Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Svavar Pétur Eysteinsson kallar sig ekki grænmetisætu. „Ég myndi frekar kallast „flexitarian“. Ég er svona 99% grænmetisæta, og öll mín eldamennska og mataræði hverfist um grænmetið, en um leið bý ég hér í miklu landbúnaðarhéraði og hluti af rótgróinni menningu staðarins að t.d. rammíslensk kjötsúpa kunni að verða á boðstólum.“
Svavar, sem rekur matvælafyrirtækið Havarí, borðar einnig fisk, mjólkurvörur og egg og er það fyrst og fremst kjötið sem hann reynir að forðast. Ástæðan er umfram allt samúð með dýrunum. „Ég hætti að borða kjöt árið 2012, að mig minnir, því mér var hætt að lítast á blikuna í verksmiðjulandbúnaði. Löngu áður var ég farinn að sneiða hjá kjötáti á ferðalögum til útlanda. Með breyttri neyslu vildi ég leggja mitt af mörkum til að fækka drápum á dýrum,“ segir hann.
En að segja skilið við kjötvörurnar er ekki auðvelt fyrir alla og margir sem hika við að taka þetta skref af ótta við að þurfa þá að lifa af litlu öðru en salati og sellerístöngum. „Það er ákveðin upplifun sem fylgir mörgum kjötréttum. Fitan og safinn gefur bragð sem fólk sækir í og á pönnunni, í ofninum eða á grillinu verður til þessi stökka skorpa sem gaman er að bíta í. En það er misskilningur að ekki sé hægt að upplifa það sama með grænmetisfæði.“
Feit og safarík
Svavar framleiðir grænmetispylsurnar Bulsur (www.bulsur.is) og falla þær í flokk safaríkari grænmetisrétta sem finna má. „Hún gerði fljótlega vart við sig hjá mér, þessi fýsn í pylsur. Gerist það svo að ég pantaði mér grænmetispylsu á veitingastað í Árósum og kom þjónninn með þennan flotta vegan-pylsurétt handa mér. Pylsan reyndist vera betri á bragðið en margar kjötpylsurnar sem ég hafði smakkað í gegnum tíðina.“Eftir ítarlegar tilraunir litu Bulsur dagsins ljós. Uppistaðan er lífrænt bankabygg ræktað á Vallanesi. Einnig innihalda Bulsurnar lífrænt ræktaðar nýrnabaunir en chia- og hörfræ eru notuð bæði sem næringargjafi og bindiefni. Reykt paprika, chili og hvítlaukur gera Bulsu-pylsuna bragðsterka og sparar Svavar heldur ekki olíuna svo að pylsan er safarík og feit eins og hún á að vera.
Plastfilma heldur Bulsunni saman, rétt eins og gert er með bjúgu. „Þessi filma er einu umbúðirnar, Bulsunum er ekki pakkað í frekara plast,“ útskýrir Svavar en Bulsur má finna í flestum matvöruverslunum.
Þegar plastið er farið af má t.d. steikja Bulsuna á pönnu eða grilli. „En einnig má bregða á leik og kremja pylsuna í buff svo að úr verða hamborgarar, eða fletja hana mjög þunnt og er þá komin skinka á samlokuna.“
Fjölbreyttari borgarar
Svavar er hrifinn af steiktum og grilluðum mat og leggur ekki endilega alltaf ofuráherslu á hollustuna. Rata pylsur og borgarar oft á diskinn og segir hann að ef eitthvað er þá verði réttirnir meira spennandi þegar grænmeti er uppistaðan. „Þegar maður borðar hamborgara með kjöti þá er maður á vissan hátt alltaf að borða sama borgarann, enda buffið yfirleitt frekar svipað. Í grænmetishamborgurum er hins vegar hægt að nota ótrúlegt úrval hráefna og gera endalausar tilraunir með ólíkar tegundir bauna, og með fræin sem notuð eru sem binding. Útkoman er matur sem er bæði mjög „djúsí“ og fjölbreyttur,“ segir Svavar og bætir við að franskar kartöflur séu vegan og sömuleiðis tómatsósa, sinnep og BBQ-sósa.Það fjölgar möguleikunum hjá Svavari að hann neytir mjólkurvara, en jafnvel ef þeim er sleppt er hægt að gera ótalmargt freistandi og fitandi góðgæti. Berst talið út í eftirréttina og nefnir Svavar ísgerð þar sem haframjólk er uppistaðan. „Ég hef verið að gera tilraunir með þannig ísgerð fyrir sjálfan mig, en ekki tekist alveg nógu vel en vel heppnaður haframjólkurís er síst lakari en hefðbundinn mjólkur- og rjómaís og eitthvað sem sælkerarnir ættu hiklaust að setja fókusinn á.“