[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimsmeistara- og Evrópumót ungmenna eru stærstu skákmótin fyrir unga skákmenn í dag. Þau eru haldin árlega og eru opin piltum og stúlkum í sex aldursflokkum á aldrinum 8-18 ára.

Heimsmeistara- og Evrópumót ungmenna eru stærstu skákmótin fyrir unga skákmenn í dag. Þau eru haldin árlega og eru opin piltum og stúlkum í sex aldursflokkum á aldrinum 8-18 ára. Þar sem alþjóðlega skáksambandið, FIDE, hefur haft aðsetur í Rússlandi í meira en 20 ár hefur þróunin orðið sú að þessi mót hafa nær undantekningarlaust verið haldin í grennd við höfuðstöðvarnar; Tyrkland, Svartfjallaland, Slóvenía, Grikkland og Georgía eru nokkur lönd sem íslensk ungmenni hafa átt kost á að sækja heim á undanförnum árum.

Evrópumót ungmenna sem lýkur um helgina fer fram Prag í Tékklandi og þar tefla íslensku keppendurnir, sem er ellefu talsins, við geysiöflugt lið því austurblokkin með Rússa, Úkraínumenn, Asera og Armena, svo nokkrar þátttökuþjóðir séu nefndar, hefur að venju sterka viðveru.

Yngstu íslensku keppendurnir eru þeir Bjartur Þórisson 7 ára og Tómas Möller sem er 8 ára og tefla þeir í keppnisflokki drengja 8 ára og yngri. Ásamt Benedikt Þórissyni sem teflir í 10 ára flokknum fá þeir sér þannig reynslu sem síðar mun reynast dýrmæt. Það sést best á frammistöðu hinnar 10 ára gömlu Freyju Birkisdóttur sem hefur hlotið 4 vinninga af sjö mögulegum en hún tefldi á HM ungmenna í Grikklandi í fyrra og þekkir því vel til á þessum vettvangi.

Akureyringarnir Símon Þórhallsson og Jón Kristinn Þorgeirsson hafa virkað æfingalausir þrátt fyrir góða spretti. Það sama gildir um Gauta Pál Jónsson og Robert Luu. Þrír íslensku keppendanna tefldu á Ólympíumóti 16 ára og yngri í Slóvakíu á dögunum: Vignir Vatnar Stefánsson hefur ekki náð sér á strik og er með 3 ½ vinning af sjö mögulegum sem er nokkuð undir ætluðum árangri þó hann hafi yfirleitt skilað góðum árangri á þessum mótum. Tvíburabræðurnir Björn Hólm og Bárður Örn Birkissynir hafa hinsvegar náð góðum árangri og Bárður, sem er með 4 vinninga, hefur verið í mikilli framför undanfarin misseri. Þegar frammistaða Freyju bætist við geta þau systkin verið ánægð með sinn hlut í Prag. Í 6. umferð vann Bárður hollenskan skákmann á sannfærandi hátt í eftirfarandi skák:

EM ungmenna 2016:

Kevin Nguyen – Bárður Örn Birkisson

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 a6 4. Ba4 Rf6 5. d3 d6 6. c3 g6 7. h3 Bg7 8. Bg5 h6 9. Be3 O-O 10. Rbd2 Rh5 11. g3 Bd7 12. Bc2 De8!

Uppbygging svarts minnir á kóngsindverska vörn. Drottningin gefur f-peðinu lausan tauminn með því að valda riddarann á h5 óbeint.

13. De2 f5 14. O-O-O f4 15. gxf4 exf4 16. Bd4 Rxd4 17. Rxd4 b5

Hann gat líka leikið 17. ... c5, nú er ein hótunin 18. ... b4 o.s.frv.

18. R2f3 c5 19. Bb3+ Kh7 20. Rc2 Bc6 21. Hhe1 a5 22. Dd2?

Byrjun hvíts hefur verið stefnulaus og þessi leikur bætir ekki úr skák. Hann varð að forða biskupinum með 22. Bd5.

22. ... c4!

Króar biskupinn af.

23. dxc4 a4 24. cxb5 axb3 25. axb3 Bxb5 26. Dxd6 Hf6 27. Dd5 Bc6 28. Dd3 Hf7 29. Rfd4 Bd7 30. e5 He7 31. e6

E-peðið var að falla og ekkert mótspil hefst upp úr þessu.

31. ... Bxe6 32. De4 Ha6 33. b4 Bf6 34. b5 Hd6 35. Dd3 Bd7 36. c4 Hxe1 37. Hxe1

37. ... Hxd4!

Nú fellur enn meira lið. Eftirleikurinn er auðveldur.

38. Df3 Df7 39. Rxd4 Bxd4 40. De2 Bxh3 41. b4 Rg7 42. Hd1 Da7 43. Dd2 Da3+

- og hvítur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Höf.: Helgi Ólafsson helol@simnet.is