Hjúkrun Asbest getur leitt til alvarlegra sjúkdóma í lungum.
Hjúkrun Asbest getur leitt til alvarlegra sjúkdóma í lungum. — Morgunblaðið/Ómar
„Það sem við sjáum í þessu er að fjöldi asbest-tilfella hefur farið upp á við yfir tímabilið og í rauninni mest núna á síðasta 10 ára tímabilinu,“ segir Kristinn Tómasson, yfirlæknir hjá Vinnueftirliti ríkisins, en bann við innflutningi á...

„Það sem við sjáum í þessu er að fjöldi asbest-tilfella hefur farið upp á við yfir tímabilið og í rauninni mest núna á síðasta 10 ára tímabilinu,“ segir Kristinn Tómasson, yfirlæknir hjá Vinnueftirliti ríkisins, en bann við innflutningi á asbesti árið 1983 virðist ekki hafa borið tilætlaðan árangur heldur hefur fjöldi tilfella svonefnds fleiðruþekjuæxlis aukist.

Kristinn fór fyrir rannsókn á því hver árangurinn hefði verið af banninu og nú þegar 30 ár eru liðin síðan bannið var sett virðist árangurinn ekki vera í samræmi við væntingar.

Upphafleg kenning rannsakenda var að ekki yrði vart við viðvarandi aukningu á síðasta tímabili.

„Við vorum að vonast til þess að þetta bann myndi leiða til þess að aukningin yrði framundir 2004-2005 en að eftir 2005 myndi það detta niður en það gerir það ekki,“ segir Kristinn.

Ýmislegt í rannsókninni bendir til þess að umfangið hér á landi, hvað varðar magn asbests og vinnu við efnið, hafi verið af annarri stærðargráðu en rannsakendur höfðu ætlað fyrir.

Segir Kristinn það vera svolítið í samræmi við það að hámarki innflutnings var náð rétt fyrir 1980 en tíminn sem líður frá því að byrjað er að vinna við asbest og þar til fólk veikist er allt frá 15 til 40 eða 50 ár.

„Þannig að við hefðum trúað því að núna, þegar það er árið 2016 og að verða 33 ár liðin frá banni, að það ætti að fara að minnka en við erum ekki að sjá þessa minnkun ennþá,“ segir Kristinn.

Rannsóknin tók einungis til fleiðruþekjuæxlis en ekki annarra kvilla en asbest getur einnig leitt til alvarlegra lungnasjúkdóma.

Fleiðruþekjuæxli er þó langalgengasta meinið og er asbest helsti orsakavaldur þess hér á landi.