Hættur? Eiður í leik á EM í sumar.
Hættur? Eiður í leik á EM í sumar. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrna Jóhann Ólafsson johann@mbl.is Knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen er hættur hjá norska úrvalsdeildarliðinu Molde FK. Hann hefur þó ekki tekið ákvörðun um það hvort hann sé búinn að leggja skóna á hilluna.

Knattspyrna

Jóhann Ólafsson

johann@mbl.is

Knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen er hættur hjá norska úrvalsdeildarliðinu Molde FK. Hann hefur þó ekki tekið ákvörðun um það hvort hann sé búinn að leggja skóna á hilluna. Hann tilkynnti ákvörðun sína í gær og flaug heim til Íslands að því loknu.

„Ég átti gott spjall við Ole Gunnar (Solskjær) og þetta er aðallega vegna þeirrar stöðu sem við erum í sem lið,“ sagði Eiður. Þegar hann horfir til lengri tíma þá sé rétti tímapunkturinn að stíga til hliðar núna.

„Liðið er á breytingaskeiði og það eru margir leikmenn að koma upp. Ef við horfum á framtíðina og til lengri tíma held ég við getum verið sammála um að þar á ég ekki heima,“ sagði Eiður en hann verður 38 ára í næsta mánuði. „Eftir síðasta leik fannst mér ég vera að taka tækifærið frá einhverjum öðrum sem ella fengi dýrmæta reynslu og þetta er sú ákvörðun sem ég hef tekið,“ sagði Eiður en Molde er í 9. sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

Eiður gekk til liðs við Molde í byrjun febrúar en hann lék í hálft ár með kínverska liðinu Shijiazhuang Ever Bright áður en hann hélt til Noregs. Áður hefur hann til að mynda leikið með PSV, Chelsea, Barcelona og unnið fjölda landstitla auk þess sem hann var í sigurliði Barcelona í Meistaradeild Evrópu árið 2009.

Mun Eiður aðstoða Heimi?

Sama dag og Eiður tilkynnti að hann væri hættur að leika með Molde gefur Knattspyrnusamband Íslands það út að boðað hafi verið til blaðamannafundar á morgun. Leiða má að því líkur að efni fundarins sé að kynna aðstoðarmann Heimis Hallgrímssonar landsliðsþjálfara.

Ýmis nöfn hafa verið nefnd til sögunnar í því samhengi. Helgi Kolviðsson var landsliðinu innan handar á meðan EM í Frakklandi stóð og hann hefur verið nefndur til sögunnar. Einnig hefur nafn Rúnars Kristinssonar verið nefnt sem og nafn Eiðs Smára. Sjálfur sagði Eiður í síðasta mánuði að hann væri ekki á leiðinni í þjálfarateymið. Það gæti gerst í framtíðinni en ekki alveg á næstunni.

„Ég geri mér grein fyrir því að ég er nærri endalokum ferils míns en ég hef ekki ákveðið hvort ég sé alfarið hættur að spila fótbolta,“ sagði Eiður enn fremur.