Óhapp Sumir símar lenda í þvottavélum, aðrir detta í gólf og brotna.
Óhapp Sumir símar lenda í þvottavélum, aðrir detta í gólf og brotna. — Getty Images/iStockphoto
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Það er mat talsmanna fjögurra af stærstu tryggingafélögunum að tjón á snjallsímum sé algengasta munatjónið sem félögin bæta og er það oftast gert í gegnum heimilis- eða innbústryggingar.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Það er mat talsmanna fjögurra af stærstu tryggingafélögunum að tjón á snjallsímum sé algengasta munatjónið sem félögin bæta og er það oftast gert í gegnum heimilis- eða innbústryggingar. Ástæður tjónanna geta verið margvíslegar; algengt er að símarnir detti í gólf og brotni, stundum er þeim stolið en einnig gerist það býsna oft að þeir detti ofan í salerni samkvæmt upplýsingum frá tryggingafélögunum. Þá er nokkuð algengt að ung börn komi höndum yfir snjallsíma foreldra sinna og noti þá sem leikföng með ýmsum afleiðingum.

„Þetta er sá gripur sem líklegast verður oftast fyrir tjóni og ástæðan er oftast sú að fólk er að missa símana,“ segir Agnar Óskarsson, framkvæmdastjóri tjónasviðs VÍS. „Við spyrjum fólk svo sem ekki hvað það var að gera í símanum þegar tjónið varð, en sumir segja frá því í óspurðum fréttum. Það er ekki óalgengt að þeir detti í polla eða ofan í klósett. Hvað fólk er að gera með símann á salerninu er eitthvað sem við vitum ekki, en kannski væri fólki nær að einbeita sér að einu í einu, þá yrði kannski ekki svona mikið um svona tjón.“

Notaði símann fyrir kafbát

Frá Sjóvá fengust þær upplýsingar að algengustu tjón á farsímum yrðu þegar þeir dyttu í gólf eða ofan í salerni. Í síðarnefndu tilvikunum smokrast síminn gjarnan úr rassvasa buxna og beint ofan í klósettið. „Einum var meira að segja sturtað niður um daginn samkvæmt tilkynningu sem við fengum,“ segir Sigurjón Andrésson, forstöðumaður markaðsmála og forvarna hjá Sjóvá.

Að sögn Sigurjóns er önnur algeng tjónaorsök þegar ung börn komast yfir síma. „Eitt sinn fengum við tjón þar sem lítill gutti tók símann með sér í bað til að leika sér þegar foreldrarnir sáu ekki til. Ef ég man rétt þá notaði hann símann fyrir kafbát,“ segir Sigurjón.

Börn oft sökudólgar

Tjón á þeim farsímum sem bættir er hjá Tryggingamiðstöðinni verður oftast vegna þess að þeir detta í gólf eða í götu og glerið í skjánum brotnar. Þá er einnig nokkuð um að börn komist í slíka síma og skemmi þá. „En það er líka algengt að þeir endi ofan í klósetti,“ segir Kjartan Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri tjónaþjónustu Tryggingamiðstöðvarinnar.

Að sögn Kjartans hafa um 1.000 far- eða snjallsímatjón verið skráð hjá félaginu það sem af er þessu ári. Hann segir að slíkum tjónum hafi fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár og það haldist í hendur við aukna snjallsímaeign. „Allt í einu varð útbreitt að vera með yfir 100.000 króna raftæki í vasanum. Fólk er með þetta öllum stundum og það eykur auðvitað líkur á að eitthvað komi upp á.“

Detta úr brjóstvösum karla

Hjá tryggingafélaginu Verði fengust þær upplýsingar að talsverð aukning hefði verið í tjónatilkynningum vegna snjallsíma og að gert væri ráð fyrir að þær yrðu um 1.600 talsins í ár. Ástæðurnar eru nokkuð fjölbreytilegar, segir Sigurður Óli Kolbeinsson, framkvæmdastjóri vátryggingasviðs Varðar. „Flestir missa símana, sumir lenda í þvottavél, það er nokkuð um að þeim sé stolið og þá lenda einhverjir í klósettskálum, gjarnan detta þeir þá úr brjóstvösum á skyrtum karlmanna.“

Sigurður Óli segir að fyrir skömmu hafi félaginu borist tilkynning frá ungum dreng sem varð fyrir því óláni að missa símann sinn og skemma hann er hann var við Pokémonleit. „Kannski eigum við eftir að fá fleiri slík tjón inn á borð hjá okkur, eru ekki annars allir úti að leita að þessum Pokémonum?“