Hinn 4. apríl 2016 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli E-2597/2015 þar sem viðurkennt var að óheimilt væri að reka gististað í fjölbýlishúsi án samþykkis allra félagsmanna í viðkomandi húsfélagi. Í því tilviki var um að ræða skipulega útleigu á íbúðum til ferðamanna til skamms tíma.

Fjölgun hótelherbergja hefur ekki haldið í við þá eftirspurn sem leiðir af stórauknum straumi ferðamanna hingað til lands. Afleiðing þessa er að hið svokallaða deilihagkerfi hefur vaxið og fjöldi íbúða er leigður út til ferðamanna og þá aðallega í gegnum Airbnb. Í skýrslu Háskólans á Bifröst, þar sem umfang íbúðagistingar í ferðaþjónustunni var rannsakað, kemur fram að í júlí 2015 hafi um 1.900 gistirými verið í boði í Reykjavík í gegnum Airbnb. Þessari þróun fylgja ýmis lögfræðileg álitaefni.

Hinn 4. apríl 2016 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli E-2597/2015 þar sem viðurkennt var að óheimilt væri að reka gististað í fjölbýlishúsi án samþykkis allra félagsmanna í viðkomandi húsfélagi. Í því tilviki var um að ræða skipulega útleigu á íbúðum til ferðamanna til skamms tíma. Húsfélagið höfðaði mál til þess að fá viðurkennt að með því að hefja atvinnurekstur í séreignahlutum sem ætlaðir voru til íbúðar en ekki atvinnurekstrar hefði hagnýtingu umræddra séreignahluta verið breytt og eigendum þeirra hefði borið að afla samþykkis allra félagsmanna húsfélagsins. Dómurinn taldi að með þeirri starfsemi sem útleiga til ferðamanna fól í sér hefði orðið breyting á eðli sambýlis í húsinu og sýnt þótti að skertir hefðu verið hagsmunir íbúa fjölbýlishússins til að fá notið eigna sinna í friði og án truflunar í samræmi við það sem í upphafi var gert ráð fyrir og þau máttu reikna með. Var það því niðurstaða dómsins að sú breytta hagnýting sem umrædd starfsemi hafði í för með sér hefði haft svo verulegt ónæði, óþægindi og röskun í för með sér fyrir aðra eigendur eða afnotahafa hússins að hún væri háð samþykki allra eigenda þess.

Hinn 31. maí 2016 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 67/2016 um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007. Samkvæmt lögunum er heimagisting nú skilgreind sem gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Fjöldi útleigðra daga í báðum eignum samanlagt skal ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári eða samanlagðar tekjur af leigu eignanna skulu ekki nema hærri fjárhæð en 1 milljón króna, en sú fjárhæð verður 2 milljónir króna frá og með 1. janúar 2017. Sé umrædd gististarfsemi innan framangreindra marka þarf viðkomandi ekki rekstrarleyfi. Einu kröfurnar sem eru gerðar eru að viðkomandi skrái sig hjá sýslumanni, greiði skráningargjald og að hin útleigða fasteign uppfylli kröfur um brunavarnir. Þá kemur fram í lögskýringargögnum að markmið ákvæðanna um heimagistingu væri meðal annars að „aðskilja þetta form útleigu frá hefðbundinni gististarfsemi í atvinnuskyni“ og heimagisting myndi framvegis „aðeins ná til útleigu sem aukabúgreinar og utan almennrar atvinnustarfsemi“.

Af þessu má ráða að löggjafinn lítur ekki á heimagistingu eins og hún er nú skilgreind í lögum sem atvinnustarfsemi. Í athugasemdum við 27. gr. í frumvarpi til laga um fjöleignarhús kemur fram að með breytingum á hagnýtingu séreignar sé einkum átt við atvinnustarfsemi af ýmsum toga í húsnæði sem ætlað er til íbúðar. Þannig má færa rök fyrir því að einstaklingar sem vilja bjóða upp á heimagistingu sem fellur innan þeirra marka sem mælt er fyrir um í lögum nr. 85/2007 geti gert það án þess að aflað sé samþykkis annarra eigenda í viðkomandi fjöleignarhúsi. Slíkt feli enda ekki í sér breytingu á hagnýtingu séreignar þar sem ekki er um atvinnustarfsemi að ræða.