Ásta Pétursdóttir fæddist á Gautlöndum í Mývatnssveit 23. desember 1923. Hún lést á Dvalarheimilinu Hvammi, Húsavík, 19. júlí 2016.

Foreldrar hennar voru Sólveig Pétursdóttir, f. á Gautlöndum 4. maí 1885, d. 27. febrúar 1959, og Pétur Jónsson, f. í Reykjahlíð 27. apríl 1885, d. 9. janúar 1957. Systkini hennar voru Þóra, f. 9. febrúar 1910, d. 27. júlí 1930, Þuríður, f. 4. janúar 1912, d. 2. júní 1983, Pétur Gauti, f. 6. september 1914, d. 9. júní 1989, Þorgerður, f. 5. október 1916, d. 22. október 2008, Jón, f. 16. ágúst 1919, d. 21. október 1997, og Sigurgeir, f. 9. september 1926, d. 4. janúar 2008. Þau eru öll látin.
Ásta giftist 23. desember 1953 Hlöðver Þórði Hlöðverssyni, f. á Vík á Flateyjardal 8. október 1923, d. 27. nóvember 1993. Foreldrar hans voru Björg G. Sigurðardóttir frá Jökulsá á Flateyjardal og Hlöðver Jónsson frá Björgum.
Börn þeirra: 1) Hlöðver Pétur, f. 18. apríl 1955, maki: Kornína Björg , maki: Sigurður Víkingsson, f. 20. október 1956. Börn: a) Sólveig Ásta, f. 2. ágúst 1989, sambýlismaður: Magnús Sigurðsson. b) Anna Elísabet, f. 10. febrúar 1997.
Ásta ólst upp á Gautlöndum á fjölmennu heimili í stórum hópi systkina og frændsystkina. Skólaganga hennar var í hefðbundnum farskóla þess tíma. Um tvítugt var hún vetrarlangt í vist hjá frænkum sínum í Reykjavík og gafst þá tækifæri til að stunda kvöldskóla hjá Námsflokkum Reykjavíkur í Miðbæjarskólanum. Hún stundaði síðan nám í Húsmæðraskólanum á Laugum veturinn 1945-46. Sú dvöl var henni mikils virði og þar eignaðist hún vinkonur fyrir lífstíð.
Ásta og Hlöðver bjuggu á Laugum 1953-55, þar sem hann var bryti og kennari við Héraðsskólann og hún ráðskona í eldhúsi skólans. Þau fluttu síðan í Björg 1955, bjuggu þar fyrst félagsbúi með foreldrum og bræðrum Hlöðvers og seinna með sonum sínum og tengdadóttur.
Eftir andlát Hlöðvers bjó hún ein í sínu húsi í 15 ár allt þar til hún flutti á hjúkrunar- og dvalarheimilið Hvamm á Húsavík þar sem hún bjó síðustu sjö árin.
Útför Ástu fer fram frá Þóroddsstaðarkirkju í dag, 4. ágúst 2016, kl. 14.

