Erindi, tónlist og leiklist verður á hátíðardagskrá Ólafsdalshátíðar næstkomandi laugardag, 6. ágúst. Ómar Ragnarsson verður kynnir, Lína Langsokkur skemmtir og Drengjakór íslenska lýðveldisins syngur.

Erindi, tónlist og leiklist verður á hátíðardagskrá Ólafsdalshátíðar næstkomandi laugardag, 6. ágúst. Ómar Ragnarsson verður kynnir, Lína Langsokkur skemmtir og Drengjakór íslenska lýðveldisins syngur. Aðalræðumaður verður Þorsteinn Sæmundsson, alþingismaður og fyrrverandi kaupfélagsstjóri Kaupfélags Saurbæinga.

Auk þess verður matar- og handverksmarkaður og sýningar verða í Ólafsdalshúsinu. Fastasýning hússins, Ólafsdalsskólinn 1880-1907, er á 1. hæð og Dalablóð, málverkasýning Guðrúnar Tryggvadóttur, á annarri hæð.

Boðið verður í ferð með nýuppgerðri rútu, Soffíu II, í kringum Gilsfjörð.

Endurgjaldslaus aðgangur er að hátíðinni en seldar verða veitingar og miðar í Ólafsdalshappdrættinu.

Hátíðardagskráin hefst klukkan 13 en markaðurinn hefst fyrr og rútuferðin verður klukkan 11.