Færeysku uppboðin fólu í sér að 70% aflaheimilda fóru til útlendinga

Nýjasta tilraunin til að eyðileggja stjórnkerfi fiskveiða hér við land er að gera kröfu um að Íslendingar taki upp uppboðskerfi aflaheimilda eins og Færeyingar hafa gert tilraunir með. Uppboðshugmyndin er ekki ný, en andstæðingar aflamarkskerfisins telja að uppboð Færeyinga gefi þeim nýtt tækifæri til að hrinda draumi sínum í framkvæmd.

Því er haldið fram að tilraun Færeyinga sýni að ríkið geti án neikvæðra afleiðinga stóraukið tekjur sínar af sjávarútveginum með því að bjóða upp aflaheimildir. Þannig megi þjóna öfundarröddunum með því að hirða hagnaðinn af útgerðinni.

Íslenskur sjávarútvegur er ólíkur sjávarútvegi flestra annarra að því leyti að hann stendur ekki aðeins undir sér heldur einnig undir stórum hluta þjóðarbúsins. Hann greiðir skatta, sem kallaðir eru veiðigjöld, umfram aðrar greinar atvinnulífsins og hann á í harðri samkeppni á erlendum mörkuðum við niðurgreiddan sjávarútveg, eða í það minnsta sjávarútveg sem ekki greiðir slíka umframskatta.

Þetta er erfitt rekstrarumhverfi, en við það bætist stöðugt yfirvofandi hótun um að auka enn frekar álögur á greinina eða jafnvel að gera eignir hennar upptækar til endursölu. Ýmsar útfærslur hafa verið nefndar á þessari eignaupptöku og er uppboðsleiðin færeyska sú sem nú er rætt um. Það sérstaka er að þessi umræða fer fram án nokkurs tillits til þess annars vegar að í upphafi var aflaheimildunum úthlutað til þeirra sem stunduðu veiðar af þeirri nauðsyn að ella stefndi í ofveiði og hins vegar að síðan hefur megnið af aflaheimildunum gengið kaupum og sölum. Núverandi rétthafar heimildanna hafa því yfirleitt greitt þær fullu verði. Það að taka þessar heimildir af þeim sem þær hafa er því fráleit aðgerð og getur ekki gerst bótalaust, sem sýnir vel hve fjarstæðukennd umræðan er.

En jafnvel þó að horft sé framhjá þessu eru hugmyndir um uppboð stórvarasamar og erfitt að ímynda sér að nokkur stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur vilji taka þær upp, nema þá með margvíslegum fyrirvörum og skilyrðum, sem í raun fælu í sér að uppboðið væri aðeins sýndarmennska. Væri uppboð haldið án allra skilyrða um hver keypti eða um hámarkskaup, svo dæmi séu tekin, er augljóst að á svipstundu yrði byggð víða um land kollvarpað. Þá yrði samþjöppun í greininni mun meiri en nú er og minni útgerðir ættu litla möguleika. Þetta kæmi sér ágætlega fyrir stærstu útgerðirnar, en tæpast stafar áhuginn á uppboðsleiðinni af vilja til þess að einungis stórútgerðir þrífist í landinu.

Hver ætli reynsla Færeyinga sé af þeim takmörkuðu uppboðum sem tilraunir hafa verið gerðar með? Um það var á dögunum fjallað í grein í færeyska vefmiðlinum vp.fo og þar kemur margt fram sem sýnir á hve miklum misskilningi umræðan um færeysku leiðina byggist.

Í greininni er bent á að landsstjórnin í Færeyjum hafi lagt áherslu á að uppboð tryggði nýjum aðilum aðgang að aflaheimildum, en niðurstaðan hafi orðið sú að ekki einn einasti nýr aðili hafi verið á meðal kaupenda, aðeins þeir sem stundað hafi útgerð árum saman.

Þá hafi landsstjórnin talið að vægi erlendra fjárfesta yrði takmarkað í uppboðinu, en raunin hafi orðið sú að útlendingar hafi keypt 70% aflaheimildanna. Eins og fram kemur í fyrrnefndri grein er þessi mikla þátttaka útlendinga í færeyska uppboðinu einmitt ástæða þess hve hátt verð fékkst fyrir aflaheimildirnar, en eins og þar er bent á mundi verðið í uppboðinu lækka strax og búið væri að ryðja þeim veikustu út af uppboðsmarkaðnum.

Miðað við umræðuna hér á landi má vel vera að einhverjir sjái ekkert athugavert við að nota uppboðsleiðina til að selja meirihluta aflaheimilda Íslands til útlendinga, en sú stefna er ekki líkleg til árangurs í stjórnmálum. Engu að síður má búast við að einhverjir reyni að halda umræðunni áfram og nota færeysku uppboðin til að grafa undan því farsæla stjórnkerfi fiskveiða sem verið hefur við lýði hér á landi í um þrjá áratugi.

Íslenski sjávarútvegsráðherrann hefur hafnað þessum uppboðshugmyndum og er ástæða til að fagna því að þær eigi ekki upp á pallborðið hjá íslenskum stjórnvöldum. Ef marka má viðbrögð ýmissa annarra er þó full ástæða til að hafa áhyggjur af þeim hugmyndum sem uppi verða í sjávarútvegsráðuneytinu á næsta kjörtímabili.