Ásta Pétursdóttir fæddist á Gautlöndum í Mývatnssveit 23. desember 1923. Hún lést á Dvalarheimilinu Hvammi, Húsavík, 19. júlí 2016.

Foreldrar hennar voru Sólveig Pétursdóttir, f. á Gautlöndum 4. maí 1885, d. 27. febrúar 1959, og Pétur Jónsson, f. í Reykjahlíð 27. apríl 1885, d. 9. janúar 1957. Systkini hennar voru Þóra, f. 9. febrúar 1910, d. 27. júlí 1930, Þuríður, f. 4. janúar 1912, d. 2. júní 1983, Pétur Gauti, f. 6. september 1914, d. 9. júní 1989, Þorgerður, f. 5. október 1916, d. 22. október 2008, Jón, f. 16. ágúst 1919, d. 21. október 1997, og Sigurgeir, f. 9. september 1926, d. 4. janúar 2008. Þau eru öll látin.

Ásta giftist 23. desember 1953 Hlöðver Þórði Hlöðverssyni, f. á Vík á Flateyjardal 8. október 1923, d. 27. nóvember 1993. Foreldrar hans voru Björg G. Sigurðardóttir frá Jökulsá á Flateyjardal og Hlöðver Jónsson frá Björgum.

Börn þeirra: 1) Hlöðver Pétur, f. 18. apríl 1955, maki: Kornína Björg Óskarsdóttir, f. 10. júní 1956. Börn: a) Ásta Ósk, f. 7. október 1982, sambýliskona: Auður Emilsdóttir, b) Jóna Björg, f. 17. desember 1985, c) Þóra Magnea, f. 3. janúar 1991, sambýlismaður: Arnór Orri Hermannsson. 2) Sólveig Björg, f. 2. desember 1956. Börn hennar með Friðriki Ara Friðrikssyni, fyrrverandi sambýlismanni: a) Jón Hlöðver, f. 12. maí 1995. b) Anna Björg, f. 7. júlí 1997. 3) Þorgeir Björn, f. 23. júlí 1959, maki: Sigríður Jónsdóttir, f. 22. mars 1962. Börn: a) Hlöðver Stefán, f. 25. júlí 1993, b) Ásta Soffía, f. 31. júlí 1995. Stjúpsonur Þorgeirs, sonur Sigríðar, er Ingólfur Pálsson, f. 29. júní 1980, maki: Azra Sehic. 4) Kristjana Gunnur, f. 10. júní 1963, maki: Sigurður Víkingsson, f. 20. október 1956. Börn: a) Sólveig Ásta, f. 2. ágúst 1989, sambýlismaður: Magnús Sigurðsson. b) Anna Elísabet, f. 10. febrúar 1997.

Ásta ólst upp á Gautlöndum á fjölmennu heimili í stórum hópi systkina og frændsystkina. Skólaganga hennar var í hefðbundnum farskóla þess tíma. Um tvítugt var hún vetrarlangt í vist hjá frænkum sínum í Reykjavík og gafst þá tækifæri til að stunda kvöldskóla hjá Námsflokkum Reykjavíkur í Miðbæjarskólanum. Hún stundaði síðan nám í Húsmæðraskólanum á Laugum veturinn 1945-46. Sú dvöl var henni mikils virði og þar eignaðist hún vinkonur fyrir lífstíð.

Ásta og Hlöðver bjuggu á Laugum 1953-55, þar sem hann var bryti og kennari við Héraðsskólann og hún ráðskona í eldhúsi skólans. Þau fluttu síðan í Björg 1955, bjuggu þar fyrst félagsbúi með foreldrum og bræðrum Hlöðvers og seinna með sonum sínum og tengdadóttur.

Eftir andlát Hlöðvers bjó hún ein í sínu húsi í 15 ár allt þar til hún flutti á hjúkrunar- og dvalarheimilið Hvamm á Húsavík þar sem hún bjó síðustu sjö árin.

Útför Ástu fer fram frá Þóroddsstaðarkirkju í dag, 4. ágúst 2016, kl. 14.

Móðir góð, komin var stundin. Ekki alveg óvænt, en högg er kemur. Mér er þakklæti í huga að þú fékkst að fara með svo góðum hætti – leggst til hvílu að kvöldi og ert farin við innlit fyrri hluta nætur.

Þín persónugerð var alla tíð að ala önn fyrir þínum og búa fólki í hag með þínum hætti. Segja má að þessi persónugerð þín endurspeglist í því hvernig þú ert í burtu kvödd. Á besta tíma sumarsins, margir sem þér eru kærastir hafa verið í kringum þig og eru heimavið.

