Af hafsbotni Sæbjúgum af veiðislóðinni við Austfirði landað á Fáskrúðsfirði. Bjúgun enda öll í Kína þar sem þau eru notuð í heilsuvörur.
Af hafsbotni Sæbjúgum af veiðislóðinni við Austfirði landað á Fáskrúðsfirði. Bjúgun enda öll í Kína þar sem þau eru notuð í heilsuvörur. — Morgunblaðið/Albert Kemp
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Ég kæmi honum sennilega að bryggju í Borgarnesi með því að stjúka honum vel og gæti þá fengið mér hamborgara í Hyrnunni,“ segir Bergur Garðarsson, skipstjóri á Kletti MB 8, sem gerður er út á sæbjúgnaveiðar.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Ég kæmi honum sennilega að bryggju í Borgarnesi með því að stjúka honum vel og gæti þá fengið mér hamborgara í Hyrnunni,“ segir Bergur Garðarsson, skipstjóri á Kletti MB 8, sem gerður er út á sæbjúgnaveiðar. Klettur er 190 tonna togbátur og er langstærsti báturinn sem skráður hefur verið með heimahöfn í Borgarnesi í áratugi.

Fiskistofa hefur auglýst eftir leyfum til sæbjúgnaveiða á komandi fiskveiðitímabili. Heimilt er að veita að hámarki 9 leyfi en aflanum er ekki skipt á skip. Þannig fengu níu bátar leyfi fyrir yfirstandandi veiðitímabil. Þeir hafa forgang sem stundað hafa veiðarnar undanfarin ár.

Afli á sóknareiningu minnkar

Hafrannsóknastofnun skilgreinir þrjú veiðisvæði, Faxaflóa, Aðalvík og við Austfirði. Hámarksafli í Faxaflóa á yfirstandandi tímabili er 1.000 tonn, samkvæmt ráðgjöf Hafró, 1.400 tonn við Austfirði og 170 tonn í Aðalvík. Kvótarnir eru búnir eða langt komnir á þessum svæðum. Veiða má frjálst utan svæðanna. Heildaraflinn er orðinn liðlega 2.600 tonn, samkvæmt aflatölum á vef Fiskistofu.

Hámarksveiðarnar verða skornar mjög niður á komandi fiskveiðiári, samkvæmt ráðgjöf Hafró. Ástæðan er sú að afli á sóknareiningu hefur farið minnkandi síðustu ár í Faxaflóa og hratt minnkandi við Austfirði. Þannig verður hámarkið í Faxaflóa 644 tonn og 623 tonn við Austfirði. Hámarkið í Aðalvík hækkar örlítið, verður 190 tonn.

Bergur Garðarsson telur að breyta þurfi veiðistjórninni. „Mér þætti skynsamlegt að vera með skiptingu á leyfunum níu. Hver bátur fengi skerf af öllum svæðunum. Þeir gætu þá hliðrað á milli sín. Svo væri frjálst þar fyrir utan. Menn eru alltaf að fikra sig út á ný svæði.“

Veiðarnar hafa gengið ágætlega í sumar, að sögn Bergs. Hann hefur sótt á allar þrjár sæbjúgnaslóðirnar. Aflanum er ekið í Borgarnes.

Sveiflukenndur markaður

Meginhluta aflans er landað hjá þremur vinnslum, í Þorlákshöfn, Reykjanesbæ og Borgarnesi. Afurðirnar eru fluttar út til Kína, mest frosnar. Davíð Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri Aurora Seafood í Borgarnesi, segir að markaðurinn sé ágætur og hafi verið það í hálft annað til tvö ár. Tekur hann fram að markaðurinn sé sveiflukenndur.

„Þetta er selt sem heilsuvara, á svipaðan hátt og lýsið var hjá okkur Íslendingum,“ segir Davíð. Mikið af virkum efnum er í sæbjúgum og þær eru taldar gera fólki gott. Davíð segir að menn séu smám saman að færa sig nær markaðnum með því að þurrka sæbjúgun. Lengst er þróunin komin á Sauðárkróki en þar eru framleiddar liðverkjatöflur úr sæbjúgum.