Markheppinn Atli Viðar skoraði tvívegis á Skaganum í gærkvöldi.
Markheppinn Atli Viðar skoraði tvívegis á Skaganum í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Akranesi Stefán Stefánsson stes@mbl.is Skagamenn mættu fullir eldmóðs þegar FH sótti þá heim á Akranes í gærkvöldi þegar leikið var í 13. umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu.

Á Akranesi

Stefán Stefánsson

stes@mbl.is

Skagamenn mættu fullir eldmóðs þegar FH sótti þá heim á Akranes í gærkvöldi þegar leikið var í 13. umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu. Höfðu þá unnið 5 leiki í röð, voru tilbúnir í þann sjötta og skoruðu mark snemma en Íslandsmeistarar FH eru eldri en tvævetur, náðu vopnum sínum, jöfnuðu fljótlega og tóku leikinn að mestu í sínar hendur. Uppskára fyrir það 3:1 sigur sem tryggir þeim toppsæti deildarinnar, sama hvað Stjarnan, sem fylgir í humátt, gerir gegn Víkingum í kvöld.

„Við héldum því nú sem hefur vantað hjá okkur uppá síðkastið, eins og gegn ÍBV í bikarkeppninni og Dundalk í Evrópukeppninni, að við missum stjórn á leiknum við að fá mark á okkur og missum þá aðeins hausinn en við töluðum um fyrir leikinn í kvöld að sama hvað gerðist, þá skyldum við halda skipulaginu okkar og halda áfram að gera það sem við erum góðir í,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, eftir leikinn en hann stjórnaði sínum mönnum að því er virtist áreynslulaust þó heyra mátti á honum eftir leikinn að hann væri vel móður.

„Þetta var sterkur sigur. Skaginn hafði unnið fimm leiki í röð svo það var ótrúlega sterkt að koma hingað og vinna 3:1 með því að spila góðan fótbolta. Við vorum ekki smeykir við að lenda í Skagamönnum eftir fimm unna leiki en vissum samt af því. Þeir voru með sjálfstraustið eins og sést best á markinu þeirra þegar hann þrumar boltanum nokkra metra fyrir utan vítateig og dúndrar í hornið. Þetta eru menn með sjálfstraust og við vissum að þetta yrði erfiður leikur en ótrúlegt að sjá að við, eftir tímabil sem við höfum jafnvel ekki náð að spila vel, komum svona til baka og vonandi það sem koma skal,“ bætti Davíð Þór við.

Sem fyrr segir er FH enn kyrfilega í efsta sætinu en Hafnfirðingar gera sér alveg grein fyrir að það þarf að hafa fyrir því. „Við megum ekki misstíga okkur mikið og það er hörku samkeppni á toppnum og deildin er jafnari en oft áður. Við vitum að liðin sem eru að elta okkur eru ekki að fara að tapa mörgum stigum svo við verðum að gjöra svo vel að vera á tánum. Það eru níu leikir eftir og við vitum að við megum ekki tapa mörgum stigum, þá erum við dottnir úr efsta sætinu en okkur líður vel þar og ætlum að vera þar áfram,“ bætti fyrirliðinn við.