Móðir góð, komin var stundin. Ekki alveg óvænt þegar þú komin vel á 93. aldursár, en alltaf mikið högg þegar það kemur. Ekki hægt að vera annað en þakklátur fyrir að þú fékkst að fara með svo góðum hætti leggst til hvílu að kvöldi með venjubundnum hætti og ert farin við innlit fyrri hluta nætur.
Þín persónugerð var alla tíð að ala önn fyrir öllum þínum og búa fólki í hag með þínum hætti. Það má segja að þessi persónugerð þín endurspeglist í því hvernig þú ert í burtu kvödd. Á besta tíma sumarsins, margir sem þér eru kærastir eru búnir að vera í kringum þig og eru heimavið. Einnig stórfjölskylda og vinir.
Að vísu vorum við fjölskyldan nýlögð upp í sumarleyfisferð erlendis. En tilviljun sú að við vorum örugglega lögð upp í ferðalagið, rímar við framar sagt, því oft hafðir þú óþarfar áhyggjur af því að álagið á mér við að snúast í kringum þig hin seinni ár, væri meira en hinna systkinanna. Með þessum hætti lendir fyrirhöfnin af næstu skrefum að mestu á þeim systkinum.
Reyndar ótrúleg tilviljun að segja má að þú hafir tekið flugið á sama tíma og við tókum flugið til Frakklands, þó þinn áfangastaður hafi verið annar. Kannski þú hafir viljað koma með okkur, í minningasjóði er einmitt fyrsta utanlandsferð þín, með okkur í frí. Ekki er örgrannt um að við teljum okkur hafa orðið þín vör hér. Falleg var stundin við morgunverðarborðið í blíðunni úti í garði, fyrsta morguninn á dvalarstað okkar. Fallegt lítið laufblað kom svífandi langa leið og lenti á diskbarmi mínum tilviljun?
Gnægð er í sjóði minninga og ánægjulegt hefur verið að hlýða á barnabörn þín rifja upp sínar minningar og heyra af mótunaráhrifum þínum á þau.
Gautlandaheimilið fjölmennt, mótaði þig í uppvexti, fjölskylda, ættingjar og annað dvalarfólk, sem dvaldi lengur eða skemur. Minningar frá þessum tíma skipuðu ríkan sess í þínum huga, að eðli máls.
Ekki var skólaganga þín löng, frekar en margra af þinni kynslóð, en nám þitt við Húsmæðraskólann á Laugum, hafði sterk mótunaráhrif og taugar þínar til skólans voru alla tíð sterkar.
Með þetta veganesti kemur þú sem húsfreyja í Björg 1955, skömmu eftir að þið pabbi tókuð saman, en fyrsta skeið ykkar hjúskapar höfðuð þið unnið saman við Héraðsskólann á Laugum. Húsfreyja á Björgum varð þitt ævistarf.
Bjargarheimilið var fjölmennt á þessum tíma og lengi síðar. Þú komst inn í búsforráð með tengdamóður þinni, Björgu Grímhildi. Þið voruð á margan hátt ólíkar, Björg þekkt sem víkingur til allra verka, úti og inni, svo ekki var í spor farið. En það heyrði ég frá þér að gagnkvæm virðing var í millum ykkar og samstarf gott.
Mikill gestagangur var á Björgum og alltaf rík áhersla á að taka á móti gestum af myndarskap. Lifandi er í mínu barnsminni þegar þú varst á þönum að töfra fram veitingar og ég lítill pattinn sendur með skál og ausu að fleyta rjóma ofan af mjólkurbrúsum í kælingu eða sækja eitthvað í birgðir í kaldri geymslu til nota. Af metnaði og áunnum hefðum voru veitingar að sem stærstum hluta heimatilbúnar.
Með árunum varð þetta síðan aðalsmerki þitt, sem þú með rýmri tíma, þegar árin færðust yfir, gast leyft þér að njóta og gleðjast yfir, þ.e. að reiða fram fallegt kaffiborð með fjölmörgum heimabökuðum sortum. Eru þær stundir í þínu eldhúsi, fjölmörgum sem nutu, eftirminnilegar.
