Evelyn Glennie
Evelyn Glennie
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Evelyn Glennie var einnig í snilldarham í einleiksverki íslenska tónskáldsins Áskels Mássonar, sem byggt er á fyrstu 15 tölum prímtalnaraðarinnar.

„Evelyn Glennie var einnig í snilldarham í einleiksverki íslenska tónskáldsins Áskels Mássonar, sem byggt er á fyrstu 15 tölum prímtalnaraðarinnar. Þetta er agað, afbragðs-slungið sýningarverk,“ ritaði hinn virti tónlistargagnrýnandi Rebecca Franks í The Times um flutning Evelyn Glennie á tónverkinu Prím eftir Áskel Másson á Cheltenham-tónlistarhátíðinni sem fram fór fyrr í sumar.

Verkið flutti Glennie nánar tiltekið í Cheltenham Town Hall en hún hefur flutt verk Áskels Mássonar víða um heim á síðustu tveimur áratugum, m.a. á miðju gólfi lestarstöðvar, í mörgum af virtustu tónleikasölum heims og meira að segja í Buckingham Palace eða sjálfu heimili Bretadrottningar, Elísabetar II.

Prím hefur einnig verið valið skylduverkefni í alþjóðlegu slagverkskeppninni í New York í október nk. og nýlega var Áskell settur í heiðursnefnd í slagverksdeild PAS (Percussion Arts Society) á Ítalíu í tilefni af því að verk hans hafa verið skylduverkefni hátíða og keppna þeirrar deildar í 14 ár samfleytt.