Skóli Meðalaldur kennara hækkar.
Skóli Meðalaldur kennara hækkar. — Morgunblaðið/Eggert
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Meðalaldur grunnskólakennara er nú um 47 ár og hækkar ár frá ári.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Meðalaldur grunnskólakennara er nú um 47 ár og hækkar ár frá ári. Karlar í hópi grunnskólakennara verða sífellt færri og kennaraskortur er fyrirsjáanlegur, að mati Ólafs Loftssonar, formanns Félags grunnskólakennara, sem segir starfsaðstæður og launakjör helstu ástæður þessa.

Sjötti hver grunnskólakennari á Vestfjörðum er án kennsluréttinda, en fjölgað hefur í hópi réttindalausra kennara.

Grípa þarf í taumana

„Á meðan ekki verður gripið í taumana verður kennaraskortur á næstu árum. Meðalaldurinn mun halda áfram að hækka og körlum halda áfram að fækka,“ segir Ólafur. Spurður á hvaða hátt grípa þurfi í taumana segir hann að það snúist fyrst og síðast um laun og vinnuaðstæður. Þau ýmsu átök og herferðir sem ráðist hafi verið í til að fjölga kennurum hafi ekki skilað tilætluðum árangri vegna þess að þau hafi ekki beinst að rótum vandans.

Haustið 2015 voru karlar 18,1% þeirra sem störfuðu við kennslu í grunnskólum landsins. Þetta hlutfall var 26% árið 1998 og Ólafur segir líklegt að það eigi eftir að lækka enn frekar.