Heillandi tónlist Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Jóhannes Andreasen koma fram á tónleikum sem verða haldnir í Norræna húsinu í kvöld.
Heillandi tónlist Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Jóhannes Andreasen koma fram á tónleikum sem verða haldnir í Norræna húsinu í kvöld. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Við Jóhannes höfum þekkst í um áratug vegna stjórnarsetu okkar í félagasamtökum norrænna tónlistarmanna, en fórum fyrst að starfa saman fyrir alvöru í vor þegar ég dvaldi um nokkurt skeið í Færeyjum.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Við Jóhannes höfum þekkst í um áratug vegna stjórnarsetu okkar í félagasamtökum norrænna tónlistarmanna, en fórum fyrst að starfa saman fyrir alvöru í vor þegar ég dvaldi um nokkurt skeið í Færeyjum.“ segir Hallveig Rúnarsdóttir sópran sem ásamt Jóhannesi Andreasen kemur fram á tónleikum í Arctic Concerts-röðinni í Norræna húsinu í kvöld kl. 20.30. Á efnisskránni eru ljóðaflokkurinn „Haugtussa“ eða Stúlkan á heiðinni eftir norska tónskáldið Edvard Grieg, sönglög eftir Atla Heimi Sveinsson og færeysk píanótónlist eftir m.a. Trónd Bogason sem er einn af nánustu samstarfsmönnum Eivarar Pálsdóttur.

Leit mannsins að kjarnanum

Í vor sem leið söng Hallveig burðarhlutverk í óperunni Ljós í ljóði eftir Kristian Blak, en Rói Reynagarð Patursson samdi textann, sem sett var upp í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn. „ Ljós í ljóði er aðeins önnur færeyska óperan sem kemst á svið,“ segir Hallveig bendir á að vinnan við uppfærsluna hafi verið einstaklega gefandi og skemmtileg. „Þetta er afskaplega heillandi og falleg tónlist undir sterkum djassáhrifum. Textinn er óræður og verkið draumkennt eftir því, en það býr ekki yfir neinum hefðbundnum söguþráði. Verkið fjallar um leit mannsins að kjarnanum í sjálfum sér,“ segir Hallveig og bendir á að hópinn, sem að uppfærslunni kom, dreymi um að setja verkið upp hérlendis.

Auk Hallveigar tóku m.a. þátt tenórinn Elmar Gilbertsson og barítóninn Jón Svavar Jósefsson, grænlenskur leikari, dansarar frá Íslandi og Færeyjum og færeyskur kór, en leikstjóri uppfærslunnar var Lára Stefánsdóttir og hljómsveitarstjóri Bernharður Wilkinsson. Meðal hljóðfæraleikara voru klarinettuleikarinn Guðni Franzson, sem er listrænn stjórnandi Arctic Concerts-tónleikaraðarinnar, og píanóleikarinn Kristian Blak.

Lúxus að fá að flytja verkin aftur

„Við Jóhannes höfum lengi talað um að halda saman tónleika og í júní sl. gafst okkur loks tækifæri til þess,“ segir Hallveig, en þau Andreasen komu fram á tónleikaröð undir listrænni stjórn Kristians Blak sem nefnist Sumartónar og héldu tónleika bæði í Norðurlandahúsinu og í Suðurey.

„Það er alltaf lúxus þegar maður fær að flytja sömu efnisskrána oftar en einu sinni og ávallt gaman að koma aftur að tónverkum,“ segir Hallveig sem sungið hefur ljóðaflokk Grieg áður á tónleikum hérlendis og nokkur laga Atla Heimis, þó að vissulega séu líka lög á efnisskránni sem Hallveig hefur ekki tekist á við áður. Innt eftir því hvort ekki hefði verið tilvalið að hafa færeysk sönglög á efnisskránni bendir Hallveig á að þar sé alls ekki um auðugan garð að gresja. „Það helst kannski í hendur við það að þótt sterk kórahefð sé í Færeyjum og margir góðir söngvarar þá er ekki kenndur þar einsöngur og af þeim sökum lítið samið af einsönglögum,“ segir Hallveig.

Spurð hvernig þau Andreasen nái saman sem tónlistarmenn segir hún samstarfið afskaplega gjöfult. „Jóhannes er mjög flottur píanisti og stórt nafn í Færeyjum í klassíska heiminum. Við náðum strax vel saman og samstarfið hefur verið mjög farsælt. Svo skemmir heldur ekki fyrir hversu guðdómlega falleg tónlistin er sem við erum að vinna með,“ segir Hallveig og rifjar upp að Andreasen hafi ásamt konu sinni búið hérlendis á árum áður og m.a. kennt tónlist í Kópavogi. Samkvæmt upplýsingum frá tónleikahaldara nam Andreasen við Tónlistarháskólann í Vínarborg og Yehudi Menuhin-akademíuna í Sviss. Að sögn Hallveigar kemur hann reglulega til Íslands til að halda tónleika. Andreasen leikur gjarnan einleik með Sinfóníuhljómsveit Færeyja, er meðlimur tónlistarhópsins Aldurbáran auk þess að halda tónleika og kenna í Færeyjum. Mörg færeysk tónskáld, s.s. Tróndur Bogason og Sunleif Rasmussen, hafa skrifað fyrir Andreasen og hann hljóðritað verk þeirra.

Fjöldi verkefna bíður

Að sögn Hallveigar er ávallt nóg að gera hjá henni, en stutt er síðan hún var í London þar sem hún söng við opnun yfirlitssýningar Ragnars Kjartanssonar í Barbican-listamiðstöðinni. „Ragnar hélt tónleikadagskrá í tengslum við opnun sýningarinnar. Það var gríðarlega skemmtilegt og áhugavert. Þar var ég innan um eintóma stórsnillinga. Ég söng tvö einsöngslög eftir Kjartan Sveinsson, fyrrverandi liðsmann Sigur Rósar, en Davíð Þór Jónsson spilaði með mér á píanó,“ segir Hallveig, en meðal annarra listamanna sem komu fram voru Dóri DNA sem var með ljóðalestur og systurnar Kristín og Gyða Valtýsdætur fluttu tónlist.

Spurð hvað sé framundan hjá henni segist Hallveig vera búin að skipuleggja nokkurn fjölda einsöngstónleika. „Í september er ég að syngja ljóðaflokkinn „Italienisches Liederbuch“ eða Ítölsku ljóðabókina eftir Hugo Wolf ásamt Ágústi Ólafssyni barítón og Gerrit Schuil píanóleikara í Salnum í Kópavogi. Við höldum okkar striki með Mistakasögu mannkyns sem fresta varð í vor, en fer á svið í Gamla bíói 16. september nk. Ég syng einsöng á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í desember, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Hallveig og tekur fram að hún hyggi á tónleikahald erlendis á nýju ári. „Það er margt spennandi að gerast eftir jól.“