Gnægð er í sjóði minninga og ánægjulegt að hlýða á barnabörn þín rifja upp sínar minningar og heyra af mótunaráhrifum þínum á þau.

Gautlandaheimilið fjölmennt, mótaði þig í uppvexti. Skólagangan ekki löng, en Húsmæðraskólinn á Laugum hafði sterk mótunaráhrif. Með þetta veganesti kemur þú húsfreyja í Björg 1955 og varð það þitt ævistarf.

Þegar yfir er litið, voru þínir skalar þeir mörgu smáu, sem snertu hið daglega líf fjölskyldunnar, ættingja og vina. Áhersla á vandaða daglega framgöngu í því sem fólk tók sér fyrir hendur. Ríkt í þinni persónugerð var alla tíð að rækta fjölskyldubönd og að fylgjast með gangi mála hjá öllum þér nákomnum. Sem dæmi var undravert hvað þú mundir aldur og afmælisdaga í stórfjölskyldunni, fram á síðustu ár.

Áfram má telja þau mörgu hversdagslegu gildi sem þú lagðir áherslu á, þau lærðum við að meta og draga dám af. Lífsins einfaldi sannleikur er jú sá, að ef vandað er til litlu atriðanna, fylgja öll þau stærri í þann góða farveg.

Ekki verður farið yfir lífshlaup þitt án þess að fjalla um sjúkdóm sem fylgdi þér lengst af ævi, þunglyndið. Á löngum köflum varstu ofan á í baráttunni, en einnig komu erfiðir kaflar þegar sjúkdómurinn náði yfirhöndinni.

Þegar nú er litið til baráttu þinnar við þunglyndið, þá er mér auðvelt val að minnast fyrst og fremst sigranna. Sannarlega var óumræðanlega erfitt að sjá þinn glaðværa persónuleika sökkva niður í svartnætti þunglyndisins. Það tók ekki lítið á að sitja með þér, þá þú varst niðri í dimmum dölum og í augum þér þvílíkur djúpur sársauki, að mann heilbrigðan verkjaði eftir. En í þeim sömu augum birtust líka fyrstu merkin, þegar gæta fór bata, þó að ekki sæjust um það önnur merki, eftir oft erfiða bið. Mikil þjálfun var sú bið í að tapa aldrei trúnni á bata og í eflingu þolinmæðinnar.

Sjá þinn glaðværa persónuleika birtast aftur smám saman, eru sigrarnir sem ég kýs að minnast, sigur glaðs huga yfir svartnætti þunglyndisins.

Annað sem hrjáði þig í þunglyndinu var að þú hefðir valdið afkomendum þínum skaða með sjúkdómnum en jafnoft andæfði ég og fullyrti að þvert á móti hefði þessi reynsla þroskað okkur og gert okkur að hæfari einstaklingum að takast á við lífsins fjölbreytileika.

Að lokum dreg ég upp mynd af okkar kveðjustund sem var svo einkennandi. Fallegur sunnudagsmorgunn, þú komin inn á herbergi eftir morgunverð og sast við borð þitt glaðleg og byrjuð að lesa í Árbók Þingeyinga. Þú hrósaðir syninum fyrir að líta vel út og vera í fallegri skyrtu.

Börn mín komu að kveðja og tókst þú þeim fagnandi með þínu gleðiríka brosi, eins og þau nutu svo oft. Eftir gott spjall kvaddir þú þau með góðum ferðaóskum.

Ég dvaldi aðeins lengur og þú fékkst tækifæri til að biðja mig um að vökva blóm þín. Þér mikils virði að fá einhvern nákominn til þess, eftir að líkamleg geta þín leyfði það ekki lengur.

Dýrmæt minning um ókomin ár.

mbl.is/minningar

Þorgeir Björn.

Það var á fögrum vordegi 1992 að við Ingólfur, sonur minn, komum inn í líf Ástu og Hlöðvers á Björgum. Við Þorgeir Björn, sonur þeirra, höfðum ákveðið að rugla saman reytum og nú vorum við mætt í kaffi heim í Björg. Hlöðver tók okkur fagnandi og náði fljótt að finna út hvar áhugasvið 11 ára gutta lágu, Ingó fékk athygli hans. Þorgeir hafði sagt okkur frá yfirstandandi glímu móður sinnar við þunglyndi og þegar við komum var Ásta ekki fær um að sýna svipbrigði eða tilfinningar, en Þorgeir talaði við hana eins og sá einn getur gert sem veit að elskan þeirra á milli er óskilyrt. Umhyggja Ástu birtist mér í fallegu kaffiborði og dæmalaust góðu kúmenkaffi sem ég smakkaði á í fyrsta en ekki síðasta sinn. Það var ofar mínum skilningi hvernig Ásta komst í gegnum daginn en ég áttaði mig á því síðar að hennar góði maður hafði hjálpað henni á fætur og hann og fjölskyldan höfðu stutt hana gegnum marga slíka daga. Þegar leið á sumarið og eftir dvöl á geðdeild fór Ástu að líða betur, í því ferli minnist ég dags með þeim mæðginum í blágresinu í skógræktinni heima á Björgum.

