Fjölhæf Elísabet Birta vinnur með mismunandi miðla í listsköpun sinni og má þar nefna gjörninga, dans, myndbandsverk, málverk, innsetningar og ljósmyndir.
Fjölhæf Elísabet Birta vinnur með mismunandi miðla í listsköpun sinni og má þar nefna gjörninga, dans, myndbandsverk, málverk, innsetningar og ljósmyndir. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is „Viðfangsefni sýningarinnar er klámvæddur poppkúltúr og áhrif hans.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

„Viðfangsefni sýningarinnar er klámvæddur poppkúltúr og áhrif hans. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvernig kvenlíkaminn er kyngerður út frá því ákveðna umhverfi,“ segir listakonan Elísabet Birta Sveinsdóttir sem sýnir sólógjörninginn Cold Intimacy í Mengi í kvöld klukkan 21.

Flakkar mikið á milli miðla

„Í verkinu er ég í raun að nálgast dansinn út frá myndlistinni þannig að þetta verður ákveðinn gjörningur. Það hefur verið í hausnum á mér í svolítinn tíma núna og það er komið ár síðan ég skrifaði umsókn til Reykjavíkurborgar og fékk smá styrk frá þeim. Ég vann verkið meðal annars í Gent í Belgíu þar sem ég starfaði í gestavinnustofu í tvær vikur. Ég sýndi verkið í vinnslu þar í landi auk þess sem ég sýndi það óklárað á LungA í sumar. Ég mun í raun sýna lokaniðurstöðuna úr rannsóknarvinnunni í Mengi í kvöld,“ segir Elísabet Birta en þess má geta að hún fékk einnig styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að vinna verkið sem er um fjörutíu mínútur að lengd. Hún vinnur með mismunandi miðla í listsköpun sinni og má þar nefna gjörninga, dans, myndbandsverk, málverk, innsetningar og ljósmyndir. Hún kveður það fara eftir hverri hugmynd fyrir sig hvaða miðill henti best.

„Það er mér mjög eðlislægt að flakka á milli miðla. Ég er með dansbakgrunn og fór síðan að gera myndbandsverk sem var eiginlega minn inngangur í myndlistina. Síðan hef ég verið að mála og gera skúlptúra og innsetningar. Það eru síðan bara hugmyndirnar sem kalla á það hvernig ég ákveð að tjá mig hverju sinni,“ segir Elísabet Birta en hún útskrifaðist af samtímadansbraut Listaháskóla Íslands árið 2013 og nemur nú myndlist við myndlistardeildina þar á bæ.

Klámvæddur poppkúltúr

Elísabet Birta hefur lagt mikla áherslu á rannsóknir á femínískum kenningum og fjórðu bylgju femínismans að undanförnu og til að mynda kannað umfjöllunarefni á borð við póst-femínisma í poppmenningu.

„Verkið er ekki bara femínískt heldur er ég einnig að fjalla um femínismann sjálfan sem slíkan. Femínismi er þó ákveðinn stimpill sem ég veit ekki hvort ég sé fullkomlega ánægð með því um leið og stimpillinn er kominn á verkið þá minnkar rödd listamannsins og verkið verður flokkað fyrir fram. Það dregur því svolítið úr möguleikunum sem verkið gæti annars boðið upp á. Mér finnst það í sjálfu sér þó einnig mjög áhugavert og það er vert að velta því fyrir sér hvað það þýðir að vera stimplaður kvenlegur og femínískur,“ segir hún.

„Ég set verkið einnig upp sem ákveðna persónulega narratívu þar sem ég fjalla um minn þroska og mína vitundarvakningu. Ég verð með myndbandsverk sem hluta af gjörningnum en þar má sjá mig sjö ára og saklausa, fimmtán ára að taka sjálfa mig upp að dansa þar sem ég er að spegla mig í fyrirmyndum poppkúltúrsins og svo nýlegra myndband þar sem ég er komin til vitundar um þessi áhrif sem klámvæddur poppkúltúrinn hefur. Ég er því í raun að nota sjálfa mig sem birtingarmynd,“ segir hún að lokum.