Bókin Það er leitun að skarpari fræðimanni en Deirdre McCloskey og rétt að veita því athygli þegar hún sendir frá sér nýja bók. McCloskey er prófessor við Illinois-háskóla í Chicago, sagnfræðingur að mennt og með hagfræðigráðu frá Harvard.

Bókin

Það er leitun að skarpari fræðimanni en Deirdre McCloskey og rétt að veita því athygli þegar hún sendir frá sér nýja bók.

McCloskey er prófessor við Illinois-háskóla í Chicago, sagnfræðingur að mennt og með hagfræðigráðu frá Harvard.

Í vor kom út síðasta bókin af þremur í bókaflokki McCloskey um kenningar hennar um borgarastéttina. Nýja bókin heitir Burgeois Equality: How Ideas, Not Capital or Institutions, Enriched the World. Er bókin á lista FT yfir áhugaverðar bækur til að lesa í sumarfríinu.

Eins og undirtitillinn gefur til kynna setur McCloskey hér fram kenningu sem hafnar hefðbundnum skýringum á vaxandi hagsæld allt frá tímum iðnbyltingarinnar. Hún skrifar hagsældarþróunina undanfarnar tvær aldir á framgang nýrra hugmynda, frekar en á krafta fjármagnsins eða áhrif stofnana sem orðið hafa til í samfélaginu.

Þar með er ekki sagt að fjármagn skipti ekki máli, eða að megi hundsa hlutverk stofnana, en mest munar um að tekist hefur að skapa samfélag „borgaralegs jafnréttis“ þar sem það viðhorf er ríkjandi að allir hafi rétt á að bæta sig sem manneskjur. Það er þetta umhverfi sem laðar fram nýjar og verðmætar hugmyndir sem þeyta hagkerfinu áfram. Framfarirnar eiga sér stað í daglegum athöfnum venjulegra borgara, sem selja, kaupa, finna upp og gera alls kyns litlar tilraunir sem saman leyfa mannkyninu að taka risastór skref fram á við með hverri nýrri kynslóð. ai@mbl.is