Ári síðar minnist ég þeirra hjóna þegar þau komu á sjúkrahúsið á Húsavík bæði brosandi að líta á nýfæddan sonarson sinn, Hlöðver Stefán. Dátt var hlegið og grínast þegar þau drógu upp úr pússi sínu heldur óvenjulega sængurgjöf sem var þrjú bindi af Söguatlas handa drengnum. Þarna gripu þau dýrmætt tækifæri en Hlöðver afi lést nokkrum mánuðum síðar. Tvö ár liðu uns við Þorgeir eignuðumst annan sólargeisla, Ástu Soffíu. Það var svo auðséð að öll barnabörn Ástu lýstu hvert með sínum hætti upp tilveru ömmu sinnar og hún fylgdist með lífshlaupi þeirra fram á síðasta dag.

Ógleymanleg er ferð í Mývatnssveit á afmælisdegi Þorgeirs 1996. Við stoppuðum drjúga stund hjá Böðvari frænda á Gautlöndum. Einlæg væntumþykja þeirra frændsystkina snerti við manni. Ásta átti auðvelt með að skilja ákafa og áhyggjur Böðvars af því „að synir hans væru nú ekki byrjaðir að slá“ og ekki bætti úr skák þegar þriggja ára snáðinn okkar liggjandi í grasinu reis upp og sagði: „grasið hérna vex alla leið upp í himininn“. Á sama augnabliki sáu þau spaugilegu hliðina á samtalinu og þá sameinuðust þau í hláturrokum og slógu sér á lær. Þau tóku upp léttara tal og minningar streymdu frá þeim, sagnafólk af Guðs náð.

Ásta amma kenndi börnum okkar svo ótalmargt og hjá henni fundu þau líka frið og ró þegar barnssálin þurfti á að halda. Margt á ég Ástu að þakka, henni leið vel í herberginu undir súðinni hjá okkur á Húsavík en það gaf henni mikið að geta létt undir með Þorgeiri sínum þegar ég fór í framhaldsnám. Þegar hún svo treysti sér ekki lengur til að búa í sveitinni varð herbergið undir súðinni hennar athvarf uns hún flutti í Hvamm og bjó sér þar fallegt heimili.

Það segir sína sögu að í Hvammi eignaðist Ásta vinkonur, vini og kunningja bæði hjá heimilis- og starfsfólki. Hún var sjálf óspör á þakkir og súkkulaðimola til starfsfólksins sem hjúkraði henni af alúð og hlýju.

Blessuð sé minning Ástu tengdamóður minnar.

Sigríður Jónsdóttir.

Elsku amma.

Það er skrýtin tilfinning að skrifa þessi orð til þín. Við hlógum stundum að því að þú værir búin að kveðja mig í síðasta sinn í meira en tíu ár. „Takk, elsku stelpan mín, fyrir allar góðu stundirnar okkar saman, þær eru mér svo dýrmætar.“ sagðir þú og kysstir mig mörgum sinnum á kinnina. Nú finnst mér svo erfitt að trúa því að ég geti ekki hringt í þig og heyrt fallegu röddina þína.

Engin orð fá lýst hve dýrmæt þú varst mér. Við vorum svo góðar vinkonur, nöfnurnar. Alltaf þegar ég kom til þín tókstu á móti mér með stærsta brosinu og hlýjasta faðminum. Þú tókst alltaf á móti mér með kjöti í karríi hvort sem við komum um hádegi eða miðnætti. Alltaf gisti ég í afaholu og mátti velja hvað yrði pantað úr mjólkurbílnum eins og ég væri drottning í ríki mínu. Hefðin og yfirvegunin einkenndi tímann okkar saman í sveitinni, að bera virðingu fyrir náttúrunni og fara sér ekki með offorsi.

