Ingibjörg Steinunn Jónsdóttir fæddist á Akureyri 31. ágúst 1948. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 25. júlí 2016.Foreldrar hennar eru Cecilía Steingrímsdóttir, f. 8. september 1929, og Jón Hallgrímsson, f. 31. október 1924, d. 14. september 1994. Ingibjörg var elst fjögurra systkina, hin eru: Jóhann Steinar, f. 19. nóvember 1949, Eggert Heiðar, f. 1. júlí 1951, og Heiðrún Helga, f. 22. september 1954.

Eiginmaður Ingibjargar er Guðmundur Gíslason, f. 24. mars 1937. Foreldrar hans voru Kristín Helga Sigurðardóttir, f. 6. júní 1897, d. 10 september 1986, og Gísli Gíslason, f. 5. desember 1897, d. 26. mars 1981, að Hóli Ólafsfirði. Ingibjörg og Guðmundur gengu í hjónaband í Akureyrarkirkju 2. maí 1970. Þau eignuðust tvær dætur: 1) Helgu Björgu, f. 29. desember 1969, sambýlismaður hennar er Páll Svavarsson. Eiga þau saman soninn Svavar Inga Pálsson, f. 2012. Helga á fyrir tvær dætur með Úlfari Agnarssyni, þær Eddu Heiðrúnu og Ingibjörgu Guðrúnu, f. 1989. Maki hennar er Jóhann Már Sigurbjörnsson, eiga þau saman dótturina Sesselíu Maríu, f. 2015. 2) Heiðu Jónu, f. 29. desember 1969. Hún er gift Jóni H. Eyþórssyni. Eiga þau saman tvo syni, þá Guðmund Inga, f. 1996 og Grétar Óla, f. 1997.
Ingibjörg lauk hefðbundinni skólagöngu frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Hún fluttist til Ólafsfjarðar árið 1970 að Ólafsvegi 17 þar sem hún bjó alla sína búskapartíð. Fyrstu þrjú árin var hún heima við með dæturnar, hún hóf síðan störf hjá Kaupfélagi Ólafsfjarðar þar sem hún vann í nokkur ár. Þá fór hún að vinna hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar þar sem hún átti 29 ára starfsferil.
Útför Ingibjargar fór fram frá Ólafsfjarðarkirkju 4. ágúst 2016.

Elsku besta amma mín mikið finnst mér sárt að kveðja þig. Þú ert sú kona sem að ég hef litið upp til í lífinu, sú kona sem að mig langar að líkjast þegar að ég verð "stór". Alltaf svo fín og vel til höfð, brún á hörund, með bleikt á kinnum og varalit á vörum, hann mátti aldrei vanta og var oft hlegið yfir því þegar að hinu ýmsu fjölskyldumeðlimir hringdu til þín og afa á skype og það var svarað en enginn sást við skjáinn, þá kölluðum við á þig "amma mín" þá heyrðist úr fjarlægð ég er alveg að koma, síðan birtist þú fyrir framan skjáinn brosandi þínu breiðasta. Að sjálfsögðu varstu að varalita þig fyrir okkur, það var sko ekki hægt að spjalla á skype nema vera varalituð fyrir fólkið sitt. Það var svo gaman að fylgjast með kvöldrútínunni þinni áður en þú fórst í háttinn. Alltaf barstu á þig gott andlitskrem og hreinsaðir húðina, settir á þig varasalva og ekki má gleyma handaáburðinum. Þú hugsaðir alltaf svo vel um þig og varst dugleg að næra sál þína og líkama þinn. Elsku besta amma mín, þú lýstir upp herbergi með brosinu þínu og hlátrinum þínum og þú talaðir alltaf um hversu mikilvægt það væri að hlægja, hláturinn þinn var svo smitandi. Þrátt fyrir veikindi þín þá var aldrei langt í hláturinn hjá þér og brosinu gleymdirðu aldrei. Þú varst svo sterk amma, ég dáðist af þér.
