Óttar Björnsson fæddist 3. júlí 1929. Hann andaðist 15. júlí 2016.
Útför Óttars fór fram 25. júlí 2016.
Óttar er farinn. Hann kvaddi okkur 15. júlí 2016 og var jarðsunginn 25. júlí síðastliðinn. Þessi kraftmikli maður varð að lúta í lægra haldi fyrir ólæknalegu krabbameini. Í heil þrjú ár barðist hann við þennan vágest af þvílíku æðruleysi og hugrekki og aldrei var kvartað, það var ekki til í hans orðaforða.
Hver var Óttar? Hann var fæddur að Syðra-Laugalandi í Eyjafjarðarsveit 3. júlí 1929, sonur Björns Jóhannssonar og Emmu Elíasdóttur. Þar ólst hann upp í fjölmennum systkinahópi á mannmörgu heimili. Er Óttar var sextán ára fór hann í Héraðsskólann á Laugarvatni og var þar í tvo vetur. Seinna fór hann í Bændaskólann á Hvanneyri í einn vetur sem hann lauk með lofsverðum vitnisburði fyrir frábæran námsárangur og dugnað.
Óttar var glæsilegur ungur maður, það sópaði af honum hvert sem hann fór, glaðvær og hrókur alls fagnaðar, hagyrðingur góður, talaði fallegt og kjarnyrt mál og góður söngmaður.
Ég tala nú ekki um hvað hann var góður sögumaður og voru þær ófáar stundirnar um ævina sem hann skemmti fólki með alls konar skemmtisögum og vísum, eftir aðra og einnig eftir sjálfan sig.
Ævistarfið sem hann valdi var bóndastarfið. Hann gat ekki hugsað sér annað en að eiga heima í sveitinni. Hann tók við búi af foreldrum sínum árið 1966 á Syðra-Laugalandi og bjó þar í sex ár en flutti þaðan að Garðsá í sömu sveit og keypti þá jörð eftir eins árs búsetu og bjó þar í 30 ár. Eiginkona Óttars hét Steinunn Gísladóttir frá Sámstöðum, glæsileg kona. Þau hjón voru mjög samhent í öllu og góð heim að sækja. Þau eignuðust fjögur mannvænleg börn sem eru öll dugandi fólk og með tímanum eignaðist Óttar átta barnabörn.
Mjög snemma fór Óttar að taka þátt í félagsmálum í sinni sveit og var þar liðtækur og drífandi eins og í öllu sem hann kom nálægt.
En aðalstarfinu sem bóndi sinnti hann vel, var farsæll í starfi, bjó góðu búi og bætti jörð sína mikið á sinni búskapartíð, bæði með nýbyggingum og ræktun.
Þegar Óttar var um sextugt lét hann gamlan draum rætast og fór í myndlistarnám og málaði aðallega landslagsmyndir.
Árin liðu og árið 1997 verður Óttar fyrir þeirri sorg að missa konuna sína tæplega sjötuga. Eftir þetta vann hann á búi Orra sonar síns og tengdadóttur sinnar um nokkurra ára skeið.
Og enn tók lífið u-beygju í lífi Óttars eftir að hann kynntist mér undirritaðri og flutti til mín að Ytra-Laugalandi. Þá var mín staða þannig að ég var orðin ekkja fyrir nokkru. Óttar aðstoðaði mig á margan hátt er ég opnaði ferðaþjónustu á heimili mínu árið 2007.
Í veikindastríði hans reyndust læknarnir Friðbjörn R. Sigurðsson og Nick Cariglia honum afskaplega vel og mest og best treysti hann á Nick. Enda brást hann honum ekki og alltaf gat hann tekið hann í meðferð og ekki má gleyma hjúkrunarfræðingunum í heimahlynningu, þær reyndust honum frábærlega vel.
Ég vil þakka Óttari samfylgdina þessi ár okkar saman, alla hjálpsemina, og þennan drifkraft í að láta hlutina ganga og að láta gott af sér leiða. Ég kveð Óttar með virðingu.
Vilborg G. Þórðardóttir,
Ytra-Laugalandi.