Jón Þórisson jonth@mbl.is Seðlabankinn hefur í tvígang veitt lífeyrissjóðum og öðrum vörsluaðilum séreignalífeyrissparnaðar heimild til fjárfestinga erlendis. Heimildin hljóðar upp á 40 milljarða í hvort sinn.

Jón Þórisson

jonth@mbl.is

Seðlabankinn hefur í tvígang veitt lífeyrissjóðum og öðrum vörsluaðilum séreignalífeyrissparnaðar heimild til fjárfestinga erlendis. Heimildin hljóðar upp á 40 milljarða í hvort sinn. Fjármálafyrirtækið Gamma heldur fram í bréfi til Seðlabankans af þessu tilefni að þau sjónarmið sem bankinn lagði til grundvallar heimildinni eigi einnig við um fyrirtæki sem vaðveiti og ávaxti sparnað í formi verðbréfa- og fjárfestingarsjóða. Í ljósi meginreglu stjórnsýslulaga um jafnræði beri því þeim félögum sambærileg heimild. Þessu hefur Seðlabankinn hafnað með þeim rökum að næstum allir fulltíða Íslendingar eigi aðild að lífeyrissjóðum. Svo sé ekki í tilviki verðbréfasjóða.

Í nýlegri frétt Morgunblaðsins við fulltrúa eins stóru lífeyrissjóðanna kemur fram að heimild til fjárfestingar erlendis sé brýn í ljósi áhættudreifingar. Benda má á að verðbréfasjóðir lágu undir ámæli fyrir slaka áhættudreifingu í kjölfar bankahrunsins, enda töpuðust mikil verðmæti af þeirra bókum.

Þegar leitað var viðbragða bankans við bréfi Gamma segir að veittar séu árlega um 1.000 undanþágur frá höftum og margar þeirra séu mjög matskenndar.

Þrátt fyrir þetta búa þeir sem hafa falið verðbréfasjóði að ávaxta sparnað sinn ekki við sama öryggi af áhættudreifingu og þeir sem fólu lífeyrissjóði það hlutverk. Seðlabankinn telur undanþágur til þess ekki rúmast meðal þeirra 1.000 árlegu matskenndu heimilda bankans.