Þitt ævistarf, húsmóðir á Björgum var ekki auðvelt starf, frekar en á öðrum bæjum í þann tíð. Þegar litið er til baka verður heldur ekki á móti mælt að umhverfið var karllægt, þannig var tíðarandinn. Auk húsmóðurstarfa innanhúss skyldu konur alltaf vera tilbúnar að létta undir í útiverkum. En aldrei heyrði ég þig kvarta, alltaf var verið að eins og heilsa leyfði og átti það við um ykkur bæði hjónin, allur tími nýttur, ekki með látum, heldur seiglu og drjúgu komið í verk.
Þegar yfir er litið, voru þínir skalar þeir mörgu smáu, sem snertu hið daglega líf fjölskyldunnar, ættingja og vina. Áhersla á vandaða daglega framgöngu í því sem fólk tók sér fyrir hendur. Ósjaldan var áherslan á að vera vel til fara og í minningu er sterkt að þegar þið hjón fóruð af bæ, var ekki stokkið af stað í vinnuklæðnaði, alltaf tekinn tími til að klæða sig upp á.
Ríkt í þinni persónugerð var alla tíð að rækta fjölskyldubönd og að fylgjast með gangi mála hjá öllum í fjölskyldunni og vítt um hjá ættingjum og vinum. Undravert var hvað þú til dæmis mundir aldur og afmælisdaga í stórfjölskyldunni nær og fjær, alveg fram á síðustu ár.
Þannig má áfram telja þau mörgu hversdagslegu gildi sem þú lagðir áherslu á, auðvitað voru sum þau gildi barn síns tíma, en heilt yfir lærði maður að meta þau og draga dám af þeim. Þegar síðan sér áhrifa þeirra stað hjá barnabörnunum, sér maður enn betur hvers virði þau eru. Lífsins einfaldi sannleikur eru jú sá, að ef vandað er til litlu atriðanna í kringum okkur, þá fylgja öll þau stærri í þann góða farveg.
Ekki verður svo farið yfir lífshlaup þitt, án þess að fjalla að nokkru um það sem fylgdi þér lengst af ævi, það er sá erfiði sjúkdómur þunglyndið. Á löngum köflum varstu ofan á í baráttunni, en einnig komu erfiðir kaflar þegar sjúkdómurinn náði yfirhöndinni.
Þekkt er að miklar framfarir hafa orðið í meðferð þunglyndis og skyldra sjúkdóma og þekking á þeim aukist. Aukin þekking hefur dregið úr fordómum gagnvart sjúkdómnum, sem voru miklir og því fékkst þú að kynnast. Meðferðarúrræðin voru ekki auðfengin fyrr á árum, almenna ráðið var fyrst og fremst að þrauka.
Áhrifavaldar voru dauðsföll hjá þér nánum á yngri árum. Þóra systir þín fellur frá eftir veikindi þegar þú ert á barnsaldri. Þegar þú varst 23 ára misstir þú jafnöldru þína, frænku og eina bestu vinkonu í flugslysinu í Héðinsfirði. Þessi alvarlegu áföll voru byrgð inni, að þeim tíðaranda sem þá var, en ekki unnið úr. Það var ekki fyrr nú á allra síðustu árum, sem þú fékkst til að ræða þetta og áhrif þessa á þig.
Þegar litið er til baka er eftirminnilegt hvað þið hjónin tókust sameinuð á við sjúkdómurinn þegar hann gerði vart við sig. Alltaf stóð faðir minn eins og klettur við hlið þér í gegnum þær hrynur, oft við erfiðar aðstæður og í ýmissi viðleitni við að leita lækningar. Það var því mikill missir fyrir þig þegar hann varð bráðkvaddur rúmlega sjötugur.