Við áttum þau mörg símtölin eftir að ég flutti suður og alltaf innihéldu þau hlátur og gleði. Við vorum líka oft búnar að kveðjast nokkrum sinnum í einu símtali en alltaf fundum við eitthvað nýtt að tala um. Það var svo gaman að tala við þig og nærvera þín var svo hlý og góð, faðmlögin þín voru þau hlýjustu og ekki skemmdi fyrir góði ilmurinn sem fylgdi þér þegar að þú breiddir út faðminn þinn. Þegar að kom að bakstrinum hjá þér þá var nákvæmnin í hámarki og ástina vantaði aldrei í brauðið. Þú hafðir svo gaman af því að baka og var maður ansi oft búin að fá að aðstoða þig við baksturinn á yngri árum og alltaf leyfði amma manni að smakka á deiginu. Við ömmubörnin þín elskuðum snælurnar, vínabrauðið, kleinurnar og döðlubrauðið sem að þú töfraðir fram í eldhúsinu þínu í Ólafsveginum.
Þú og afi höfðuð svo gaman af því að ferðast saman og voru þær margar útilegurnar sem þið buðuð mér með ykkur í um landið. Ég tel það ykkur að þakka hversu vel ég kann mörg lög og hversu gott ég kann að meta gamla íslenska tónlist. Því mikið var hlustað og sungið í bílnum þegar að haldið var á næsta áfangastað með tjaldvagninn í eftirdragi. Ég er svo þakklát fyrir allar stundirnar með þér og afa. Ég var líka svo heppin að fá að búa hjá ykkur í nokkur skipti. Og eru það þið sem eigið stóran þátt í því að móta mig í lífinu, Þú varst alltaf svo góð við alla og svo blíð og talaðir vel um allt og alla. Þegar að ég var lítil kenndirðu mér að vera góð við blómin og flugurnar og fara vel með hluti. Ég er alltaf svo stolt af því að segja að Inga og Mundi séu amma mín og afi minn. Þið voruð svo flott hjón sem geislaði af, þið leynduð aldrei hrifningu ykkar á hvort öðru og var svo fallegt að sjá hversu vænt ykkur þótti um hvort annað. Þegar að þið tókuð snúning sveifstu eins og engill í örmum hansa afa Munda, það var svo gaman að fylgjast með ykkur dansa. Þið elskuðuð að dansa saman og ljóminn og gleðin skein af ykkur. Ég tala oft um við Jóhann minn að við verðum að skella okkur á dansnámskeið því mig langi að dansa eins og amma og afi. þegar að það gerist amma þá veit ég að þú horfir. Þú hafðir dálæti af músík og oftar en einu sinni heyrðist í þér heima "hækkaðu Mundi" og þá dillaðirðu þér og söngst með. Ég og Edda systir grínumst oft með það að þú hafir verið eins og Stella í Orlofi í atriðinu þegar að hún dillar sér og dansar í eldhúsinu takandi úr innkaupapokunum. Ást þín á okkur barnabörnunum var svo mikil og alltaf er best að koma í ömmu og afa kot. Þið tókuð alltaf á móti okkur með ást, hlýju, kærleik og gleði. Þú hafðir alltaf mikið fyrir því að búa sem best um okkur þegar að við gistum, stundum hafðirðu of mikið fyrir því en það lýsir þér svo vel því þú vildir að okkur liði alltaf sem best og vildir allt fyrir okkur gera. Þú passaðir alltaf upp á að við værum aldrei svöng hjá ykkur og þér nægði aldrei að bera eina tegund af kræsingum á borðið heldur urðu þær að vera nokkrar. Dálæti þitt á ís og súkkulaði var mikil og var það aldrei langt undan þegar að gestir komu í heimsókn. Mér þykir svo vænt um góða nótt knúsin þín þegar að ég var að gista hjá þér og afa, þau