ Og ef við ætlum að bíða og sjá og grípa inn í þegar hættumerki koma fram þá gæti það verið orðið um seinan, þar sem áhrif gengis á ferðaþjónustu koma ekki endilega fram fyrr en löngu eftir orðinn hlut.