Víkverji er handlaginn og iðulega snöggur til verka. Hvort sem það er að skipta um ljósaperu, laga bankið í ofninum eða mála gluggana er hann ekki lengi að gera og græja. Aðra sögu er að segja þegar kemur að garðinum.

Víkverji er handlaginn og iðulega snöggur til verka. Hvort sem það er að skipta um ljósaperu, laga bankið í ofninum eða mála gluggana er hann ekki lengi að gera og græja.

Aðra sögu er að segja þegar kemur að garðinum. Mikið afskaplega sem Víkverja leiðist að þurfa að klippa limgerðið, snyrta beðin eða setja niður sumarblóm. Þegar vel viðrar þykir Víkverja reyndar fátt betra en að tylla sér út í bjarta morgunsólina með rjúkandi kaffibolla og glugga í blöðin. Því ekki vefst það heldur fyrir honum að bera á garðhúsgögnin.

Í hvert sinn sem Víkverji sér konuna í næsta húsi á fjórum fótum ofan í blómabeði með fingurna á kafi í rakri moldinni er ekki laust við smá pirring. „Jæja,“ hugsar þá Víkverji með sér og dæsir, „ég get ekki látið mitt eftir liggja“. Hann heldur út í garð vopnaður stórum garðklippum en alaskayllirinn sem fór niður um árið er farinn að teygja anga sína óþægilega langt yfir gangstéttina. Löngu var orðið tímabært að klippa – það var ekki lengi gert. Þegar gerði rigningu eða skúrir býsnaðist Víkverji iðulega yfir árans yllinum þegar blautar greinarnar og stórgerð laufin smelltu óumbeðnum blautum kossi á þá er áttu leið um.

Þetta var miklu betra, og viti menn, nú þegar greinar yllisins héngu ekki lengur yfir kom í ljós þetta líka fína beð. Arfi og annað illgresi hafði þar hreiðrað um sig en einhvern tímann var sagt að það væri til merkis um næringarríka mold. Líkt og að klippa greinarnar tók það fljótt af að reyta arfann úr beðunum.

Áður en Víkverji vissi af voru beðin orðin vel snyrt og niður voru komnar nokkrar stjúpur og morgunfrúr sem honum höfðu áskotnast frá konunni í næsta garði.

Það tók ekki nema hálft eftirmiðdegi að koma garðinum í gott horf. „Það er nú meira sem maður getur miklað þetta fyrir sér,“ hugsaði Víkverji. Hann var þá kannski með græna fingur eftir allt saman.