Haraldur Gísli Sigfússon og Fannar Guðmundsson hjá TotalHost. Þeir vilja byrja á Íslandi, gera það vel og athuga svo með útlönd. Íslenski markaðurinn dugar til að láta reksturinn bera sig.
Haraldur Gísli Sigfússon og Fannar Guðmundsson hjá TotalHost. Þeir vilja byrja á Íslandi, gera það vel og athuga svo með útlönd. Íslenski markaðurinn dugar til að láta reksturinn bera sig. — Morgunblaðið/Ófeigur
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is TotalHost hjálpar fólki sem leigir út gistingu á síðum eins og Airbnb að fá söluþóknun fyrir að beina gestum í átt að rútuferðum, bílaleigubílum og fleiru. Dæmigerður gestgjafi gæti verið að fara á mis við nærri hálfa milljón króna á ári í glötuðum þóknunum.

„Hótel hafa verið að gera þetta í hálfa öld og fá þóknun fyrir. Leigusalar á Airbnb eru að gera það sama; eiga í stöðugum samskiptum við ferðamennina og veita þeim ráð og leiðsögn, en fá ekki greitt fyrir það. Þeir eru að vinna vinnuna en þar til nú hafa þeir ekki getað fengið borgað fyrir,“ segir Fannar Guðmundsson.

Fannar er hér að lýsa starfsemi sprotafyrirtækisins TotalHost sem hann stofnaði í félagi við Harald Gísla Sigfússon. „TotalHost gerir leigusölum á síðum eins og Airbnb mögulegt að fá greidda söluþóknun fyrir að vísa ferðamönnum á bókunarsíður þar sem kaupa má ferðir um landið.“

Smá afsláttur og greiðsla

Löng hefð er fyrir því í ferðaþjónustugeiranum að ýmsir milliliðir sem aðstoða ferðamenn við bókanir fái hóflega þóknun fyrir. Hefur þessi möguleiki ekki verið til staðar fyrir þann fjölda fólks sem leigir út herbergi og íbúðir til ferðamanna. „TotalHost virkar þannig að leigusalinn skráir sig hjá okkur og fær persónulega auðkenndan afsláttarkóða. Þegar gesturinn bókar ferð hjá samstarfssíðum TotalHost notar hann kóðann til að fá örlítinn afslátt og leigusallinn fær um leið þóknun fyrir söluna.“

Til að byrja með mun TotalHost leggja mesta áherslu á kynnisferðir og segir Fannar stefnt að því að bjóða upp á fimmtíu ólíka ferðapakka í fyrstu atrennu auk þess að ein bílaleiga verður með. „Framtíðarsýnin er að einnig verði hægt að bóka miða á menningarviðburði og söfn og borð á veitingastöðum.“

Næstum hálf milljón árlega

Segir Fannar að leigusalar á Airbnb, sem og þeir sem reka minni gistiheimili eða taka á móti ferðamönnum með öðrum hætti, geti haft verulegan fjárhagslegan hvata til að nota TotalHost. „Miðað við þær tölur sem aflað hefur verið um heimagistingu á Íslandi og útgjöld ferðamanna sem sækja landið heim þá gæti hinn dæmigerði leigusali verið að fá allt að 38.000 króna þóknun á mánuði í gegnum TotalHost, og það án þess að vera í raun að leggja á sig nokkra vinnu aukalega. Þetta gerir liðlega 450.000 krónur á ári sem þessi hópur er í dag að fara á mis við.“

Byrja á Íslandi og vanda sig

Svo virðist sem TotalHost sé fyrsta fyrirtækið til að bjóða upp á þennan möguleika og gæti viðskiptahugmyndin vel átt erindi við erlenda markaði. „Við höfum ekki enn séð neinn sem er að gera nákvæmlega sama hlutinn. Planið er að byrja á Íslandi og gera það virkilega vel, og í framhaldinu endurtaka leikinn erlendis. Er íslenski markaðurinn þó nógu stór einn og sér til að TotalHost geti staðið undir sér,“ segir Fannar og bendir um leið á að ef farið verður inn á erlenda markaði verði að taka mið af því að þar eru ferðamenn að kaupa annars konar þjónustu en á Íslandi. „Fólk sem heimsækir Ísland sækist eftir því að komast í tæri við náttúruna og því hafa rútuferðir svona stóran sess hjá okkur. Gestir í Kaupmannhöfn eða Berlín eru að leita að allt annarri þjónustu og verður að laga framboðið á TotalHost að því.“

TotalHost var valið til þátttöku í Startup Reykjavík og hefur sumarið verið notað til að leggja lokahönd á forritun. Fyrstu prófanir eru að hefjast og ætti vefsíða TotalHost.is að vera orðin að fullu starfhæf í byrjun vetrar. Segir Fannar mikilvægt að koma þjónustunni hratt á laggirnar og skapa tekjur. „Þegar því marki er náð getum við lagt aftur mat á stöðuna og skoðað t.d. hvort aðkomu fjárfesta er þörf til að stækka starfsemina. Í augnablikinu erum við þó ekki í fjármagnsleit.“

Pólitískur hringlandaháttur

Þeir félagar þurfa að gæta sín á nokkrum hættum. Þannig er ákveðin pólitísk áhætta í kringum starfsemi vefsíðna á borð við Airbnb og nú síðast að á Íslandi voru samþykt ný lög sem þrengja mjög að leigusölum. Í borgum eins og New York og Berlín hafa yfirvöld sett heimagistingu töluverðar skorður sem verka til að minnka þennan markað. Síðan er ekki útilokað að Airbnb – risinn á markaðinum – gæti amast við starfseminni. „Við höfum ekki rekist á neitt í þeirra skilmálum sem kemur í veg fyrir þá þjónustu sem TotalHost býður upp á,“ segir Fannar og bendir á að jafnvel sé ekki útilokað að ToltaHost reyni að eiga í beinu samstarfi við Airbnb ef starfsemin vex. Hefði samstarf þann kost að auðveldara yrði að vekja athygli leigusala á þessum nýja tekjumöguleika.

Á næstu dögum hefjast beta-prófanir á TotalHost og geta áhugasamir skráð sig á Totalhost.is.