— Ljósmynd/Twitter
Farþegaþota flugfélagsins Emirates varð nær alelda skömmu eftir lendingu á alþjóðaflugvellinum í Dúbaí í gærmorgun. Um borð voru 300 manns og komust þeir allir heilir frá. Slökkviliðsmaður sem sinnti björgunarstörfum lést við vinnu sína.

Farþegaþota flugfélagsins Emirates varð nær alelda skömmu eftir lendingu á alþjóðaflugvellinum í Dúbaí í gærmorgun. Um borð voru 300 manns og komust þeir allir heilir frá. Slökkviliðsmaður sem sinnti björgunarstörfum lést við vinnu sína.

Flugvélin var af gerðinni Boeing 777 og var hún á leiðinni frá indversku borginni Trivandrum þegar atvikið átti sér stað.

Orsök slyssins voru í gær óljós, en sérfræðingur í flugöryggismálum sem fréttastofa CNN ræddi við segir ýmislegt benda til þess að lendingarbúnaður vélarinnar hafi gefið sig skömmu eftir lendingu í Dúbaí. Í kjölfarið segir hann farþegavélina hafa runnið stjórnlaust eftir flugbrautinni þar til hún staðnæmdist. Óhætt er að fullyrða að áhöfn þotunnar hafi brugðist hárrétt við og tókst henni að koma öllum 282 farþegunum frá borði. Enginn er sagður hafa slasast í rýmingu vélarinnar né heldur sjálfu slysinu.

Annar hreyfillinn rifnaði af

„Ef horft er á myndbönd frá vettvangi má sjá að hægri þotuhreyfillinn hefur losnað algerlega frá vélinni. Annaðhvort hefur hjólabúnaður gefið sig eða þá að vængur eða hreyfill hafi skollið utan í brautina,“ segir áðurnefndur sérfræðingur í samtali við fréttamenn CNN .