Sveinn Bjarnason fæddist 29. júlí 1931. Hann lést 17. ágúst 2016.

Útför Sveins fór fram 23. ágúst 2016.

Sveinn Bjarnason hefur verið samofinn lífi mínu svo lengi sem ég man. Hann lærði og starfaði hjá afa mínum Valdimari G. Þorsteinssyni byggingameistara. Árið 1964 urðu svo fjölskyldur okkar sambýlisfólk í Álftamýri 6. Bróðir minn leit dagsljósið skömmu eftir að við fluttum og ég fór í pössun, þegar heim kom vildi ég ekki líta nýfæddan drenginn augum. Mamma hótaði því að „Sveinn húsvörður myndi þá bara taka mig.“ Ég furðaði mig á því í áranna rás hvað konunni gekk til því um einstakt ljúfmenni var að ræða.

Erla, Sveinn og strákarnir Óli og Grétar voru partur af fólkinu í blokkinni. Þegar háttatími var kominn kallaði Erla á strákana – já, þá voru líka útivistarreglur. Ég fór stöku sinnum til Erlu og strákanna þar sem við vorum trakteruð á kökum og mjólk. Það var eitthvað í fasi Erlu og skörungskap hennar sem fékk mig til að hugsa „já, svona kona ætla ég að vera þegar ég verð stór“. Þetta eru vissulega minningar úr æsku, en svona var lífið í þá daga. Dag einn ákvað Sveinn að fara í ökutíma og fá bílpróf. Ég man eftir því hvað hann var fínn og flottur þegar hann fór í ökutímana, hann eignaðist svo forláta Willys '48. Þá minnist ég þess á snjóþungum degi, þegar hann kom út með sveifina og trekkti bílinn í gang. Þetta gerði enginn nema Sveinn.

Sveinn var meðlimur í flugbjörgunarsveitinni og þegar maður sá kappann koma eða fara í leit fylltist ég lotningu að þekkja svona mann sem fór út í óvissuna að bjarga fólki.

Sveinn starfaði síðan við byggingu á húsi foreldra minna með afa og var hann við störf sín þar þegar afi kom rétt til að líta eftir framkvæmdunum, þá kominn úr vinnugallanum og í jakkafötin sín er hann varð skyndilega brákvaddur á staðnum og þar var Sveinn til taks, eftir þetta urðu tafir á byggingu hússins. En síðar kom meistari Valur Benediktsson húsasmiður til sögunnar en hann og Sveinn Bjarnason störfuðu ávallt saman eftir þetta. Þeir félagar Valur og Sveinn voru mér innan handar við smíðar og lagfæringu á hýbýlum mínum, þar voru þúsundþjalasmiðir á ferð og verða þeim seint þökkuð þau störf, útsjónarsemi og listahandbragð, einstakir fagmenn og ljúflingar þar á ferðinni.

Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á viðtal við mann sem sagði frá hjólatúrum sem hann fór í en hann sagðist hafa hitt annan ungan mann við fjallsbrún sem var á leið í göngu og einnig á hjóli. Ég þóttist fullviss um að þarna væri verið að ræða um Svein. Tilgátan mín reyndist rétt því þetta var hinn eini og sanni Sveinn Bjarnason. Þeir tveir urðu svo ævilangir ferðafélagar. Þegar ég í dag horfi á öll háhýsin í Reykjavík í miklu roki, verður mér hugsað til Sveins sem sagði að ég ætti að labba sem næst háhýsunum í miklu roki því þau væru eins og fjöllin varðandi vindinn.

Minningar mínar um Svein eru vissuleg tengdar æskunni; þegar hann sneið út spaða úr afgangsvið á verkstæðinu í kjallaranum á Miklubrautinni hjá afa eða þegar hann sló blettinn eða þvoði gluggana. Hvað mér þótti hann góður að gera þetta allt fyrir ömmu, en svona vann hann fyrir afa. Nú við þessi umskipti lífs og dauða og heimkomu í handanheim almættisins hefur verið vel tekið á móti einstökum hugsuði og mannvini og þau Erla sameinast þar á ný og sennilega er neftóbaksdósin ekki langt undan og englar alheimsins farnir að hnerra.

Blessuð sé minning Sveins Bjarnasonar.

Jóhanna B. Magnúsdóttir.