Golf í miðnætursól dregur golfara til landsins hvaðanæva úr heiminum.
Golf í miðnætursól dregur golfara til landsins hvaðanæva úr heiminum. — Morgunblaðið/Ómar
Jón Þórisson jonth@mbl.is Erlendur kylfingur skilur að meðaltali að minnsta kosti helmingi meiri tekjur eftir sig á golfvellinum en innlendir kylfingar gera.

„Það er ekki vafi á að miðnæturgolfið er aðalaðdráttarafl erlendra kylfinga sem hingað koma,“ segir Magnús Oddsson, framkvæmdastjóri Golf Iceland sem er samstarfsvettvangur golfklúbbanna á Íslandi og ferðaþjónustufyrirtækja. Markmiðið með samtökunum er að laða hingað fleiri erlenda kylfinga.

„Byggt á þeim tölum sem þegar hafa borist bendir allt til að 65% aukning hafi orðið á spili erlendra kylfinga hér á landi í samanburði við sama tíma í fyrra.“ Það er því ekki vafi á að landið er að verða eftirsóttara meðal erlendra kylfinga eins og annarra erlendra ferðamanna.

Magnús segir að þeir kylfingar sem hingað koma segi að golfvellirnir hér á landi dragi þá líka hingað. „Það er svo víða í heiminum þar sem menn spila á völlum sem eru tilbúnir í öllu tilliti. Hér falla vellirnir að náttúrunni. Kylfingar spila til dæmis á bökkum Hvítár eða inni í eldfjalli í Vestmannaeyjum. Þetta er mikil söluvara.“ Hingað kemur fólk alls staðar að og af öllum getustigum. En þeir skera sig úr frá innlendum kylfingum að því leyti að þeir skilja eftir sig meiri tekjur. Þeir leigja golfsett, golfbíla, kaupa veitingar og jafnvel fatnað og minjagripi á völlunum. „Ég hef séð dæmi frá einum klúbbi um að erlendir kylfingar skilji eftir sig að meðaltali 12-14 þúsund krónur á kylfing eftir golfhring, þar sem vallargjaldið er 8.000 krónur.“ Hann segir algengara að erlendir kylfingar vilji leigja golfbíl á völlunum. „En sumir kylfingar eru almennt vanir því að ferðast á golfvellinum á golfbíl. Það er beinlínis krafa um það víða á völlum sem þeir eru vanir að spila á. Það kemur því fyrir að við getum ekki orðið við kröfum stórra hópa því það er einfaldlega ekki nægur fjöldi bíla til reiðu.“