Afmælisbarn Birgitta naut lífsins í hringferð sinni um landið í sumar.
Afmælisbarn Birgitta naut lífsins í hringferð sinni um landið í sumar.
Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir, nemi í félags- og markaðsfræði við Háskóla Íslands, er 24 ára í dag. Hyggst hún fagna afmælinu með snæðingi á Austurvelli, en búist er við hæglátu veðri og sólskini í Reykjavík í dag.

Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir, nemi í félags- og markaðsfræði við Háskóla Íslands, er 24 ára í dag. Hyggst hún fagna afmælinu með snæðingi á Austurvelli, en búist er við hæglátu veðri og sólskini í Reykjavík í dag.

Birgitta Rún segir að hinum helmingi afmælisdagsins verði fagnað á vinnustaðnum, Fréttablaðinu, þar sem hún starfar við umbrot. Umbrotið er framarlega í forgangsröð Birgittu Rúnar, en hún hefur brotið um fjölda skólablaða í sínum gamla skóla, Verzlunarskóla Íslands og í haust mun hún sinna blaði Vöku – félags lýðræðissinnaðra stúdenta í Háskólanum, Glaðvakanda.

Í sumar hefur Birgitta Rún ferðast nokkuð um Ísland. „Ég fór hringferð um landið á fimm dögum með vinkonu minni. Ég mæli með því fyrir hvern sem er,“ segir hún, en hápunkturinn var þegar þær fundu afskekkta náttúrulaug. Að hennar sögn mun hún halda því leyndarmáli fyrir sig. „Þetta er bara mín laug!“ segir hún og hlær.

Birgitta Rún segir afmælisdaginn sérstaklega gleðilegan vegna þess að hún deili honum með ömmu sinni, Ingibjörgu Bergsveinsdóttur, en hún er 83 ára í dag. Ingibjörg hefur löngum sagt að Birgitta sé sú allra besta afmælisgjöf sem hún hafi fengið.

Birgitta Rún unir sér vel á Fréttablaðinu. „Ég fíla stemminguna á fréttastofunni, maður fær fréttirnar alveg beint í æð,“ segir hún, en hún vonast til að starfa þar sem allra lengst.