Átök Hópur uppreisnarmanna sést hér leita skjóls í húsarústum í suðurhluta borgarinnar Aleppo í Sýrlandi. Eiga þeir nú í átökum við stjórnarhermenn Bashars al-Assad Sýrlandsforseta og orrustuþotur rússneska hersins.
Átök Hópur uppreisnarmanna sést hér leita skjóls í húsarústum í suðurhluta borgarinnar Aleppo í Sýrlandi. Eiga þeir nú í átökum við stjórnarhermenn Bashars al-Assad Sýrlandsforseta og orrustuþotur rússneska hersins. — AFP
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Hersveitir Bashars al-Assad Sýrlandsforseta sækja nú hart inn í borgina Aleppo, sem fram á síðustu ár var fjölmennasta borg Sýrlands.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Hersveitir Bashars al-Assad Sýrlandsforseta sækja nú hart inn í borgina Aleppo, sem fram á síðustu ár var fjölmennasta borg Sýrlands. Í átökum sínum við uppreisnarmenn njóta þeir stuðnings frá rússneskum orrustuþotum, en flugmenn þeirra hafa haldið úti nær linnulausum loftárásum á þau hverfi sem enn eru undir stjórn uppreisnarhópa.

Fyrir um tveimur vikum tryggði herinn sér fótfestu í úthverfi sem finna má í suðvesturhluta borgarinnar. Á sunnudag gerðu uppreisnarmenn og hópar íslamista gagnárás og náðu að hluta aftur stjórn á áðurnefndu úthverfi. Þeir hafa nú verið brotnir á bak aftur eftir hörð átök sem komu í kjölfar mikillar sóknar hersveita Assads og sprengjuregns frá hendi Rússa.

„Gagnárás stjórnarhersins er nú í fullum gangi,“ hefur fréttaveita AFP eftir Rami Abdel Rahman, sem fer fyrir mannréttindasamtökum í Sýrlandi. „Sókn uppreisnarmanna hefur ekki skilað þeim árangri sem stefnt var að á þessu stigi.“

Sprengingar út nóttina

Fréttamaður AFP , sem staddur er í Aleppo, sagði sprengingar og átök hafa heyrst alla fyrrinótt. Sagði hann einnig stjórnarherinn m.a. notast við svonefndar tunnusprengjur, sem þykja afar ómarkvissar. Sprengjum þessum, sem oftast eru gerðar úr einföldum hlutum á borð við olíutunnur, er gjarnan varpað af handahófi úr þyrlum, en á þeim er enginn miðunarbúnaður. Fórnarlömbin koma því oft úr röðum óbreyttra borgara.

Sveitum Assads hefur vaxið ásmegin að undanförnu í orrustunni um Aleppo og m.a. tekist að umkringja borgina og skera á eina mikilvægustu birgðaleið uppreisnarmanna við og í Aleppo.

Með árásum sínum á úthverfið vonast uppreisnarmenn til að ná tökum á svæðinu svo hægt verði að opna fyrir nýja birgðaleið til borgarinnar. Við hlið uppreisnarmanna berjast t.a.m. liðsmenn frá íslamistahreyfingunni Jabhat Fateh al-Sham og vígamenn sem áður voru hliðhollir samtökum al-Kaída í Sýrlandi.

Mannfall mikið í Aleppo

Fréttaveita AFP segir óljósar fregnir berast þegar kemur að nákvæmum tölum yfir mannfall. Mannréttindasamtök sem starfandi eru í Sýrlandi segja yfir 50 uppreisnarmenn og íslamista hafa fallið í baráttunni um úthverfið í suðvesturhluta Aleppo. Þá eru einnig a.m.k. 12 hermenn sagðir látnir.

Átök þessara fylkinga hafa jafnframt bitnað mjög á almennum borgurum, en minnst 10 almennir borgarar, þeirra á meðal fjögur börn, eru sögð hafa týnt lífi þegar uppreisnarmenn vörpuðu sprengju á svæði sem er undir stjórn hersveita Assads forseta í úthverfinu.

Segja klórgasi hafa verið beitt

Í bænum Saraqeb, sem er í um 50 kílómetra fjarlægð frá Aleppo, áttu 24 íbúar í erfiðleikum með öndun í kjölfar þess að tunnusprengju var varpað á skotmark þar.

Halda íbúarnir því fram að í sprengjunni hafi verið klórgas, en um er að ræða eitraða lofttegund sem myndast þegar klór og sýra blandast saman. Notkun klórgassins fékkst að sögn AFP aftur á móti ekki staðfest.

Átökin í Sýrlandi, sem fyrst hófust í mars 2011, hafa nú kostað minnst 280.000 manns lífið.

Aleppo
» Borgin Aleppo var lengi vel fjölmennasta borg Sýrlands.
» Frá árinu 2012 hefur henni verið skipt upp í tvo helminga þar sem uppreisnarmenn ráða ríkjum í austurhluta borgarinnar og stjórnarhermenn í vesturhlutanum.
» Mjög er nú barist um úthverfi borgarinnar og hefur hersveitum Sýrlandsforseta vaxið ásmegin að undanförnu.