Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Tónskóli Sigursveins og Tónlistarskóli Kópavogs segja, að engin formleg tilkynning hafi borist frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um að áformað sé að ganga til samninga við Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík um rekstur tónlistarframhaldsskóla, að loknum fresti þátttakenda til að gera athugasemdir við niðurstöður sérstakrar matsnefndar sem mat hæfi skólanna til rekstrarins.

Ráðuneytið segir aftur á móti, að sambærileg bréf hafi verið send til tilboðsgjafanna beggja þann 25. júlí sl. þar sem tilkynnt var um áform ráðherra. Tekið er þó fram að í bréfunum felist ekki endanleg ákvörðun ráðherrans.

Tónlistarskóli FÍH og Tónlistarskólinn í Reykjavík lögðu fram sameiginlegt tilboð í rekstur tónlistarframhaldsskóla og Tónskóli Sigursveins og Tónlistarskóli Kópavogs sendu einnig inn tilboð sameiginlega.

Þann 12. júlí sl. barst skólunum niðurstaða matsnefndarinnar og var þeim veittur frestur til þess að gera athugasemdir við matið. Í umfjöllun Morgunblaðsins um málið í gær gagnrýndi Júlíana Rún Indriðadóttir, skólastjóri Tónskóla Sigursveins, að ekki hefði borist rökstuðningur með niðurstöðunni. Einnig gagnrýndi hún ferli valsins á rekstraraðila tónlistarframhaldsskólans og setti meðal annars spurningamerki við það ferli sem málið var sett í hjá Ríkiskaupum.

Sagði hún einnig að það liti út fyrir að í snarhasti hefði verið sett fram umgjörð „til að hylma yfir eitthvað sem þegar var búið að ákveða“.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, vísar gagnrýni Júlíönu á bug og segir að þvert á móti hafi ferlinu verið ætlað að vera opið og gagnsætt.

„Við fengum Ríkiskaup til að aðstoða okkur til að tryggja að ferlið væri opið og gagnsætt. Það var sérstök matsnefnd, skipuð utanaðkomandi aðilum meðal annars, sem var fengin til að leggja mat á umsóknirnar. Vissulega tekur þetta allt tíma, en þetta var einmitt gert svona til þess að tryggja sem best að það yrði gagnsæ ákvörðunartaka um það hverjir yrðu fengnir til að sinna þessu verkefni,“ segir Illugi.

Vegið að nefndarmönnunum

„Ég hafna því algjörlega að það sé með einhverjum hætti óeðlilega staðið að þessu. Með þessu er, að mínu mati, verið að vega að þessum einstaklingum sem sátu í matsnefndinni og unnu þessa vinnu samkvæmt bestu samvisku,“ bætir hann við.

Í máli Júlíönu kom einnig fram að óánægja væri meðal tónlistarskólanna með hugmyndina um tónlistarframhaldsskóla sem slíka og að ráðherra hafi ekki viljað hafa samráð við skólana eða eiga með þeim fundi.

„Það sem á tímabili var umræða um, voru áhyggjur ýmissa þeirra sem voru í tónlistarskólunum af því að fjármögnun þessa skóla yrði þannig að það fé sem ríkið setur í jöfnunarsjóð, sem hefur runnið til sveitarfélaganna, yrði notað til að fjármagna þennan skóla. Það er búið að leiðrétta þann misskilning,“ segir Illugi. Fjármagnið muni halda sér í þeim skólum, með framhaldsskólanum verði viðbótarfjármagni veitt inn í tónlistarnámið og fjárframlög á hvern nemanda hækki í raun.

Aðspurður hvenær niðurstöðunnar sé að vænta, segir Illugi að ákvörðun verði tekin „innan mjög skamms tíma, að öllu óbreyttu“, þ.e.a.s. þegar tekin hefur verið efnisleg afstaða til þeirra athugasemda sem borist hafi.