Handaband Thorbjørn Jagland (t.v.) heilsar Recep Tayyip Erdogan.
Handaband Thorbjørn Jagland (t.v.) heilsar Recep Tayyip Erdogan. — AFP
Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, hvetur tyrknesk stjórnvöld til að virða réttarríkið.

Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, hvetur tyrknesk stjórnvöld til að virða réttarríkið. Jagland, sem er í opinberri heimsókn í Tyrklandi, er æðsti evrópski embættismaðurinn til að sækja Tyrki heim eftir hina mislukkuðu valdaránstilraun sem gerð var í landinu um miðjan júlí.

Fréttaveita AFP greinir frá því að Jagland muni á næstu dögum funda með háttsettum embættismönnum þar í landi. Ræddi hann í gær við blaðamenn og sagðist þá m.a. hafa skilning á því að tyrknesk stjórnvöld þyrftu að láta þá sem stóðu að baki tilrauninni svara til saka. Stjórnvöld yrðu þó engu að síður að gæta hófs.

Skjót viðbrögð Receps Tayyips Erdogans, forseta Tyrklands, við valdaránstilrauninni misheppnuðu hafa vakið mikla athygli um heim allan, en yfirvöld þar í landi hafa handtekið eða leyst frá störfum um 60.000 manns.