Í skólastofu Formaður Félags grunnskólakennara segir kennaraskort yfirvofandi verði ekki gripið til aðgerða. Bæta þurfi laun og vinnuaðstæður.
Í skólastofu Formaður Félags grunnskólakennara segir kennaraskort yfirvofandi verði ekki gripið til aðgerða. Bæta þurfi laun og vinnuaðstæður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Meðalaldur grunnskólakennara hefur hækkað um rúm fjögur ár undanfarin 15 ár. Kennurum án kennsluréttinda hefur fjölgað talsvert og karlar í hópi grunnskólakennara verða sífellt færri.

Baksvið

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Meðalaldur grunnskólakennara hefur hækkað um rúm fjögur ár undanfarin 15 ár. Kennurum án kennsluréttinda hefur fjölgað talsvert og karlar í hópi grunnskólakennara verða sífellt færri. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjum tölum Hagstofu Íslands. Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir þessar tölur ekki koma á óvart. Ástæðan sé fyrst og fremst kjör og vinnuaðstæður kennara.

„Á meðan ekki verður gripið í taumana verður kennaraskortur á næstu árum. Meðalaldurinn mun halda áfram að hækka og körlum halda áfram að fækka,“ segir Ólafur. Spurður á hvaða hátt grípa þurfi í taumana segir hann að það snúist fyrst og síðast um laun og vinnuaðstæður. Þau ýmsu átök og herferðir sem ráðist hafi verið í til að fjölga kennurum hafi ekki skilað tilætluðum árangri vegna þess að þau hafi ekki beinst að rótum vandans. „Í gegnum tíðina hafa verið birtar fjölmargar auglýsingar þar sem sagt er frá öllu því góða og skemmtilega sem starfið býður upp á, sem er fjölmargt. Ég vil ekki gera lítið úr því að leggja áherslu á það, en það breytist ekkert nema það verði farið beint í kjaramálin.“

Meðalaldurinn er 47 ár

Haustið 2015 voru karlar 18,1% þeirra sem störfuðu við kennslu í grunnskólum landsins. Þetta hlutfall var 26% árið 1998 og Ólafur segir líklegt að það eigi eftir að lækka enn frekar. Hann segir að víða, t.d. á Norðurlöndunum, sé þetta hlutfall hærra en hér en þó hafi körlum í kennslu einnig fækkað þar. „Þetta er talsvert rætt á alþjóðavettvangi kennara og margir hafa áhyggjur af því hvaða áhrif þetta getur haft á þróun skólastarfs.“

Nú er meðalaldur grunnskólakennara tæp 47 ár samanborið við 42 ár árið 2000 og þegar tölur um aldurssamsetningu grunnskólakennara eru skoðaðar á vef Hagstofu sést að ungum kennurum hefur hlutfallslega fækkað og þeim eldri fjölgað. Árið 1998 voru 15% grunnskólakennara 29 ára eða yngri og í fyrra var þetta hlutfall 4,4%. Árið 1998 voru 23,5% allra grunnskólakennara 50 ára og eldri, en í fyrra var hlutfall kennara á þessum aldri komið upp í 40,7%. Ólafur segir unga kennara endast stutt í starfi. „Þeir koma inn í kennslu í nokkur ár en fara síðan í önnur og betur launuð störf. Fólk er oft að koma inn í svo erfiðar aðstæður og það er ekkert óeðlilegt við að það íhugi að byggja upp sinn starfsframa annars staðar. Við höfum lagt sérstaka áherslu á laun ungra kennara í síðustu samningum, en það hefur ekki dugað til.“

Margir hætta næstu árin

Samkvæmt tölum frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri munu samtals um 150 hefja kennaranám í skólunum í haust. Spurður hvort það teljist nægilegur fjöldi til að viðhalda fjölda kennara segir Ólafur að svo sé líklega ekki. Á næstu 5-7 árum munu stórir hópar kennara láta af störfum vegna aldurs. „Fyrir utan það er ómögulegt að segja hversu margir af þessum 150 nemendum muni skila sér í kennslu.“

Ólafur segir að ekki séu til tölur um fjölda þeirra sem eru með kennsluréttindi og starfa við annað en áætlar að þeir séu a.m.k. jafnmargir og þeir sem starfi við kennslu. „Það er einhver góð og gild ástæða fyrir því að fólk skilar sér illa í kennslu og samkvæmt því sem við heyrum frá fólki eru það fyrst og fremst launin.“