Framkvæmdir Nóg að gera.
Framkvæmdir Nóg að gera. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Allir helstu mælikvarðar í efnahagsmálum benda til vaxandi eftirspurnar. Jafnframt virðast fyrirtæki eiga erfiðara með að manna störf þrátt fyrir töluverðan innflutning vinnuafls.

Allir helstu mælikvarðar í efnahagsmálum benda til vaxandi eftirspurnar. Jafnframt virðast fyrirtæki eiga erfiðara með að manna störf þrátt fyrir töluverðan innflutning vinnuafls. Þetta segir í nýju hefti Peningamála , rits Seðlabanka Íslands, sem kom út í vikunni.

Störfum fjölgar um 3%

Í ritinu, þar sem er farið vítt yfir sviðið og efnahagsmálin greind, er sagt er frá því að á öðrum fjórðungi líðandi árs hafi störfum fjölgað um 3%, að því er fram komi í vinnumarkaðskönnun sem Hagstofan gerði. Standi það á pari við spár bankans. Meðalvinnuvikan haldi þó áfram að styttast. Fjölgun heildarvinnustunda hafi verið hægari en spáð var eða 2,5% í stað 3%. Atvinnuleysi hafi 3,6% en farið niður 2,7% þegar árstíðabundin sveifla var tekin með í breytuna.

Að mati Seðlabankans verður atvinnuleysi 3,3% í ár. Líklegt er svo talið að atvinnuleysið hjaðni lítillega til viðbótar á næsta ári en nái svo jafnvægi til lengri tíma.

Launahækkanir sem kveðið er á um í síðustu kjarasamningum hafa komið fram í launavísitölu, segir Seðlabankinn, og bendir á að launavísitalan hafi hækkað um 2,8% milli fjórðunga og um 13% frá fyrra ári en kaupmáttur aukist 11,2% milli ára. Forsendur um launaþróun séu því svipaðar og í maí síðastliðnum.

Spenna á vinnumarkaði

„Líkt og þá er ekki gert ráð fyrir að endurskoðun kjarasamninga í febrúar á næsta ári leiði til frekari launahækkana en miðað við þá spennu sem virðist vera að myndast á vinnumarkaði gæti launaskrið verið vanmetið,“ segir í Peningamálum. sbs@mbl.is