Ævintýri „Við heyrum allt of oft um ferðalanga sem villast eða slasast í náttúru Íslands, sem stundum má rekja til rangra ákvarðana og fífldirfsku,“ segir Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis.
Ævintýri „Við heyrum allt of oft um ferðalanga sem villast eða slasast í náttúru Íslands, sem stundum má rekja til rangra ákvarðana og fífldirfsku,“ segir Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Aukin ásókn er í leiðsögunám í ævintýraferðmennsku í Keili en það stefnir í að 24 nemendur hefji nám á þeirri braut í haust.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Aukin ásókn er í leiðsögunám í ævintýraferðmennsku í Keili en það stefnir í að 24 nemendur hefji nám á þeirri braut í haust. Tæplega helmingur nemenda er af erlendu bergi brotinn og einnig er jafnt kynjahlutfall en það hefur aldrei gerst áður, að sögn Arnars Hafsteinssonar, forstöðumanns Íþróttaakademíu Keilis. „Ferðaþjónustufyrirtækin eru ánægð með námið og hafa sogað til sín nemendur að námi loknu. Það er mjög gaman að geta sagt við nemendur að þeir eru nánast öruggir með vinnu að námi loknu ef þeir standa sig vel,“ segir Arnar. Hann bendir á að afþreyingarferðamennska þar sem fólk sækist eftir því að kynnast öflum íslenskrar náttúru hefur vaxið hratt.

Námið tekur átta mánuði og er kennt á ensku en um helmingur námstímans er verklegur og fer fram víðs vegar um landið. Keilir hefur boðið upp á námið frá haustinu 2013 og hafa alls um 50 nemendur verið útskrifaðir, þar af 18 nemendur síðastliðið vor.

Námið í Keili er í samtarfi við kanadíska háskólann Thompson Rivers University (TRU). Sá skóli er einn sá stærsti í heiminum í þessari grein. Nokkrir Íslendingar höfðu útskrifast frá TRU áður en byrjað var að bjóða upp á námið á Íslandi

„Þegar við óskuðum eftir samstarfi við skólann höfðu forsvarsmenn hans horft til Íslands nokkrum árum fyrr og töldu að hér væri óplægður akur. Það var alveg rétt því heildstæð fagmenntun á háskólastigi á þessu sviði var ekki í boði. Það er þörf fyrir betri menntun á þessu sviði sérstaklega þegar litið er til öryggis viðskiptavinanna,“ segir Arnar. Hann bendir á að á þessum tíma þegar námið hóf göngu sína var þessi angi ferðaþjónustunnar að byrja að blómstra hér á landi.

Námið er grunnnám á háskólastigi og er hugsað fyrir fólk sem vill koma sér inn í fagið eða bæta við þekkingu sína. Nemendur fá þjálfun í leiðsögn í afþreyingarferðamennsku við krefjandi aðstæður eins og kletta- og ísklifur, jöklagöngur, flúðasiglingar, sjókajak o.fl. Rík áhersla er lögð á að tryggja öryggi ferðamannsins. Áhersla er lögð á að þjálfa leiðtogahæfni sem krefst þess að fólk hafi stjórn á hópum við misjafnar aðstæður og leiðsögumenn þurfa m.a. að vita hvenær á að snúa við ef aðstæður krefjast þess.

Fyrir nokkra áfanga námsins öðlast nemendur skírteini viðurkennd af atvinnugreininni en aðrir áfangar veita viðurkenningar þar sem útskriftarnemandinn þarf að vinna sig upp um stig með reynslu í faginu, t.a.m. eru skírteinin fyrir sjókajak og flúðasiglingar viðurkenning á að viðkomandi geti starfað í faginu undir stjórn reyndari leiðsögumanna.

Kröfurnar aukast

„Í dag er starfsumhverfi afþreyingarferðaþjónustu á Íslandi þannig að útskrifaðir nemendur skólans teljast hæfir til að takast á við flest störf innan greinarinnar en vissulega er viðbúið að kröfurnar muni alltaf aukast meira og meira svo við fylgjumst vel með og munum þróast í takt við kröfur hvers tíma.“

Næsta vor verður í fyrsta skipti boðið upp á námskeið í fjallaskíðamennsku. „Það er mikill áhugi fyrir því en það hefur orðið mikil sprenging í fjallaskíðamennsku undanfarið,“ segir Arnar. Í þeim áfanga öðlast nemendur einnig skírteini í snjóflóðabjörgun (Avalanche Operation I og II). Markmiðið er að veita kúnnanum hámarksupplifun og gæðaþjónustu í leiðsögn um óbyggðir en á sama tíma að vera ávallt tilbúinn að bregðast við ef slys eða óhöpp henda.

„Við heyrum allt of oft um ferðalanga sem villast eða slasast í náttúru Íslands, sem stundum má rekja til rangra ákvarðana og fífldirfsku. Slíkum uppákomum ætti að fækka ef ferðamenn notfærðu sér í meiri mæli þjónustu menntaðra leiðsögumanna,“ segir Arnar.