Formannafundur Landssamtaka sauðfjárbænda (LS), sem haldinn var á Barðaströnd í gær, krefst þess að stjórnir og stjórnendur afurðastöðva dragi boðaðar afurðaverðlækkanir til bænda til baka, áður en „óafturkræf áhrif koma fram í íslenskri...

Formannafundur Landssamtaka sauðfjárbænda (LS), sem haldinn var á Barðaströnd í gær, krefst þess að stjórnir og stjórnendur afurðastöðva dragi boðaðar afurðaverðlækkanir til bænda til baka, áður en „óafturkræf áhrif koma fram í íslenskri sauðfjárrækt og sveitum landsins“. Jafnframt skorar fundurinn á þá sláturleyfishafa sem ekki hafa enn gefið út verðskrár að virða „lögmætt og hófstillt“ viðmiðunarverð LS.

Viðmiðunarverð LS gerði ráð fyrir 12,5% hækkun afurðaverðs til bænda frá síðasta ári. Norðlenska, Sláturfélag Vopnfirðinga og SAH afurðir á Blönduósi hafa aftur á móti tilkynnt 10-12% lækkun á dilkaverði. Stórir sláturleyfishafar, svo sem kjötafurðastöð KS á Sauðárkróki, Sláturhús KVH á Hvammstanga og SS á Suðurlandi, hafa enn ekki auglýst verðskrár sínar. Sláturtíð hefst hjá Norðlenska 5. september en um miðjan mánuðinn hjá mörgum öðrum.