Fyrirtækið stundar meðal annars koparnámugröft í hinni gríðarmiklu Oyu Tolgoi-námu í Góbí-eyðimörkinni í Mongólíu en hún var uppgötvuð árið 2001.
Fyrirtækið stundar meðal annars koparnámugröft í hinni gríðarmiklu Oyu Tolgoi-námu í Góbí-eyðimörkinni í Mongólíu en hún var uppgötvuð árið 2001. — Ljósmynd/Rio Tinto
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir James Wilson námufréttaritara Rio Tinto rekur námastarfsemi í löndum á borðvið Kína, Mongólíu og Ástralíu. Nýr forstjóri fyrirtækisins segir að margar áskoranir séu fram undan á sviðinu en þær eru ólíkar eftir svæðum.

Nýr forstjóri Rio Tinto segir að námageirinn muni áfram þurfa að búa við sveiflukenndar og krefjandi aðstæður á þessu ári. Um leið staðhæfði hann að fyrirtækið geti gert meira til að bæta frammistöðu sína.

Jean-Sébastien Jacques sagði að Rio færi gætilega í hvers kyns kaupum og þvertók hann fyrir mögulegan samning sem þótt hefur umdeilanlegur, þegar hann sagði námafyrirtækið ekki hafa í hyggju að stækka meirihlutaeign sína í kanadíska námarekstrinum Turquoise Hill Resources, sem á Oyu Tolgoi-koparnámuna í Mongólíu.

Mun lægra hrávöruverð

Rio birti tölur úr hálfsársuppgjöri á miðvikudag og í takt við skarpa lækkun á hrávörumarkaði á síðasta ári var hagnaður nærri helmingi lægri en á sama tíma árið 2015. Lækkuðu hlutabréf fyrirtækisins um 0,9% á markaðinum í London í byrjun dags.

Rio sagði efnahagsvöxt í Kína hafa náð jafnvægi en þaðan fær fyrirtækið á bilinu 40 til 50 prósent af tekjum sínum. Fylgdi þó með að Kína sé í „löngu breytingaferli í átt til hægari vaxtar sem mun í minna mæli verða háður hrávörum“.

„Á sama tíma virðist alþjóðahagkerfið fast í hjólförum minnkaðrar framleiðslu og bendir það til að áfram þurfi að sýna aðgát á seinni helmingi ársins 2016,“ sagði í tilkynningu námafyrirtækisins.

Jacques tók við forstjórastólnum þegar Sam Walsh settist í helgan stein 1. júlí síðastliðinn, hafandi setið við stjórnvölinn í þrjú og hálft ár. Er þess vænst að Jacques muni leggja fram áætlanir sem munu sýna hvernig fyrirtækið hyggst halda áfram að vaxa næsta áratuginn.

Í stjórnartíð Walsh var einkum einblínt á að lækka skuldir fyrirtækisins og að þrauka í gegnum endalok margra ára uppsveiflu á hrávörumarkaði.

Rio skar fjárfestingarútgjöld niður um 47% á fyrsta helmingi þessa árs borið saman við sama tímabil í fyrra. Er reiknað með að útgjöldin nái botni í ár en fari svo vaxandi á ný.

Aukin umsvif í námugreftri

Í maí samþykkti fyrirtækið 5,3 milljarða dala stækkun Oyu Tolgoi og í þessari viku var staðfest að 338 milljónum dala yrði varið í að ljúka við uppbyggingu Silvergrass-járnnámunnar í vesturhluta Ástralíu.

Rio ræður yfir Oyu Tolgoi í gegnum 51% eignarhlut sinn í Turquoise Hill. Turquoise, sem er skráð á markað í Kanada, á tvo þriðju hluta námunnar og hafa sumir markaðsgreinendur og ráðgjafar ekki verið hrifnir af þeirri hugmynd að Rio auki hlut sinn í Turquoise Hill og styrki þannig ítök sín í Mongólíu á tiltölulega ódýran máta.

En Rio – sem hefur í mörg ár verið fast í deilum við mongólsk stjórnvöld um fyrirhugaða stækkun Oyu Tolgoi – þykir vera ófúst að gera sig að enn stærra skotmarki hjá þessari Asíuþjóð og er þó fyrir stærsti fjárfestirinn í landinu.

„Við höfum engin áform um að auka eignarhlut okkar í Turquoise Hill,“ sagði Jacques á miðvikudag.

Hagnaðurinn minnkar mikið

Námafyrirtækið birti árshlutatölur úr rekstrinum sem sýna að undirliggjandi hagnaður var 1,6 milljarðar dala, sem er 47% lækkun frá sama tímabili árið 2015, en nokkuð yfir því sem almennt var spáð.

Heildartekjur hækkuðu úr 799 milljónum dala upp í 1,7 milljarða en heildarskuldir lækkuðu um 6% á tímabilinu og nema nú 12,9 milljörðum dala.

Rio hafði frestað ákvörðuninni um að fjárfesta meira í Silvergrass á meðan járngrýtismarkaðurinn róaðist, en sagði að stækkun framleiðslunnar, sem eykur framleiðslugetuna um 10 milljónir tonna, sé eitt mest virðisaukandi námaverkefni sem völ er á og muni fjárfestingin skila sér til baka á innan við þremur árum.

Aukin framleiðsla í Ástralíu

Stækkunin mun auka árlega járngrýtisframleiðslugetu Rio í Pilbara-svæðinu í Ástralíu upp í 360 milljónir tonna. Fyrirtækið segir að það muni taka nokkur ár að ná því framleiðslumagni og búist sé við 330 milljónum tonna á þessu ári en 340 milljónum árið 2017 vegna tafa á lagningu sjálfakandi lestar.

Á miðvikudag upplýsti Rio að greiddur verði arður upp á 45 sent á hlut á fjórðunginum sem á að koma fyrirtækinu á rétta braut við að standa við það loforð að greiða að lágmarki 110 senta arð á hlut árið 2016. Vegna lækkunar hrávöruverðs sagði Rio fyrr á þessu ári skilið við sína fyrri stefnu um að viðhalda eða auka arðgreiðslur ár hvert.