Hiti Margir hjá UMFÍ vilja lýðháskóla í þá byggð sem er við Laugarvatn.
Hiti Margir hjá UMFÍ vilja lýðháskóla í þá byggð sem er við Laugarvatn. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is „Það er hægt að horfa á þann möguleika að við byrjuðum með lýðháskóla hér eftir tvö ár,“ segir Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ sem er landssamband ungmennafélaga Íslands.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

„Það er hægt að horfa á þann möguleika að við byrjuðum með lýðháskóla hér eftir tvö ár,“ segir Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ sem er landssamband ungmennafélaga Íslands.

Félagið stefnir að því að stofna og reka lýðháskóla á Laugarvatni. Horft er til húsnæðis íþróttakennaraháskólans á Laugarvatni. Háskólaráð Háskóla Íslands ákvað í ár að flytja námið frá Laugarvatni til Reykjavíkur en samkvæmt UMFÍ mun það fækka opinberum störfum í Bláskógabyggð. Með stofnun lýðháskóla UMFÍ á Laugarvatni er hugmyndin að sporna við fækkun starfa auk þess sem valmöguleikum námsmanna að loknu stúdentsprófi fjölgar.

„Þetta eru bara þreifingar. Það er verið að kanna möguleika á þessu, að stofna lýðháskóla, en það hefur lengi verið áhugi á þessu,“ segir Haukur.

Undirbúningur undir lífið

Hver er munurinn á háskóla og lýðháskóla?

„Það er kannski hægt að lýsa því þannig að í lýðháskóla er hægt að vera heilt námsár en þú ert ekki að ljúka neinu lokaprófi í þeim skólum. Frekar námskeið sem eru að þjálfa fólk fyrir lífið.

Ef þessi skóli kemst á koppinn munum við horfa til ferðaþjónustu, íþrótta, félagsmálaþjálfunar, þar sem er verið að þjálfa ungt fólk til að taka við stjórn í hinum ýmsu félagasamtökum, og annars konar stjórnun eftir því sem hentar í samfélaginu, til dæmis lýðheilsutengd verkefni og þess háttar. Það er orðin algjör nauðsyn að einbeita sér að lýðheilsu til að hlífa heilbrigðiskerfinu.

Við höfum mikla reynslu í þessum málum,“ segir Haukur.