Advania, Borealis, GreenQloud, Nýherji, Opin kerfi, Síminn, Verne Global og Vodafone reka öll gagnaver á Íslandi.
Advania, Borealis, GreenQloud, Nýherji, Opin kerfi, Síminn, Verne Global og Vodafone reka öll gagnaver á Íslandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Í áhættugreiningarskýrslu Cushman & Wakefield, Data Center Risk Index 2016, fær Ísland hæstu einkunn.

Ísland þykir ákjósanlegur kostur fyrir staðsetningu gagnavera. Í áhættugreiningarskýrslu Cushman & Wakefield, Data Center Risk Index 2016, fær Ísland hæstu einkunn en á eftir eldfjallaeyjunni koma Noregur, Sviss, Finnland og Svíþjóð. Þrjú ár eru frá síðustu skýrslu Cushman & Wakefield um áhættuþætti tengda gagnaverum og þá sat Ísland í sjöunda sæti listans.

Geymsla hvers konar gagna og öruggur aðgangur að þeim er að verða sífellt mikilvægari þáttur í rekstri margra fyrirtækja að sögn Björns Brynjúlfssonar, framkvæmdastjóra Borealis Data Center-gagnaversins, og mikilvægi þess að Íslandi skuli vera komið á toppinn á lista Cushman & Wakefield getur skilað sér í auknum áhuga á Íslandi.

„Á hverjum einasta degi sækir fólk einhver gögn til gagnavera sem geta verið staðsett hér og þar um heiminn. Með því að fara á Facebook eða nota tölvupóst er til dæmis verið að sækja gögn inn í gagnaver. Þörfin er því mikil og gott að fá staðfestingu á samkeppnishæfni Íslands en þessi atvinnugrein hefur verið að vaxa jafnt og þétt á síðustu árum. Í kjölfar skýrslunnar ættu fleiri staðarvalsaðilar að líta til Íslands, með jákvæðum áhrifum fyrir geirann.“

Hagkvæm og örugg orka

Innviðir á borð við ljósleiðara og flutningskerfi raforku eru mikilvægir í staðarvali gagnavera en það telur ekki allt í áhættumatinu því horft er til annarra þátta að sögn Björns.

„Orkukostnaður, orkuöryggi, viðskiptaumhverfi og pólitískur stöðugleiki skiptir miklu máli ásamt öðru. Hér á landi er búið við örugga, hagkvæma og græna orkuframleiðslu en það er komið inn á grænu orkuna í skýrslunni. Skýrslan bendir til þess að vægi hennar sé að aukast í ákvörðun fyrirtækja hvar þau geyma sín gögn.“

Þá bendir Björn á að kuldinn komi loks að gagni.

„Kæling er stór þáttur í rekstri gagnavera og þó að kerfið sé nokkuð flóknara en að opna bara glugga þá dregur það úr kostnaði hversu kalt er hér á landi.“

Halda þarf vel á spilunum

Gagnaver greiða meira fyrir raforku en stóriðja hér á landi en að sama skapi nota þau minni orku. Björn segir vöxt gagnavera á Íslandi geta skilað fjölda hálaunaðra sérfræðistarfa og ýtt undir frekari vöxt í tæknigeiranum.

„Gagnaver hérlendis nota í dag um 30 MW af orku sem er tæplega 10 prósent af því sem meðalálver þarf í sína starfsemi. Gagnaver eru góður orkukaupandi, það er auðvelt að stækka gagnaverin því stækkun kallar ekki á mikla fjárfestingu orkufyrirtækjanna og bak við hvert MW er talið að skapist nokkur bein störf í gagnaverum.“

Til að tryggja áframhaldandi vöxt atvinnugreinarinnar hér á landi þarf að mati Björns að halda vel á spilunum og tryggja gott umhverfi og innviði. Þannig segir hann t.d. Írland vera með hagkvæmt skattaumhverfi og Norðurlöndin, sem koma rétt á eftir Íslandi á lista Cushman & Wakefield, hafi náð til sín stórum aðilum eins og Facebook og Google með uppbyggingu innviða og umhverfis.

„Þetta er mikilvæg atvinnugrein sem getur hjálpað okkur að byggja upp enn öflugri upplýsinga- og tæknigeira á Íslandi.“