innihéldu alltaf Guð gefi þér góða nótt og svo breiddirðu sængina undir tásurnar mínar svo mér yrði alveg örugglega ekki kalt. Mikið á ég eftir að sakna þess, en ég held minningunni þinni upp elsku amma og geri hið sama við Sesselíu Maríu. Ég er svo þakklát fyrir það að þú og afi hafið komið suður þegar að Sesselía María fæddist og að þú hafir gert vögguna hennar svona fallega og fína. Takk amma mín. Þú varst alltaf svo vandvirk og gerðir allt svo vel og gast dúllað þér lengi við að gera allt fínt. Þú varst svo stolt af langömmutitlinum og hafðir svo gaman af snúllu litlu. Við mæðgur erum svo heppnar að hafa getað fengið að koma til þín og afa oft undanfarna mánuði. Okkur leið svo vel hjá ykkur og það var svo gott að sjá gleðina sem Sesselía María gaf þér og afa. Mér verður það alltaf ofarlega í minni þegar að ég var að gefa Sesselíu að drekka þá passaðir þú alltaf upp á að það færi sem best um okkur og settir púða hér og þar í kringum okkur svo okkur liði sem best. Svona varst þú amma mín, hugsaðir fyrst og fremst um fólkið í kringum þig. Ég mun passa allar minningarnar okkar vel og vera dugleg að segja snúllu litlu frá þeim og sýna henni myndirnar og myndböndin af ykkur. Segja henni hversu yndisleg amma þú varst, sú allra besta. Ég verð dugleg að syngja fyrir hana Dansi Dansi Dúkkan mín. Ég mun líka alltaf minnast þín þegar að poppar upp gat á sokkaleistana mína. Þú gast elt mann á röndum með nál og tvinna því þú vildir ekki hafa mann í götóttum sokkum. Það er líka sóun að henda þeim. Ég lofa að gera mitt besta að stoppa í sokkana mína ef það kemur gat, með saumadótinu sem að þú gafst mér. Ég veit líka að afi Mundi og mamma verða dugleg að taka í moppuna þína og passa að rykið sé ekki að þyrlast um gólfin.
Mikið sem við litla fjölskyldan eigum eftir að sakna þín elsku amma mín. Jóhann minn talaði oft um hversu vænt honum þætti um þig og hversu góð þú værir alltaf við hann. Þú talaðir líka alltaf um hversu heppin ég væri að hafa hitt hann og tengdafjölskylduna mína. Við verðum dugleg að segja Sesselíu Maríu af ömmu Ingu Löngu sín sem var sú ljúfasta, hressasta og glaðlegasta.
Takk amma mín fyrir alla hjálpina sem þú og afi gáfuð mér.
Takk fyrir alla hjálpina í náminu.
Takk fyrir að hafa komið óvænt og séð mig útskrifast. Þú og afi eigið stóran þátt í því að ég náði að setja tvær húfur upp.
Takk fyrir öll faðmlögin, knúsin og ástina
Takk fyrir allar stundirnar sem við áttum saman.
Takk fyrir að kenna mér allt sem þú kenndir mér til dagsins í dag. Ég veit ég mun halda áfram að læra af þér og svo kenni ég Sesselíu Maríu og hún börnunum sínum.
Takk fyrir að vera miklu meira en amma mín. Þú varst líka besta vinkona mín.
Ég mun alltaf hugsa um þig þegar að ég set á mig varalit, naglalakka neglurnar og þegar að ég borða súkkulaði.
Þakklæti er mér ofarlega í huga, ég tel mig heppna og ég er ríkust að hafa átt þig sem ömmu og afa Munda sem afa. Við pössum afa Munda fyrir þig og ég veit þú vakir yfir Sesselíu Maríu.
Elsku amma mín þangað til við hittumst næst. Guð gefi þér góða nótt. Ég elska þig. Þín ömmustelpa og nafna,


Ingibjörg Guðrún.