Þegar ég fer yfir gömlu bréfin okkar sé ég hvað þú hefur hrósað mér mikið í námi og þá sérstaklega fyrir tungumál, íslensku og bókmenntir. „Þá vildi ég frekar að þú hefðir fengið verðlaun íslenskrar tungu en þessi Megas“ stendur í einu af bréfunum frá þér. Þó að við höfum ekki verið sammála um ágæti verka Megasar þá finnst mér auðið að sjá hve mikla hvatningu þú hefur veitt mér til að hafa trú á sjálfri mér.

Þegar ég hugsa um sambandið okkar finn ég hvað þú kenndir mér mikið um styrk. Því þrátt fyrir stóra brosið þitt og glaðværðina vissi ég að þú háðir grimmar baráttur hið innra. Þó að við höfum ekki talað um það opinskátt veit ég að þú barðist af öllu afli fyrir þeim gleðistundum sem þú áttir. Veturinn 2014 þegar þú háðir eina af þínum baráttum fyrir geðheilsunni fannst mér svo dýrmætt að fá að vera hjá þér og halda utan um þig, þig sem hafðir svo oft huggað mig og fengið mig til að brosa og vera sterk. Hvílíkan styrk get ég varla ímyndað mér eins og að glíma við andlegan sjúkdóm á tíma þar sem þekking og meðferðir voru ekki til staðar. Hve oft þú hefur upplifað þig vanmáttuga, elsku amma mín. Þú verður alltaf fyrirmyndin mín og áminning um að styrkur birtist í ótal myndum, ekki síst í glaðværu brosi.

Ég minnist þín þó fyrst og fremst sem dýrmætrar vinkonu og mikils húmorista. Þú áttir ekki til orð yfir flakkið á mér og hvenær ég ætlaði eiginlega að hætta að vera alltaf á þessum ferðalögum? Og ég stríddi þér á móti, einu sinni hringdi ég í þig undir fölsku yfirskini og spurði hvort þú hefðir áhuga á að styrkja Arion banka. Þú svaraðir afar kurteislega: „Heyrðu, vina mín, ég er meira fyrir að styrkja góðgerðarsamtök.“ Þegar ég sagði þér hver stæði að baki samtalinu skelltir þú upp úr og svona hlógum við saman endalaust.

Ég mun minnast þín sem gestrisnu ömmu minnar sem tók svo fallega á móti gestum, samverustundir með gestum voru alltaf heilagar.

Elsku amma, þú munt alltaf búa í hjartanu mínu, í hverju matarboði, í hverju fallegu sólarlagi, í hverjum blómagarði verður þú hjá mér og minning þín mér nærri.

Vertu sæl, þín dótturdóttir,

mbl.is/minningar

Sólveig Ásta Sigurðardóttir.

Tilviljanirnar leiða okkur stundum á óskrifaðar brautir og ein slík braut var vörðuð fermingarsumarið mitt 1982. Ég hafði verið í unglingavinnunni á Akureyri, en henni var að ljúka það sumarið. Mig minnir að þetta hafi komið þannig til að Ásta, ömmusystir mín, var í heimsókn hjá okkur í Þingvallastrætinu og gisti nokkrar nætur. Þær mamma hafa örugglega rætt um að eitthvað þyrfti ég að gera meira en sparka bolta allan daginn, a.m.k. fór það þannig að Ásta bauð mér að koma austur í Björg til sín og dvelja þar 4-6 vikur fram að skóla, sem ég og þáði. Mikill vinskapur var ætíð á milli mömmu og Ástu og slíkar heimsóknir ekki óalgengar, svo ekki sé talað um löngu símtölin þegar mamma hvarf skyndilega inn í herbergi eða eldhúsið í meira en klukkutíma og bar okkur svo bestu kveðjur frá Ástu frænku þegar hún kom fram aftur.

Þessi heimsókn var upphafið að veru minni á Björgum, á sumrin, í vetrarfríum, á haustin í göngum og við hin og þessi tilefni. Ávallt var gott að koma til Ástu, hlýlega tekið á móti mér og af væntumþykju, skemmtilegt að spjalla yfir rjúkandi kaffi og jólaköku, segja fréttir af fjölskyldunni og finna áhuga hennar á því hvernig okkur liði og gengi í lífinu, og svo jafnvel tekinn á eintal í forstofunni á leiðinni út ef eitthvað þurfti að ræða undir fjögur augu.

Ég er þakklátur fyrir það að hafa fengið að koma til þín í Björg fyrir meira en 30 árum, fengið að kynnast þér, Hlöðver bónda og öllum í fjölskyldunni ykkar og fyrir óteljandi góðar minningar frá Björgum í gegnum árin.

Snorri Karlsson.