Markaskorari Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði tvö mörk fyrir Val í gær. Hér leikur hann á William Domingues, leikmann Víkings, á Hlíðarenda í leiknum.
Markaskorari Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði tvö mörk fyrir Val í gær. Hér leikur hann á William Domingues, leikmann Víkings, á Hlíðarenda í leiknum. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Hlíðarenda Jóhann Ólafsson johann@mbl.is Valsmenn eru léttir í lund eftir mestu ferðahelgi sumarsins. Leikmenn liðsins mættu út á Hlíðarenda í gær eins og kálfar á vori, þegar kálfarnir finna lyktina af nýslegnu gervigrasi.

Á Hlíðarenda

Jóhann Ólafsson

johann@mbl.is

Valsmenn eru léttir í lund eftir mestu ferðahelgi sumarsins. Leikmenn liðsins mættu út á Hlíðarenda í gær eins og kálfar á vori, þegar kálfarnir finna lyktina af nýslegnu gervigrasi. Þeir keyrðu nánast yfir gesti sína frá Ólafsvík og unnu fremur sannfærandi sigur, 3:1.

Þegar 23 mínútur voru liðnar af leik gærkvöldsins var staðan 2:0 og flest benti til þess að markasúpa væri í vændum. Gestirnir virkuðu heillum horfnir og leikmenn Vals spiluðu sig hvað eftir annað í gott marktækifæri. Kristinn Ingi Halldórsson lék sem fremsti maður hjá rauðklæddum en hann var duglegur að draga sig út á hægri vænginn og virtist það skapa talsverðan titring í vörn gestanna. En eins og oft hefur komið í ljós þá er tveggja marka forskot í fótbolta viðsjárvert. Gestirnir bættu leik sinn í seinni hálfleik, enda annað varla hægt. Þeir minnkuðu muninn en sá vonarneisti slokknaði við þriðja mark Valsmanna.

Liðin eru bæði með 18 stig eftir leikinn en virðast þó vera að mætast. Valsmenn horfa upp töfluna á meðan Ólafsvíkingar hafa tapað þremur leikjum í röð. Ólsarar verða að hafa varann á ef þeir ætla ekki að sogast niður í hinn leiðinlega slag sem fallslagurinn er. Að vísu eru þeir níu stigum á undan Fylki, sem er í næst neðsta sæti deildarinnar, en maður á víst aldrei að segja aldrei í boltanum. Rúmlega 20 stig ættu að duga til að Ólafsvíkingar nái markmiðum sínum, að halda sæti sínu í deildinni. Það þýðir að einn eða tveir sigrar í viðbót ættu að gera haustdagana huggulega á Snæfellsnesinu.