Þegar ellin færðist yfir eftir mörg gleðirík ár í þínu fallega húsi í sveitinni, sótti þunglyndið að. Í kjölfar þess flytur þú inn á Hvamm, heimili aldraðra á Húsavík og í umsjón úrvals fólks í umönnun, hjúkrun og læknismeðferð, ásamt uppsafnaðri reynslu af þínu mynstri í sjúkdómnum, tókst með mikilli natni og þolinmæði að halda honum frá á löngum köflum. Þannig var það þitt síðasta æviskeið og er það ómetanlegt. Vil ég þakka öllu umönnunarfólki, hjúkrunarfræðingum og læknum fyrir þeirra góða starf.
Þegar nú er litið til baka til endurtekinnar baráttu þinnar við þunglyndið, þá er mér auðvelt val að minnast fyrst og fremst sigranna í þeirri baráttu frekar en vonbrigðanna, sigrarnir voru jafnmargir. Sannarlega var óumræðanlega erfitt að sjá þinn glaðværa persónuleika sökkva niður í svartnætti þunglyndisins. Það tók ekki lítið á að sitja með þér, þá þú varst niður í dimmum dölum og í augum þér þvílíkur djúpur sársauki, að mann heilbrigðan verkjaði eftir. En í þeim sömu augum birtust líka fyrstu merkin, þegar gæta fór bata, þó ekki sæjust um það önnur merki, eftir oft erfiða bið. Mikil þjálfun var sú bið í að tapa aldrei trúnni á bata og í eflingu þolinmæðinnar.
Og að sjá þinn glaðværa persónuleika birtast smá saman, eru sigrarnir sem ég kýs að minnast, sigur ljóssins yfir myrkrinu, glaðs huga yfir svartnætti þunglyndisins.
Annað það sem alltaf hrjáði þig niðri í dimmum dölum, var að með heilsuleysi þínu hefðir þú valdið afkomendum þínum skaða í gegnum árin, en jafnoft andæfði ég og fullyrti að þvert á móti hefði þessi reynsla þroskað okkur og gert okkur að hæfari einstaklingum að takast á við lífsins fjölbreytileika. Það sama á við um barnabörnin þín, kynni þeirra af sjúkdómnum með þér, hefur gert þeim gott.
Að lokum vil ég draga upp mynd af síðustu stund okkar, sem var kveðjustund við upphaf ferðar okkar og raungerðist sem kveðjustundin síðasta og um margt svo einkennandi fyrir þig.
Fallegur sunnudagsmorgunn, þú komin inn á herbergi þitt eftir morgunhressingu og sast við borð þitt glaðleg og byrjuð að lesa í Árbók Þingeyinga. Efnið var frásögn með myndum af einstaklingum frá fyrri hluta síðustu aldar. Það gaf þér tilefni til að vera hreykin af fólki þess tíma, þó efni væru ekki mikil þá var fólk uppábúið, karlmenn á myndunum með hálstau og konur í upphlut.
Þá litið var upp úr Árbókinni, komu nokkrar athugasemdir um að sonurinn liti vel út og væri í fallegri skyrtu. Í þetta sinn hlífðir þú mér við glettinni ábendingu um að minnka þyrfti það sem væri innan við skyrtuna, en ábendingar slíkar fengum við bræður báðir reglulega.
Börn mín komu einnig að kveðja og tókst þú þeim fagnandi með þínu gleðiríka brosi, eins og þau nutu svo oft. Þú sýndir áhuga á fyrirhuguðu ferðalagi okkar sem Hlöðver Stefán skipulagði. Þú fræddist einnig af Ástu Soffíu um tónleikaröð sem hún hafði nýlokið. Að loknu góðu spjalli kvaddir þú síðan með góðum ferðaóskum.
Ég dvaldi lengur og þá fékkst þú tækifæri til að biðja mig, sem oft fyrr nú í seinni tíð, um að vökva blóm þín. Ekki svo að ágætt starfsfólk gerði það ekki af alúð, heldur var ástæðan sú að þér var mikils virði að einhver þér nákominn gerði það fyrir þína hönd, eftir að líkamleg geta þín leyfði það ekki lengur.
Þessi fallega kveðjustund verður dýrmæt minning um ókomin ár.
Þakka þér móðir góð allt og allt.. svo óendanlega.. allt.

