Framkvæmdir Unnið hefur verið að því að undanförnu að steinleggja gatnamót Hverfisgötu og Klapparstígs.
Framkvæmdir Unnið hefur verið að því að undanförnu að steinleggja gatnamót Hverfisgötu og Klapparstígs. — Morgunblaðið/Ófeigur
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Miklar framkvæmdir hafa verið í gangi neðarlega á Hverfisgötu í Reykjavík. Brátt sér fyrir endann á þeim samkvæmt upplýsingum Þorkels Jónssonar hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Miklar framkvæmdir hafa verið í gangi neðarlega á Hverfisgötu í Reykjavík. Brátt sér fyrir endann á þeim samkvæmt upplýsingum Þorkels Jónssonar hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Hverfisgata á milli Klapparstígs og Smiðjustígs verður algerlega endurnýjuð, þ.e. lagnir í jörðu og yfirlagnir. Verkið hefur tafist en áætlað er að áfanganum ljúki um miðjan ágúst. Verið er að fara í hitaveitulögn í norðurkanti og síðan í lagnir í gangstétt norðan megin.

Þá er verið að steinleggja gatnamót Hverfisgötu og Klapparstígs. Eftir er að malbika hjólastíg norðan megin í götunni. Áætlað er að hleypa umferð á gatnamótin þriðjudagsmorguninn 9. ágúst.

Á gatnamótum Hverfisgötu og Smiðjustígs hefur verktakinn verið að vinna við tengingu á fráveitulögnum frá Smiðjustígs gatnamótunum og í vestur átt að Þjóðleikhúsinu. Þeirri vinnu er að ljúka en áfram verða opnar tengiholur. Aðkoma að bílastæðahúsi er að opnast að nýju.

Þá hefst vinna við sjálf Smiðjustígsgatnamótin (3. áfanga) og er stefnt að því að 20. ágúst, þ.e. á „Menningarnótt“, verði hægt að opna fyrir gangandi umferð um götuna en endanlegum frágangi verði lokið um miðjan september.

Samhliða vinnu við Smiðjustígsgatnamótin ætlar Orkuveitan að endurnýja háspennustreng austan við Þjóðleikhúsið og þarf þá að þvera Hverfisgötuna þar. Vinna við þverunina tekur u.þ.b. tvo daga.

Lægstbjóðandi í verkið var fyrirtækið Grafa og grjót ehf. Tilboðsupphæð var um 117 milljónir sem var um 85% af kostnaðaráætlun. Veitur og Míla taka þátt í kostnaði við verkið ásamt Reykjavíkurborg.