Þorgeir Björn.

Elsku amma

Það er skrýtin tilfinning að skrifa þessi orð til þín. Þín, sem varst búin að undirbúa mig fyrir kveðjustundina okkar svo lengi. Við hlógum stundum að því að þú værir búin að kveðja mig í síðasta sinn í meira en tíu ár. Takk elsku stelpan mín fyrir allar góðu stundirnar okkar saman, þær eru mér svo dýrmætar sagðir þú og kysstir mig mörgum sinnum á kinnina. Og nú þegar ég skrifa þessi orð finnst mér svo erfitt að trúa því að þú sért farin. Að ég geti ekki hringt í þig og heyrt fallegu röddina þína og talað við þig um allt milli himins og jarðar.

Það geta engin orð lýst því hversu dýrmæt þú varst mér elsku amma. Við vorum svo góðar vinkonur, nöfnurnar. Alltaf þegar ég kom til þín tókstu á móti mér með stærsta brosinu og hlýjasta faðminum. Á meðan þú bjóst í sveitinni tókstu alltaf á móti mér með kjöt í karrý, hvort sem við komum um hádegi eða miðnætti, því það var jú uppáhaldsmaturinn minn. Alltaf gisti ég í afaholu og alltaf mátti ég velja jógúrt eða skyr eða hvað yrði pantað úr mjólkurbílnum eins og ég væri drottning í ríki mínu. Þér fannst nú gjarnan að ég ætti alltof mikið af fötum og hvernig ég gæti átt svona mikið af allskonar dóti. Mikilvægast þó var að fara vel með það sem maður átti, hvort sem það var kjóll, fallegt hár eða hátt enni. Hefðin og yfirvegunin einkenndi tímann okkar saman í sveitinni, að bera virðingu fyrir náttúrunni og fara sér ekki með offorsi.

Þú varst mér svo mikil fyrirmynd. Þegar ég fer yfir gömlu bréfin okkar sé ég hvað þú hefur alltaf hrósað mér mikið í námi og þá sérstaklega þeim greinum sem sneru að tungumálum, íslensku og bókmenntum. Þá vildi ég frekar að þú hefðir fengið verðlaun íslenskrar tungu en þessi Megas stendur í einu af ótal bréfum frá þér. Þó við höfum ekki verið sammála um ágæti verka Megasar þá finnst mér auðið að sjá hve mikla hvatningu þú hefur veitt mér í að fylgja mínum áhugamálum eftir og hafa trú á sjálfri mér.

Þegar ég hugsa um sambandið okkar finn ég hvað þú kenndir mér mikið um styrk. Því þrátt fyrir stóra brosið þitt og glaðværðina vissi ég að þú háðir grimmar baráttur hið innra. Og þó við höfum ekki talað um það opinskátt veit ég að þú barðist af öllu afli fyrir þeim gleðistundum sem þú áttir. Þegar ég kom til þín veturinn 2014 þegar þú háðir eina af þínum baráttum fyrir geðheilsunni fannst mér svo dýrmætt að fá að vera hjá þér og halda utanum þig, þig sem hafðir svo oft huggað mig og fengið mig til að brosa og vera sterk. Hvílíkan styrk get ég varla ímyndað mér eins og að glíma við andlegan sjúkdóm á tíma þar sem þekking og meðferðir voru ekki til staðar. Hve oft þú hefur upplifað þig vanmáttuga elsku amma mín. Þú verður alltaf fyrirmyndin mín og áminning um að styrkur birtist í ótal myndum, ekki síst í glaðværu brosi.

Ég mun þó fyrst og fremst minnast þín sem dýrmætrar vinkonu og mikils húmorista. Við vorum alltaf að hlæja að og með hvor annarri. Þú áttir ekki til orð á öllu flakkinu á mér alltaf hreint og hvenær ég ætlaði eiginlega að hætta að vera alltaf á þessum ferðalögum? Og ég stríddi þér á móti, við höfum nú mikið hlegið að því þegar ég hringdi í þig undir fölsku yfirskyni og spurði hvort þú hefðir áhuga á að styrkja Arionbanka á Íslandi. Þú svaraðir afar kurteislega, heyrðu vina mín, ég er meira fyrir að styrkja ýmis góðgerðarsamtök. Þegar ég sagði þér að ég stæði að baki samtalinu skelltir þú upp úr í símann og svona hlógum við saman það sem virðist í minningunni, endalaust.

Ég mun minnast þín sem gestrisnu ömmu minnar sem tók svo fallega á móti gestum, samverustundir með gestum voru alltaf heilagar, sama hver gesturinn var. Alltaf var uppbúið rúmið þegar við komum í heimsókn og alltaf kímdir þú fallega þegar ég spurði hvar ég ætti að gista.

Elsku amma, þú munt alltaf búa í hjartanu mínu, í hverju matarboði, í hverju fallegu sólarlagi, á hverjum sólríkum degi, í hverjum blómagarði verður þú hjá mér og minning þín mér nærri.

Vertu sæl, þín dótturdóttir,

Sólveig Ásta.